Skip to main content

Sjálfsskaði og sjálfsvíg

Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum að notast við skaðleg bjargráð á borð við sjálfsskaða eða hugsa um dauðann. Það er skiljanlegt að hugsa stundum um dauðann eða eiga erfitt með að hugsa sér lífið við óbreytt ástand. Við teljum sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og -tilraunir ekki merki um neinn undirliggjandi “geðsjúkdóm”. Núverandi stefna í samfélaginu sjúkdómsvæðir þessa þjáningu og leggur ofuráherslu á einstaklingsþætti, t.d. auka þrautseigju okkar, meðhöndla með einstaklingsviðtölum, meðferð eða lyfjaávísun. 

Okkar reynsla er sú að öngstræti sé oftast samspil lífsreynslu og samfélagsþátta á borð við jaðarsetningu, fátækt, ofbeldi eða heimilisleysi. Þessi mikla vanlíðan verður því ekki til í tómarúmi. Orsakir vanlíðunar má líka finna í nærumhverfi okkar og getur verið afleiðing álags, áfalla, ástvinamissis, sambandsslita, langvinnra verkja eða veikinda, vinnuaðstæðna, fjölskyldumynsturs, erfiðra samskipta og fleiri atburða sem eru hluti af lífinu. Þegar þessar aðstæður eru viðvarandi eða við fáum ekki þann stuðning sem við þurfum í okkar nærumhverfi eða í samfélaginu þá getur þetta orðið okkur ofviða.

Rætur vandans:
Myndin sýnir sameiginlegan jarðveg samfélagsþátta sem við teljum orsaka ýmsar krefjandi tilfinningar og hafa þær afleiðingar sem tilgreindar eru í laufkrónu trésins. 

Innan Hugarafls leynist mikil og djúpstæð persónuleg reynsla á málefninu. Við höfum verið beðin um að tala á ýmsum málþingum, koma að stefnumótun í málaflokknum, á ýmsa vinnufundi hjá heilbrigðisráðuneytinu og í ýmis konar samstarf.

Innan Hugarafls starfar svonefndur “Hlustaðuhópur” sem samanstendur af ungu fólki með persónulega reynslu af málefninu. Þau hafa haldið opna viðburði, skrifað greinar, farið í viðtöl og eru nú að skrifa bók sem byggir á persónulegri reynslu þátttakenda af því að hafa verið í öngstræti, stundað sjálfsskaða og/eða reynt að taka eigið líf. Í bókinni miðlum við hugmyndafræði valdeflingar, batahugmyndafræði, mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins og horfum heildrænt

á aðdraganda vanlíðunar miðað við samfélagslega þætti og fyrri áföll einstaklingsins. Bókinni er ætlað að auka skilning og breyta áherslum í þessum málaflokki.

Nánar um verkefni Hlustaðuhóps:

Þann 12. september 2019 var einstakur viðburður haldinn í húsnæði Hugarafls. Fimm ungmenni á aldrinum 18-30 ára sögðu frá eigin reynslu af sjálfsskaða, sjálfsvígshugsunum og -tilraunum. Þau drógu fram rauða þræði um hvað virkaði og hvað mætti betur fara í þessum málaflokki, hvort heldur sem það varðar geðheilbrigðisþjónustu, menningu, samfélag eða stuðning ástvina. Að loknum erindunum sátu þau fyrir svörum. Viðburðurinn sneri við hefðbundnum pallborðsumræðum þar sem unga fólkið sem gjarnan er rætt er um, stjórnaði umræðunni, og forsvarsmenn úrræða og stjórnsýslunnar sátu á fremsta bekk meðal áheyrenda.

[hlekkur á streymi af facebooksíðu] [myndir frá pallborðsumræðum] 

Í framhaldi af þessum viðburði hélt verkefnahópurinn áfram að hittast og vinna samfellt skjal með þeim helstu punktum og áhersluatriðum sem við vildum koma á framfæri hvað varðar þennan málaflokk. Hvert og eitt okkar hefur okkar einstöku lífsreynslu af öngstræti en við umræðu og undirbúning viðburðarins komumst við að því að hver saga tengist annarri í gegnum sameiginlega, samofna rauða þræði. Þetta stefnumótandi skjal um sjálfsvígsforvarnir var gefið út í febrúar 2020 og kynnt fyrir ráðafólki í málaflokknum undir heitinu “Rauðir þræðir”. Hópurinn fundaði meðal annars með forseta Íslands, barna- og félagsmálaráðherra og forstöðumanni geðsviðs Landspítala í kjölfarið. Hér má sá greinina Styðja fólk í að velja lífið frá mbl.is

Að þessu loknu ákvað hópurinn að hefjast handa við útgáfu bókar sem byggir á rauðu þráðunum en gerir málaflokknum enn frekari skil. Við sjáum að útgáfa bóka varðandi geðheilbrigðismál og batasögur einstaklinga hafa náð vinsældum hjá almenningi síðustu ár. Við teljum að okkar persónulega reynsla og innsýn sé bæði dýrmæt og þörf í þá umræðu til að auka skilning á af hverju fólk kýs stundum að taka eigið líf og aðdragandann fram að þessari alvarlegu tilfinningalegu krísu. Reiknað er með að bókin komi út í mars-apríl 2021. 

Stefnumótandi tillögur í sjálfsvígsforvörnum - Hugarafl 28.01.2020