Skip to main content
Greinar

„Veistu, ég er frekar sorgmædd núna. En mig langar ekki að tala neitt um það.“

By desember 28, 2016No Comments

Kristrún Heiða

Það vill enginn leyfa sinni sorg vera byrði á öðrum. Þess vegna er flókið að vera sorgmæddur og sakna um jólin, eða á aðventunni eða mitt í gleði annarra. Því sorgin er aldrei „búin“, hún er ekki tilfinning sem klárast og hverfur. Hún er kennd sem breytist bara með þér, og er þarna. Svo er hún einna sárust á jólunum.

Það er svo magnað hvernig tónlistin skrúfar sig inn í mann. Og ég veit ekki með ykkur, en það er tónlistin sem kveikir söknuðinn minn – hún sendir mig svo auðveldlega aftur í tímann og í tilfinninguna þá. Þess vegna get ég ekki hlustað á Sigurð Guðmundsson syngja um „jólin fyrir sér“ án þess að gráta aðeins – inn í mér eða hreinlega tárast á ljósunum við Miklubrautina. Og þegar dóttir mín spyr hvort ég sé að gráta þá segi ég: „Nei, nei, ég er bara svo kvefuð.“ Ég mun bara aldrei geta hlustað á þetta lag án þess að sakna pabba míns. Það eru fimm ár síðan hann dó og sorgin mín er orðin öðruvísi í laginu núna. Hún er kunnugleg, og stundum ljúf og ég kann á hana. Fagna henni jafnvel því hún minnir mig á hvers virði hann er mér enn þann dag í dag.

En það hefur aldrei hjálpað mér neitt að ræða hana eða kryfja. Ég segi heldur: „Veistu, ég er frekar sorgmædd núna. En mig langar ekki að tala neitt um það.“ Sorgin er að mörgu leyti jafn persónuleg og trúin.

Svo við pukrumst með sorgina okkar, ekki síst á aðventunni og á jólunum, þegar það á að vera gaman. Þegar það á að vera ró, og gleði og hátíðleiki og fjör. Sorg slær aðra út af laginu og enginn vill „eyðileggja“ jólin. Við getur ekki beinlínis útskýrt sorg með orðum eða þögn, og það er ekki sanngjarnt að fólk þurfi að réttlæta tilfinningar sínar eða afsaka þær. Og hvað gerir maður þá, við sjálfa/n sig og sorgina?

Við biðjum um það sem við þurfum. Það hjálpar öllum. Ef við þurfum frið og ró, þá óskum við þess. Ef við þurfum félagsskap og fjör – óskum þess þá og verum ófeimin við það. Ef við vitum ekki hvað við þurfum, játum þá bara óvissuna. Það er hægt að vera sorgmæddur og glaður á sama tíma. Sorgmædd og stressuð líka. Það er hægt að hlæja í sorginni, brosa og vera þakklátur og vongóður og stríðinn. Sorgin er að því leiti ágætis fylgihlutur í tilverunni, og fyrir mér er hún engin byrði. Hún bara er.

Gleðilega hátíð öllsömul, í gleði og sorg

Greinin birtist upphaflega í Nútímanum