Skip to main content

Afstaða Hugarafls gagnvart lyfjum

„Já, Hugarafl, eru þau ekki öll á móti geðlyfjum?“

Okkur langar að leiðrétta þennan misskilning um Hugarafl og Hugaraflsfólk. Þetta á ekki við rök að styðjast.

Lyf geta hentað sumum, stundum, og í mislangan tíma. Þau geta verið eitt af verkfærunum sem fólk velur að nýta í batavinnu sinni til skamms eða langs tíma. Lyf henta ekki öllum. Við þurfum opna umræðu um lyfjamál.

Við leggjum áherslu á að einstaklingurinn sjálfur velji hvað hentar viðkomandi. Að einstaklingurinn fái allar viðeigandi upplýsingar og geti svo tekið upplýsta ákvörðun um það sem viðkomandi telur henta sér.

Hugarafl berst fyrir bættu geðheilbrigðiskerfi og stendur vörð um mannréttindi einstaklinga til að vinna í batanum sínum á sínum forsendum. Það er engin ein „rétt leið“ til að ná bata. Það skiptir öllu máli að virða sjálfræði einstaklingsins og að einstaklingurinn sé við stjórnvölinn í eigin lífi.

Ef geðlyf væru lausnin við vandanum, ættum við þá ekki að sjá aðra þróun í þessum málum?

Íslendingar taka mest af þunglyndislyfjum af öllum öðrum OECD-ríkjum heimsins. Heimsmet Íslendinga í ávísun þunglyndislyfja og gífurlega hátt hlutfall annarra geðlyfja teljum við ekki stafa af því að við séum sérstaklega dugleg að leita okkur hjálpar. Þetta er ekki merki um að læknar hafi frekar kjark til að takast á við vandann samanborið við önnur lönd.

Þrátt fyrir að við höfum ávísað geðlyfjum í meira magni en aðrar þjóðir og sífellt meira með hverju ári, virðist það ekki endurspeglast í geðheilsu þjóðarinnar. Fjöldi fólks sem sækir um örorkubætur vegna geðrænna vandamála eykst í sífellu á sama tíma og það hefur aukinn aðgang að geðlyfjum. Ef geðlyf væru lausnin við vandanum, ættum við þá ekki að sjá aðra þróun í þessum málum?

Það að tala opinskátt um kosti, galla, aukaverkanir, fráhvörf og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um notkun geðlyfja endurspeglar ekki fordóma. Við sýnum þeim sem velja að taka geðlyf virðingu og skilning. Sumt fólk kýs aðrar leiðir eða getur ekki notast við geðlyfin og okkur ber að sýna þeim þá sjálfsögðu virðingu og sama skilning.

 

Geðlyf og niðurtröppun þeirra

Við í Hugarafli tölum fyrir réttindum einstaklinga til að fá allar viðeigandi upplýsingar um geðlyf auk annarra valkosta sem þeim standa til boða. Það samtal þarf að innihalda umræðu um mögulega kosti, aukaverkanir, fráhvörf, mögulegan óafturkræfan skaða lyfjanna og áætlaða tímalengd. [insert lyfjamynd um upplýst samtal]

Með þessar upplýsingar í farteskinu getur hvert og eitt okkar tekið ákvörðun fyrir okkar eigið líf. Stundum er niðurstaðan sú að fólk vilji breyta, minnka eða hætta á geðlyfjum sínum. Það reynist ómetanleg þekking á niðurtröppun geðlyfja meðal fólks sem hefur gengið í gegnum það erfiða ferli. Á eftirfarandi síðum er hægt að nálgast dýrmæta upplýsingaveitu um niðurtröppun geðlyfja byggða á víðtækri reynslu og þekkingu:

Inner Compass Initiative

Heimasíða: https://withdrawal.theinnercompass.org/

Stuðningshópur með beinum vikulegum streymum: Inner Compass Conversations

The Icarus Project

PDF bók um skaðaminnkandi nálgun og niðurtröppun geðlyfja; „Harm Reduction Guide to Coming Off Psychiatric Drugs“ á http://theicarusproject.net/resources/publications/

Athugið: Geðlyf tekin til lengri tíma eru ávanabindandi. Það ætti enginn að hætta skyndilega að taka slík lyf því það getur verið afskaplega hættulegt og jafnvel ógnað lífum okkar.

Best er að trappa lyfin niður afar hægt í örsmáum skrefum og ráðfæra sig við fagaðila og þá sérfræðinga sem við treystum. Ferlið mun taka tíma. Þegar þú minnkar lyfin þá má reikna með fráhvarfseinkennum. Þau eru ekki merki um „undirliggjandi geðsjúkdóm“.

Hafið þið heyrt samlíkinguna um að það að taka geðlyf við „geðsjúkdómi“ sé sambærilegt því að taka insúlín ef fólk er með sykursýki? Mælum með að lesa þessa grein og velta málunum fyrir okkur. Þetta er ekki svona einfalt. 

Í greininni er hægt að lesa meira um ætlaða verkun og áhrif þunglyndislyfja samanborið við lyfleysu, aukaverkanir, dauðsföll og ávanabindandi þátt geðlyfja meðal annars. Þar leynast margar ólíkar heimildir og dýrmætt efni til upplýsingar.

Við vekjum athygli á þessum málum til að hvetja til upplýstrar umræðu og að við höfum ítarlegar upplýsingar þegar við tökum ákvörðun um hvort við teljum lyf henta okkur. Við styðjum fólk sem kýs að taka lyf sem hluta af sínum bjargráðum í andlegri vanlíðan og við styðjum líka fólk sem velur að taka þau ekki.

https://donkarp.medium.com/do-i-need-to-take-psych-meds-491e1d3cafa8

Hefur þú heyrt um lyfjalausu geðdeildina í Tromsø, Noregi? Þangað er hægt að leita sér hjálpar í vanlíðan án þess að taka geðlyf eða fá aðstoð til að hætta á geðlyfjunum. Grundvallarhugmyndin er að einstaklingurinn sjálfur hafi ákvarðanavald til að velja sér meðferð í samræmi við eigin sannfæringu og innsæi.

Norska heilbrigðisráðuneytið ákvað að bjóða einstaklingum upp á valmöguleika um lyfjalausa meðferð á fjórum svæðum víðsvegar um landið. Lyfjalausa geðdeildin í Tromsø gæti verið upphafið að róttækum breytingum í almennri geðheilbrigðisþjónustu þar sem innsýn einstaklingsins er metin til jafns við sérfræðiþekkingu fagaðilans. Starfsemin snýst um að styðja við fólk á þann hátt sem hentar þeim, hvort heldur sem þau kjósa geðlyf eða lyfjalausar leiðir.

https://www.madinamerica.com/2017/03/the-door-to-a-revolution-in-psychiatry-cracks-open/

Við myndum vilja sjá sambærilegan valmöguleika hér á Íslandi. 

Alþjóðlegu samtökin International Institute for Psychiatric Drug Withdrawal (IIPDW, https://iipdw.org/) eru samtök sem voru stofnuð árið 2017 með þeim tilgangi að efla þekkingu á þeim leiðum sem hægt er að fara í geðlyfjaniðurtröppun og hvaða kostir standa til boða í þeim löndum sem þarna eiga í hlut. Fjöldi fagfólks og notenda með reynslu koma þarna saman og deila þekkingu, reynslu og áhyggjum sínum af þessari þróun í aukningu geðlyfjanotkunar. Auður Axelsdóttir er fulltrúi Íslands í þessari nefnd og þau eru nú í óðaönn að undirbúa sína fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi í október 2021.