Sjálfsskaði og sjálfsvíg
Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum að notast við skaðleg bjargráð á borð við sjálfsskaða eða hugsa um dauðann. Það er skiljanlegt að hugsa stundum um dauðann eða eiga erfitt með að hugsa sér lífið við óbreytt ástand. Við teljum sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og -tilraunir ekki merki um neinn undirliggjandi “geðsjúkdóm”. Núverandi stefna í samfélaginu sjúkdómsvæðir þessa þjáningu og leggur ofuráherslu á einstaklingsþætti, t.d. auka þrautseigju okkar, meðhöndla með einstaklingsviðtölum, meðferð eða lyfjaávísun.
Okkar reynsla er sú að öngstræti sé oftast samspil lífsreynslu og samfélagsþátta á borð við jaðarsetningu, fátækt, ofbeldi eða heimilisleysi. Þessi mikla vanlíðan verður því ekki til í tómarúmi. Orsakir vanlíðunar má líka finna í nærumhverfi okkar og getur verið afleiðing álags, áfalla, ástvinamissis, sambandsslita, langvinnra verkja eða veikinda, vinnuaðstæðna, fjölskyldumynsturs, erfiðra samskipta og fleiri atburða sem eru hluti af lífinu. Þegar þessar aðstæður eru viðvarandi eða við fáum ekki þann stuðning sem við þurfum í okkar nærumhverfi eða í samfélaginu þá getur þetta orðið okkur ofviða.