Skip to main content
Frá upphafi

Virkur aðstandendahópur

Aðstandendahópur hefur verið starfræktur í Hugarafli frá upphafi og er sá virkasti hér á landi. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg. Reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast geðrænum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir.  Markmið hópsins er að styrkja aðstandendur í hlutverki sínu, að veita nauðsynlega fræðslu um eðli andlegra áskorana og að veita aðstandendum innsýn í mögulegar leiðir um hvernig þeir geti styrkt sinn nánasta aðstandanda. Einnig er stuðlað að því að aðstandandinn sjálfur hugi að eigin heilsu, styrki sjálfstraust og bjargráð í erfiðum aðstæðum. Aðstandendur hittast tvisvar í mánuði með fagmanni, ræða reynslu sína, ræða stöðu mála, hvað gengur vel og hvað ekki og leitað er lausna og leiða innan kerfis og utan.  Aldrei hefur verið greitt fyrir faglegt starf innan hópsins.

Markmið hópanna

Vettvangur

Að aðstandendur hafi vettvang til að ræða sín mál

Styrkja hlutverk

Að aðstandendur styrkist í hlutverki sínu sem nánasti aðstandandi, átti sig á nálgun, gefandi samskiptum og viðeigandi þátttöku í samskiptum við sinn nánasta

Fræðsla

Að aðstandendur fái alhliða fræðslu um flest það sem snýr að geðröskunum, leiðum til úrbóta og viðeigandi bjargráðum fyrir aðstandendur

Eigin heilsa

Að aðstandendur séu meðvitaðir um eigin heilsu og líðan

Finna þjónustu

Að aðstandendur þekki mögulegar leiðir innan kerfisins þegar leita skal að þjónustu

Réttindi

Að aðstandendur verði meðvitaðir um réttindi sín

Fundir aðra hverja viku

Fyrirkomulag funda

Haldinn er fundur aðra hverja viku þar sem aðstandendur hittast með Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa.

Fundurinn fer fram annan hvern fimmtudag kl.17:30-19:00.

Ef einhverjar praktískar upplýsingar þurfa að komast til fundarmanna er byrjað á þeim. Það geta til dæmis verið upplýsingar um fræðsluerindi sem viðkemur málaflokknum, opinber umræða um málefni sem snerta hópinn eða annað.

Farið er yfir stöðuna hjá hverjum og einum, rætt hvað gangi vel og hvað ekki. Rætt er um hvað viðkomandi hafi gert í stöðunni eða ekki gert og hvaða leiðir megi skoða til að komast áfram. Aðstandendur ræða um líðan sína og tilfinningar, hugleiðingar um stöðu mála og þau bjargráð sem megi grípa til. Iðjuþjálfi og markþjálfi hvetja fundarmenn til að ræða einnig sína heilsu og hvað hver og einn geri til að stuðla að betri líðan og heilbrigði.

Frá aðstandendafundi

Þegar einstaklingur úr hópnum er með orðið gæta aðrir fundarmenn þess að viðkomandi fái góða hlustun og virðingu. Þannig er þess gætt að hver og einn fái sinn tíma og hafi sitt pláss innan hópsins. Aðrir fundarmenn mega síðan spyrja og koma með athugasemdir á það sem viðkomandi hefur sagt. Þannig fer gjarnan af stað góð umræða og viðkomandi fær speglun á þá umræðu sem fer fram, eins koma oft fram málefni sem hópnum finnst brýnt að ræða og þá er vettvangur fyrir það.

Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar.

Auður Axelsdóttir stýrir aðstandendafundum