Skip to main content

Vagga valdeflingar 

Empowerment Center í Boston

Hugmyndafræði valdeflingar kemur upphaflega frá baráttukonunni og aðgerðarsinnanum Judi Chamberlin.  Hún hafði lengi barist fyrir réttindum einstaklinga með geðraskanir í Bandaríkjunum og gaf meðal annars út bókina On our own árið 1978.  Skilgreining Judi á valdeflingu og rannsóknir hennar á hvað þurfi að vera til staðar svo þjónusta geti talist valdeflandi eru fyrirmyndin af starfinu í Lágmúla 9.  Judi kom í heimsókn til Íslands árið 2005 og hélt tveggja daga vinnusmiðju á vegum Hugarafls.

Geðlæknirinn Daniel B. Fisher er annar öflugur málsvari valdeflingar og starfaði með Judi í Boston þar til hún lést 2010.  Þau voru miklir vinir og Judi var mentor Dan í valdeflingu. Fisher lauk prófi frá Harvard Medical háskólanum eftir að hann náði bata af geðklofa og er einn af fáum geðlæknum í heiminum sem talar opinberlega um reynslu sína af geðsjúkdómum.  Fisher er höfundur af eCPR (andlegu hjartahnoði) og PACE batamódelinu sem Hugarafl hefur nýtt í sinni þjónustu til margra ára. Meðhöfundur Dan að PACE var Laurie Ahern aðstoðarframkvæmdastjóri Empowerment Center. 

Daniel Fisher er framkvæmdastjóri Empowerment Center og hefur margsinnis komið til Íslands á vegum Hugarafls og haldið hér fyrirlestra, námskeið og vinnusmiðjur ásamt því að miðla sögu sinni og reynslu til að efla batamiðaða nálgun hér á landi.

Judi
Judi Chaimberlin var baráttukona fyrir réttindum fólks með geðræn veikindi.
Daniel Fisher á námskeiði um eCPR í Hugarafli.
Patch Adams
Patch Adams kom síðast til Íslands árið 2015.

Trúður og læknir

Patch Adams

Margir muna eftir bíómyndinni um Patch Adams með Robin Williams í aðalhlutverki.  Myndin sem byggir á ævi trúðsins og læknisins var meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlauna og naut mikilla vinsælda.  Patch Adams er ekki síður vinsæll hvar sem hann kemur enda er góðmennskan og grínið ávalt með í för. Aðalmarkmið Patch er að minnka ofbeldi í heiminum, efla kærleika og húmor.

Patch er góðvinur Hugaraflsfólks og hefur tvívegis komið til Íslands í boði samtakanna.  Í bæði skiptin hélt hann vinnusmiðjur og fyrirlestra fyrir fullu húsi enda einstakur og kraftmikill maður sem hefur miklu að miðla.  Patch hefur sína sögu af geðrænum áskorunum í æsku og segir gjarnan frá því hvernig honum tókst að vinna úr þeim málum. Það er mikil lífsreynsla að kynnast Patch og hans viðhorf til lífsins mættu gjarnan vera fyrirmynd hjá miklu fleirum.  Þá byggjum við alveg ábyggilega í betri heimi þar sem mannréttindi væru hátt skrifuð.

Húmor er mótefni við öllum veikindum

PATCH ADAMSTrúður og læknir

Evrópusamstarf

Erasmus +

Frá upphafi hefur Hugarafl tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, en frá og með febrúar 2019 hefur þessi vinna eflst og er samræmd af Dumitrița Simion.

Hér koma nokkrar ástæður fyrir því að alþjóðastarf er mikilvægt fyrir Hugarafl:

  • Það gefur okkur tækifæri til að kynnast jafningjum frá öðrum löndum, vera í sambandi við þá, læra af mismunandi lifnaðarháttum og upplifa mismunandi nálgun.
  • Við fáum að bæta starf okkar í félaginu með því að læra saman og búa til ný tæki og aðferðir til að ná bata.
  • Það styður valdeflingu á margan hátt, t.d. hjálpar það meðlimum að finna nýjan styrk og til að æfa tjáningu hugmynda og reynslu.
  • Það er tækifæri til að koma eigin reynslu framarlega í viðræður við fagfólk, til gagnkvæms náms og til að eyða staðalímyndum frá báðum hliðum.
  • Það er æfing í að tilheyra nýjum og mismunandi samfélögum, svo sem fjölmenningarlegu teymi og/eða teymi sem samanstendur af bæði sérfræðingum vegna eigin reynslu og fagfólki.

Alþjóðlegt verkefni er yfirleitt flókið í uppbyggingu, en að taka þátt í því er auðveldara en það virðist. Það sem er almennt þörf á er að taka þátt í vinnufundum verkefnahópsins og leggja þitt af mörkum með það sem þú þekkir, eða hefur upplifað, sem og að vera tilbúinn að læra nýja þekkingu og sérkunnáttu.

Lífsreynslan er mjög mikils metin í þessum verkefnum, rétt eins og í öllu öðru sem Hugarafl gerir.

Áframhaldandi verkefni

Geðheilbrigði + (Mental health + )

Hugarafl er samstarfsaðili í Mental Health +, tveggja ára langt Erasmus + verkefni, sem mun setja kröfur um geðheilbrigði í verknámsskólum og stofnunum um alla Evrópu.

Ásamt samstarfsaðilum okkar frá Bretlandi, Finnlandi, Búlgaríu, Ítalíu og Spáni, þróum við röð verkfæra og úrræða sem munu leiðbeina verknámsskólum við þróun þjónustu, sem verður innifalin og stuðlar að góðri andlegri líðan nemenda þeirra.

Eftirfarandi úrræði eru í vinnslu:

Mental Health + sáttmáli: Byggður á rannsóknum um bestu starfshætti við geðheilbrigði án aðgreiningar í verknámsskólum frá Íslandi, Finnlandi, Búlgaríu, Bretlandi, Spáni og Ítalíu. Þar setjum við lágmarkskröfur sem skólar ættu að fylgja til að vera geðheilbrigðisvænir og án aðgreiningar. Þessar kröfur verða kynntar í sáttmálanum.

Viðmiðunar Tækið verður tæki sem skólar geta notað til að meta hversu geðheilbrigðis vænir þeir eru. Það mun draga fram svið til úrbóta og koma með tillögur um hvernig hægt er að taka á þessum málum (t.d. hvaða stofnanabreytinga, þjálfunar ofl. er þörf) í tengslum við sáttmálann.

Geðheilbrigði (Mental Health +) meistarakunnátta: Vettvangsrannsóknir verða gerðar og byggðar á jafnrétti og fjölbreytileika, hjá fagfólki í starfsmannamálum, forstöðumönnum skóla ofl. til að bera kennsl á sérþarfir þessa hlutverks, sem verða kynntar sem sérstök hæfni. Þessar rannsóknir munu einnig upplýsa stuðningsúrræði (leiðbeiningar, þjónustuverkfæri o.s.frv.) til að hjálpa verknámsskólum að koma sér upp slíku hlutverki. 

Sumarið 2021 verður síðan haldin ráðstefna í hverju landi þar sem fulltrúum skóla og geðheilbrigðisstofnana verða kynnt verkfærin sem búin voru til í þessu samstarfi.

 Þjóðvegur til geðheilsu

Frá september 2019 til ágúst 2021 stýrir Hugarafl verkefninu Þjóðvegur til geðheilsu (Highway to Mental Health), sem er stefnumótandi samstarf við Spán, Pólland og Rúmeníu. Markmið verkefnisins er að búa til handbók um hópastarfsemi og námskeið á netinu til að efla tilfinningalega seiglu ungs fólks. Nokkur af þeim viðfangsefnum sem þessi tvö úrræði munu fjalla um eru: tilfinningar, félagsleg tengsl, áreiðanleiki, samfélag, lífsstíll, valdefling og náttúra.

Hugarafl hefur tekið höndum saman með Minte Forte frá Rúmeníu, ActivaMent frá Spáni og Progres frá Póllandi, öll þrjú samtök með mikla reynslu á geðheilbrigðissviðinu, til að þróa nýstárleg fræðsluúrræði til að efla geðheilbrigði ungmenna, með því að takast á við víðtækt efni um tilfinningalega seiglu með óformlegu námi.

Í gegnum þetta verkefni munum við búa til tvær nýstárlegar vörur: handbók og rafrænan námsvettvang til að efla geðheilbrigði, sem ætlað er geðheilbrigðis starfsmönnum og ungu fólki um Evrópu til afnota.

Þetta mun innihalda auðveldar aðferðir, verkfæri og athafnir, aðlagaðar að fjölbreyttum aðstæðum og úrræðum.

Verkefnið mun einnig fela í sér tvö alþjóðleg námskeið þar sem 24 starfsmenn sem vinna með ungu fólki munu þróa hæfni sína til að vinna með óformlegar aðferðir á geðheilbrigðissviði. Eftir það munu þeir deila og koma því í verk sem þeir hafa lært í samvinnunni.

Jafningjastuðningur + (Peer Support +)

Nýjasta verkefnið styrkt af Erasmus +, sem hefst í Hugarafli í október 2020 og lýkur í september 2022 er Jafningjastuðningur +.

Verkefnið er stefnumótandi samstarf þriggja geðheilbrigðisstofnana frá Íslandi, Hollandi og Eistlandi. Það mun veita námsmöguleika, og viðurkenningu á  því námi, fyrir fullorðna með reynslu af geðrænum áskorunum. Það mun einnig þróa verkfæri og úrræði sem auka getu geðheilbrigðisstofnana til að bjóða upp á þennan Jafningjastuðning sem þjónustu.

Meðan á verkefninu stendur verður alþjóðleg þjálfun á Jafningjastuðningi, sem haldin verður á Íslandi. Þá verða þjálfarar frá Hollandi og 18 sérfræðingar með eigin reynslu af geðrænum áskorunum, vottaðir sem sérfræðingar í Jafningjastuðningi.

Tvö kennsluefni verða þróuð: 

Námskeið á netinu og rafbók um Jafningjastuðning grundvallarreglur hans (vinnubrögð, þarfa kunnáttu og önnur úrræði).

Bæði þjálfunin og kennsluefnið munu auka valdeflingu og hæfni fólks með eigin reynslu af geðrænum áskorunum, ásamt því að byggja upp getu stofnana með því að kerfisvæða reynslu þeirra af Jafningjastuðningi. Það mun einnig veita fólki með geðrænar áskoranir fleiri tækifæri til að fá stuðning.

Kennsluefninu verður dreift um netið (t.d. á Zoom ofl.) eða augliti til auglitis og ná þannig til jafningja, geðheilbrigðisstofnana og fagfólks frá samstarfsríkjunum og víða um Evrópu.

Myndband um Strong Young Minds verkefnið.
Frá námskeiði á vegum Erasmus+.

Fræðsluhlutverk 

Ráðstefnur og fundir

Erlendir fyrirlesarar ásamt formanni Hugarafls á ráðstefnu 2017.
Hallgrímur – Maður eins og ég er ein fárra heimildarmynda sem gerðar hafa verið hérlendis um geðheilbrigðismál.

Hugarafl hefur staðið fyrir fjölda ráðstefna um geðheilbrigðismál  á Íslandi.  Auk ráðstefna og vinnusmiðja sem tengjast fyrrnefndum samstarfsaðilum má sem dæmi nefna nýlega ráðstefnu um geðlyfjanotkun á Íslandi sem haldin var í maí 2017.  Á ráðstefnunni talaði meðal annars Robert Whitaker, verðlaunaður rannsóknarblaðamaður og höfundur bókanna Mad in America og Anatomy of an Epidemic.  Whitaker hlaut verðlaun árið 2010 fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna fyrir síðarnefndu bókina.   Annar erlendur frummælandi á ráðstefnunni var Carina Håkansson sem hélt erindi um að mæta fólki án greininga og lyfja.  Carina vinnur sem félagsráðgjafi og sálfræðingur í Svíþjóð og kom meðal annars á alþjóðlegri stofnun til að styðja fólk við að hætta á geðlyfjum.  Stofnunin stuðlar að uppýsingaflæði, veitir fleiri valmöguleika og horfir heildrænt á bataferlið.

Mikil eftirspurn er jafnframt eftir þátttöku Hugarafls á ráðstefnum og fræðslum erlendis.  Á hverju ári fara fulltrúar frá Hugarafli með fyrirlestra á slíkar ráðstefnur og taka þannig virkan þátt í að bæta geðheilbrigði um allan heim. Heimildarmyndin „Hallgrímur-maður eins og ég“ hefur einnig nýst vel í að kynna starf Hugarafls erlendis og var myndin meðal annars sýnd á kvikmyndahátíðinni „Mad film festival“ í október 2014.  Myndin hefur verið notuð til kennslu í Boston University og verið þýdd á fjölda tungumála.

Fyrrum verkefni  

Brú fyrir geðheilbrigði

Brú fyrir geðheilbrigði var stefnumótandi samstarf sem Hugarafl og Minte Forte frá Rúmeníu framkvæmdu á tímabilinu 1. júní 2018 til 31. maí 2019. Í þessu verkefni tóku þátt 25 æskulýðsstarfsmenn frá Íslandi og Rúmeníu á námskeiði sem stóð yfir í eitt ár. Námskeiðið samanstóð af fjölþjóðlegu námi og þjálfun, ásamt staðbundnum beitingum nýrra vinnubragða á sviði geðheilbrigðis ungmenna.

Síðasti verkþáttur í verkefninu var 7 daga námskeið sem fór fram í maí 2019 í Rúmeníu, fyrir 7 meðlimi Hugarafls og 7 Minte Forte félaga. Þetta leiddi til þess að skipst var á góðum starfsháttum til fleiri æskulýðsstarfsmanna og til tveggja vinnuaðferða til viðbótar: Tilfinningalegt hjartahnoð (frá Hugarafli) og meðferðarstarfsemi (frá Minte Forte).

Brú fyrir geðheilbrigði skilaði tveimur megin niðurstöðum til lengri tíma litið:

  1. Að koma á fót tveimur nýjum vinnuaðferðum þ.e. fræðsluviðburðum er lúta að geðheildbrigði fyrir almenning, skipulögð af Hugarafli og styrktarhópi undir forystu Minte Forte fyrir fólk með geðraskanir í Cluj-Napoca. 

Þessar vinnuaðferðir eiga að auka og bæta fyrirbyggjandi aðferðir, ásamt með inngripi í geðheilsu, í samökunum báðum.

  1. Að viðhalda neti æskulýðsstarfsmanna frá Íslandi og Rúmeníu sem mun halda áfram að skiptast á hugmyndum, aðferðum, þekkingu og stuðningi, bæði í gegnum netið og með hugsanlega nýjum sameiginlegum verkefnum.

Námsheimsóknir

Í september fóru tveir meðlima Hugarafls í námsheimsókn til Dobré Misto samtakanna, sem eru með aðsetur í Prag. Tveir fulltrúar tékknesku samtakanna komu síðan í heimsókn til Hugarafls í október.

Markmið heimsóknanna var að læra um starfshætti hvers annars í jafningjastuðningi. Í Prag heimsóttum við miðstöð Dobré Misto, sem staðsett er í fyrrum sögulegu geðsjúkrahúsi og við fengum kynningu á jafningjaráðgjöf og jafningja-fyrirlestraþjónustu sem þeir bjóða upp á í sjúkrahúsinu og öðru fólki með geðrænar áskoranir. Í heimsókn sinni til Hugarafls fræddust tékkneskir gestir um valdeflingu í framkvæmd, menntaáætlun í framhaldsskólum, podcastinu og Young Minds.

Hönd í hönd

Hönd í hönd, málstofa á vegum Hugarafls, var haldin í Ölver, 3. – 9. nóvember 2019 og var styrkt af Erasmus + verkefninu. Starfseminni var stjórnað af teymi sem samanstóð af Ovidiu Talpoș frá Minte Forte (Rúmeníu) og Fjólu Ólafardóttur og Dumitrița Simion frá Hugarafli.

Til umræðu var þáttaka ungs fólks sem glímir við geðrænar áskoranir og bauð upp á svigrúm til að skiptast á starfsháttum, reynslu og nálgun fyrir samtök sem starfa á þessu sviði á Íslandi, Eistlandi, Ungverjalandi og Rúmeníu. 16 þátttakendur komu frá fjórum mismunandi samtökum frá mismunandi löndum, úr ýmsum hlutverkum og með ólíkan bakgrunn (sérfræðingar með upplifða eigin reynslu, sálfræðingar, geðlæknir, félagsráðgjafar, verkefnastjórar og sjálfboðaliðar). Tengslin sem þau mynduðu náðu yfir aldur, þjóðerni, starf og alla aðra titla.

Á námskeiðinu var notuð óformleg kennsluaðferð sem er einn af hornsteinum Erasmus +. Það þýddi að til þess að læra á nýju verkfærin, þurftu þátttakendur að upplifa þau í notkun og með ígrundun og umræðum til að draga fram sérstaka þekkingu frá upplifuninni, til að nota síðan í daglegu lífi. 

Dagskráin var mjög fjölbreytt og bauð upp á:

Tjáningu í gegnum skriftir, hreyfingu og innlifun. Tengingu í gegnum tónlist, hlutverkaleiki, innilegar samræður og skipulagða sjálfsumönnun. Sem og aðferðir til að skapa vellíðan, sálarígrundun, speglun, samskiptaæfingar, kvikmynd og heims-kaffihúsa umræður. 

Í ljósi þess að viðfangsefnin eru viðkvæm, eðli málsins samkvæmt, sköpuðu verkefnin djúpa sjálfsskoðun, ákafar tilfinningar og sjálfsvinnu sem voru á góðan hátt studd í öryggi rýmisins sem þátttakendurnir og leiðbeinendurnir sköpuðu.

Námskeiðinu var fylgt eftir með tveggja og hálfstíma vinnustund sem íslensku þátttakendurnir (Magnús, Guðjón, Hjörtur og Kristbjörg) héldu fyrir 8 aðra félaga í Hugarafli. Þar stýrðu þau nokkrum af þeim verkefnum sem þau höfðu upplifað og lært á námskeiðinu, um tengingu með samnýtingu tónlistar og iðkun samskipta án ofbeldis. Þátttakendur í vinnustofunni kunnu að meta aðferðirnar og hvernig þær voru kynntar af leiðbeinendunum. Þau fengu tækifæri til að deila persónulegum sögum í gegnum uppáhaldstónlistina sína og kanna saman fjölbreytilegar samskiptaleiðir.

Strong Young Minds

Hugarafl ásamt 4 öðrum félagasamtökum í 3 löndum vinna nú að tveggja ára verkefni við að útbúa kennsluefni fyrir æskulýðsleiðtoga sem sinna aldurshópnum 14 til 18 ára.  Samstarfsfélög okkar í þessu verkefni eru Minte Forte og Ask Yourself í Rúmeníu, Ha Moment í Portúgal og Scout Valencias á Spáni. Verkefninu lauk í september 2018 og þá varð allt námsefnið aðgengilegt á vefsíðu sem hönnuð er í tengslum við verkefnið.

Young Minds go Europe

Á ráðstefnu í Tallinn 2016 náðust góð tengsl milli Hugarafls og tveggja öflugra þjálfara sem starfa víðsvegar um Evrópu í leiðtogaþjálfun, hópefli, markþjálfun fyrir vinnustaði, sjálfseflingu og alls kyns vinnu með ungu fólki.  Fljótlega eftir ráðstefnuna hófst vinna við verkefni fyrir ungmennahóp á Íslandi. Úr varð vikulangt leiðtoga- og hópeflisnámskeið sem haldið var í Lækjarbotnum og í Hugarafli. Námskeiðið hafði mikil áhrif á um 20 manna hóp ungmenna sem tók þátt og efldi bæði einstaklinga og hópinn sem heild í verkefnum sem fylgdu í kjölfarið.