Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi
Lýsing á dagskrárliðum Hugarafls árið 2022
Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni
Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni. Boðið er upp á hópa leidda af einstaklingum með fagmenntun sem og einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Dagskráin samanstendur af 6 vikna lotum með mismunandi hópa í hverri lotu. Lotukerfið varð fyrir valinu til að miðla efnistökunum á hnitmiðaðan hátt, bjóða upp á fjölbreytt starf og gefa tækifæri á myndun og þróun nýrra hópa.
Aðstandendafundur
Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald. Hópurinn hittist í verkefnaherberginu í Síðumúla 6.
Batasmiðja
Vikulegur, klukkutíma hópur leiddur af Braga Sæmundssyni sálfræðingi. Efnistök hópsins eru ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinna og hugarfar.
Drekasmiðja
Thelma Ásdísardóttir ráðgjafi frá Drekaslóð heldur vikulegar tveggja klukkustunda vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan. Hópurinn fer fram í stóra fundarherberginu í Síðumúla.
Emotional resilience
Emotional resilience is a group in English, on how to strengthen our capacity to deal with life and its difficult times. The meetings will include activities, discussions and reflection, as well as short practices for resilience. Objectives of the group are: building a healthy relation to ourselves, improve our emotional life, develop healing connections with others.
Emotional resilience er hópur á ensku um hvernig við getum styrkt getu okkar til að takast á við lífið og erfiða tíma þess. Á fundinum verða verkefni, umræður og íhugun, auk stuttra æfinga fyrir seiglu. Markmið hópsins eru: að byggja upp heilbrigð tengsl við okkur sjálf, bæta tilfinningalíf okkar, þróa heilandi tengsl við aðra.
Frisbí golf
Við hittumst einu sinni í viku á Klambratúni. Fyrst er smá upphitun og leiðsögn um helstu handtök og reglur leiksins. Að því loknu spilum við hring. Hugarafl útvegar diska en þeim sem mæta er velkomið að taka sína eigin ef eiga þá..
Hugaraflsfundur
Hugaraflsfundir, sem eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls, eru einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði. Fundurinn fer fram í stóra fundarherberginu með sjónvarpinu. Þau sem geta ekki komið í persónu vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna geta setið fundinn í gegnum zoom.
Innri sannfæringar
Þessi hópur er lokaður og umsjón með honum hefur Guðfinna og er hann á miðvikudagsmorgnum frá kl. 9 til 11. Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðunar í dag.
Karlahópur
Grétar Björnsson heldur utan um hópinn sem hittist einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Hópurinn hittist í fundarherberginu sem er nær stiganum í Síðumúla. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag.
Kynningarfundur
Áhugasömu fólki sem hefur haft samband við Hugarafl og óskað eftir að gerast meðlimir eða til að fá kynningu á starfsemi Hugarafls, er boðið á kynningarfund sem fer fram einu sinni í viku í Síðumúla, á mánudögum klukkan 11. Það þarf ekki að skrá sig á fundinn. Fjóla og Grétar sjá um kynninguna þar sem starfsemi og hugmyndafræði Hugarafls er kynnt og rædd við fundargesti. Að því loknu geta þau sem hafa áhuga á að nýta sér starfsemi Hugarafls skrifað undir félagsaðildarsamning.
Kundalini yoga
Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á kundalini jógatíma, í 90 mín í senn. Tímarnir eru aðlagaðir að þörfum þátttakenda. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.
Léttar teygjur og hugleiðsla
Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á 90 mín hugleiðslu og léttar teygjur. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.
Listasmiðja
Listasmiðja í Hugarafli á miðvikudögum kl 18-20 -Skapa tækifæri til að stunda listsköpun af hverju tagi sem er (mála, teikna, origami, prjóna, sauma út, hekla, tálga og fleira). Hægt að notast við efnivið sem er í boði í Hugarafli eða koma með eigin verkefni að heiman. Í þessari lotu verður stefnt á að kynna hekl í þriðja tíma 🙂
Lyfjamálin
Þessi hópur, sem er undir umsjón Auðar Axelsdóttur, er á mánudögum frá kl. 10:30 til 12 og markmið hans eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Hópurinn fer fram stóra fundarherberginu með sjónvarpinu, í Síðumúla.
Stöðufundur sjálfboðaliða
Hugarafl myndi ekki virka ef ekki væri fyrir fagran hóp sjálfboðaliða sem taka að sér ýmis verk í starfseminni sem hluta af eigin bataferli. Sjálfboðaliðar funda í stofunni á fimmtudögum frá kl. 10-10:30. Áhugasöm eru hvött til að heyra t.d. í Fjólu Kristínu Ólafardóttur eða Maríu Owen fyrir frekari upplýsingar um sjálfboðaliðastörf
Sjósund í nauthólsvík
Grétar Björnsson mun bjóða Hugaraflsfélögum með sér í sjósund á föstudögum.
Skipulag endurhæfingar
Hópurinn hittist vikulega og vinnur markvisst í endurhæfingu sinni og mótar eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á viðkomandi hópstjóra og á hugarafl@hugarafl.is fyrir tímann.
Stöðufundur sjálfboðaliða
Hugarafl myndi ekki virka ef ekki væri fyrir fagran hóp sjálfboðaliða sem taka að sér ýmis verk í starfseminni sem hluta af eigin bataferli. Sjálfboðaliðar funda í stofunni á fimmtudögum frá kl. 10-10:30. Áhugasöm eru hvött til að heyra t.d. í Fjólu Kristínu Ólafardóttur eða Maríu Owen fyrir frekari upplýsingar um sjálfboðaliðastörf.
Valdefling
Hópur opinn öllu félagsfólki, þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn er leiddur af Málfríði Hrund Einarsdóttur og Auði Axelsdóttur. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn. Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/. Hópurinn fer fram í stóra fundarherberginu með sjónvarpinu. Þau sem geta ekki komið í persónu vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna geta setið fundinn í gegnum zoom.
Velkomin í hús
Fjóla Ólafardóttir tekur á móti Hugaraflsfélögum sem meðal annars eru nýir að móta sig í starfinu, þurfa á stuðning að koma í hús eða vilja vettvang fyrir létt spjall og stuðning.
Yoga nidra
Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á 90 mínútna slökun með leiddri hugleiðslu og ásetningi. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.
Verkefni sem Hugaraflsfólki býðst að taka þátt í:
- Erasmus+ verkefni. Hugarafl tekur þátt í fjölda erlendra verkefna sem hafa hlotið fjárhagslegan styrk frá Evrópusambandinu. Þátttaka í þessum verkefnum hefur meðal annars snúið að því að skipuleggja námskeið með erlendum leiðbeinendum, fara erlendis í þjálfanir, þróa námsefni og borðspil og þátttaka í öðrum viðburðum hérlendis sem erlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Dumitritu Simion dumitrita@hugarafl.is
- Geðfræðsla Hugarafls. Einstaklingar á vegum Hugarafls fara í efstu bekki grunnskóla og menntaskóla til að fræða ungmenni um reynslu sína, batann, bjargráð og hvað sé mikilvægt að gera ef geðrænar áskoranir eiga sér stað og hvar megi leita stuðnings í umhverfinu. Þessi fræðsla byggir á persónulegri reynslu einstaklingsins og hefur gefið góða raun til að minnka fordóma og opna umræðu um geðheilbrigðismál. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.
- Klikkið hlaðvarp. Hugarafl gaf út vikulegt hlaðvarp (e. podcast) á netinu. Hlaðvarpið miðlar hugmyndafræði Hugarafls og opinni umræðu og viðtölum um geðheilbrigðismál til íslensks samfélags. Áhugasöm eru hvött til að hlusta á hlaðvarpið á: is, kjarninn.is (undir Hlaðvarp – Klikkið) eða hugarafl.is. Við myndum gjarnan vilja heyra frá ykkur ef þið mynduð vilja taka þátt í að endurreisa hlaðvarpið.
- Ritnefndin heldur úti heimasíðunni hugarafl.is. Ritnefndin miðlar fréttum um geðheilbrigðismál á síðunni en getur einnig skrifað pistla, þýtt efni og skapað myndbönd eftir áhuga og málefni hverju sinni. Áhugasöm geta haft samband við Magga, Fjólu eða Auði. Einnig er hægt að senda ábendingu um vefinn á ritnefnd@hugarafl.is.
- Skipulagning ráðstefna, námskeiða og annarra stakra viðburða í starfsemi Hugarafls. Hugarafl heldur ýmsa stóra viðburði í gegnum árið til að opna umræðu um geðheilbrigðismál og miðla reynslu okkar. Þessir viðburðir eru ræddir á Hugaraflsfundum og ákvarðanir teknar þar. Áhugasömum er bent á að sækja Hugaraflsfundi til að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og mögulega grasrótarfundi til að vinna að verkefnunum í kjölfarið.