Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi

Lýsing á dagskrárliðum Hugarafls árið 2021

Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni

Boðið verður upp á hópa leidda af einstaklingum með fagmenntun sem og einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Dagskráin samanstendur af 6 vikna lotum með mismunandi hópa í hverri lotu. Lotukerfið varð fyrir valinu til að miðla efnistökunum á hnitmiðaðan hátt, bjóða upp á fjölbreytt starf og gefa tækifæri á myndun og þróun nýrra hópa. Athugið að tímalengd hópa getur breyst á milli lotna. 

Dæmi um hópa sem eru á boðstólum í Hugarafli árið 2021:

Aðstandendur. Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp.

Bati. Klukkutíma langur hópur sem hittist einu sinni í viku og ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa ásamt öðrum og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur og hugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.

Bókaklúbbur. Þegar bókaklúbbur er virkur hittist hann vikulega og ræðir þá bók sem verið er að lesa hverju sinni í um klukkustund. Svava Arnardóttir og Auður Axelsdóttir leiða hópinn. Bækurnar eru ýmist á ensku eða íslensku og hver kafli er tekinn fyrir í einu. Það er því hægt að koma inn í hópinn hvenær sem er, svo lengi sem viðkomandi hafi lesið þann kafla sem er til umræðu það skiptið. Til að nálgast bækur hafið samband við Svövu og/eða Auði, eða sendið fyrirspurn á hugarafl@hugarafl.is.

Bragabót. Vikulegur, tveggja klukkustunda hópur leiddur af Braga Sæmundssyni sálfræðingi. Efnistök hópsins eru ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinna og hugarfar.

Drekasmiðja. Thelma Ásdísardóttir ráðgjafi frá Drekaslóð heldur vikulegar tveggja klukkustunda vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hver og einn finni sína leið að betri líðan.

Frjáls verkefnavinna. Liður í stundatöflu þar sem félagsmenn geta fundað og unnið í verkefnum sem koma upp á Hugaraflsfundi.

Gestalt sjálfsvinna. Þessi hópur er lokaður eftir fyrsta fund, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Hákon Leifsson, kallaður Tumi, býður upp á hóp byggðan á gestalt meðferð. Gestalt er einnig þekkt sem húmanísk meðferð, er skjólstæðingsmiðuð og byggir á því að styðja einstaklinginn við að hjálpa sér sjálfum. Djúp tilfinningavinna og umræða. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Gong slökun. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlanga gongslökun einu sinni í viku.

Hugaraflsfundur. Hugaraflsfundir, sem eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls, eru einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur.

Félagar í Hugarafli eru eindregið hvattir til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja stóra viðburði. 

Húsfundur. Félagar og starfsteymi Hugarafls hittast á mánudagsmorgnum og skipuleggja komandi viku eftir að hafa farið yfir hápunkta vikunnar sem leið. Farið er yfir dagskrá, heimsóknir og viðburði á döfinni.

Kundalini yoga. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á kundalini jógatíma tvisvar sinnum í viku, í 90 mín í senn. Tímarnir eru aðlagaðir að þörfum þátttakenda.

Life traps is a group about the beliefs and patterns that we develop as a result of how we were treated early in our lives, like being neglected, rejected, abandoned, abused, over criticized, overprotected etc. These beliefs are about ourselves, the other people and life in general and can be self-defeating and hold us back from our goals and wellbeing. They may sound like: “everyone will abandon me”, or “I will fail anyway”, or “I can´t trust anyone”. So, in each meeting we will take one such belief, explore the ways in which it applies to us and how it affects our lives and our decisions and discuss ways to make it more flexible. There will be a bit of education on the topic, individual reflection and exercises and discussions in the group. The group is led by Dumitrița Simion.

Möntrusöngur. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á hálftíma möntrusöng ásamt gítarundirleik Árna Ævarrs Steingrímssonar einu sinni í viku.

Raddir, sýnir og skynjanir. Fanney Björk Ingólfsdóttir og Svava Arnardóttir leiða hóp jafningja sem langar að ræða sínar upplifanir af því að heyra raddir, sjá hluti eða lifa með öðrum skynjunum af heiminum sem ekki öll hafa. Markmiðið er að skapa umræðuvettvang án sjúkdómsstimpla og læknisfræðilegs orðalags og finna leiðir til að lifa góðu lífi með þessum upplifunum. Hópurinn hittist vikulega í klukkustund en tekur á móti nýju fólki aðra hverja viku.

Sjálfsstyrking. Þessi hópur er lokaður, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Bragi Sæmundsson sálfræðingur leiðir hópinn sem hittist vikulega í 90 mínútur í senn. Efnistök hópsins eru fjölbreytt en miða að því að einstaklingurinn öðlist aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Þátttakendur hópsins ákvarða í sameiningu viðfangsefnin í upphafi fyrsta fundar. Val þeirra stendur um ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinnu og hugarfar.

Skipulag endurhæfingar. Hópurinn hittist vikulega og vinnur markvisst í endurhæfingu sinni og mótar eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir iðjuþjálfar halda utan um hópinn og leiða í markmiðasetningu og umræðu um málefni á borð við bataferlið, heilbrigt svefnmynstur, ferilskrárgerð, bjargráð og vanamynstur.

Safety net is a group for connecting with ourselves and with others, through sharing, listening and mirroring. We practice sharing what is alive in ourselves at any given time and being present for each other.  The group is led by Dumitrița Simion.

Unghugar. Hópurinn er ætlaður ungu fólki á aldrinum 18-30 ára sem vill hitta aðra á svipuðu reki, ræða líðan og vinna úr andlegum krísum. Svava Arnardóttir iðjuþjálfi heldur utan um hópinn og styður í umræðum um hugmyndafræði á borð við bata, valdeflingu og jafningjagrunn. Einnig vinna Unghugar að verkefnum, skipuleggja viðburði, opna umræðu um geðheilbrigðismál og hittast í félagslegum aðstæðum utan funda. Unghugar funda einu sinni í viku í 90 mínútur í senn.

Valdefling. Hópur opinn öllum félagsmönnum, þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn er leiddur af Árna Ævarri Steingrímssyni og Páli Ármanni og hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn. Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: https://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/

Yoga nidra. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlanga slökun einu sinni í viku með leiddri hugleiðslu og ásetningi.

Þýðing upplifana. Hópurinn hittist einu sinni í viku, hópstjórar eru Fanney og Svava en þessi hópur er lokaður. Að heyra raddir, sjá sýnir og önnur óhefðbundin skynjun af heiminum geta verið þýðingarríkar upplifanir og ástæðurnar að baki þessari skynjun geta verið margvíslegar. Þessi hópur er ætlaður þeim sem hafa verið að nýta sér hópinn „raddir, sýnir og skynjanir“ á þriðjudögum og vilja vinna dýpra með upplifanir sínar af röddum, sýnum eða öðrum tengdum skynjunum. Stefnt er að því að nota skapandi leiðir til að rýna í eigin upplifanir og leita að þýðingu þeirra, fyrir okkur sjálf og á okkar eigin forsendum.

Kynningarfundur (nýliðar).  Nýliðum, sem hafa haft samband við Hugarafl og óskað eftir að gerast meðlimir eða til að fá kynningu á starfsemi Hugarafls, er boðið á kynningarfund sem fer fram einu sinni í viku, á mánudögum klukkan 13.  Árni, Fjóla og Fanney sjá um kynninguna þar sem öll starfsemi og hugmyndafræði Hugarafls er kynnt og rædd við nýliðana.  Að því loknu geta þeir sem áhuga hafa skrifað undir félagsaðildarsamning.

Nýliðaspjall.  Fundur með nýliðum undir stjórn Fríðu Valentine og Maríu Ówen á þriðjudagsmorgnum frá kl. 9 til 10.  Opinn öllum þeim nýliðum sem vilja kynna sér starfsemi og dagskrá Hugarafls og spyrjast fyrir um hana.  Einnig er veitt leiðsögn við að taka fyrstu skrefin inn í starfsemina.

Lyfjamálin.  Þessi hópur, sem er undir umsjón Auðar Axelsdóttur, er á mánudögum frá kl. 11 til 12 og markmið hans eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum.  Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við.  Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu.
Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hver og einn miðli sinni reynslu um málefnið.

Innri sannfæringar.  Þessi hópur er lokaður og umsjón með honum hefur Guðfinna og er hann á miðvikudagsmorgnum frá kl. 9 til 10.  Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu.  Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðunar í dag.

Safety net / Öryggisnet.  Lokaður hópur sem hittist á föstudögum frá kl. 9:30 til 10:50 undir stjórn Dumitritiu Simion.  Markmið hópsins er að þátttakendur tengist sjálfum sér og öðrum með því deila, hlusta og spegla.  Þeir munu æfa að deila því sem lifir innra með þeim á hverjum tímapunkti og að vera til staðar fyrir hvorn annan.  Stuttar æfingar til að tengjast líkamanum verða með í upphafi hvers tíma.

Verkefni sem Hugaraflsfólki býðst að taka þátt í:

Erasmus+ verkefni. Hugarafl tekur þátt í fjölda erlendra verkefna sem hafa hlotið fjárhagslegan styrk frá Evrópusambandinu. Þátttaka í þessum verkefnum hefur meðal annars snúið að því að skipuleggja námskeið með erlendum leiðbeinendum, fara erlendis í þjálfanir, þróa námsefni og borðspil og þátttaka í öðrum viðburðum hérlendis sem erlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra og/eða Dumitritu Simion.

Geðfræðsla Hugarafls. Einstaklingar á vegum Hugarafls fara í efstu bekki grunnskóla og menntaskóla til að fræða ungmenni um reynslu sína, batann, bjargráð og hvað sé mikilvægt að gera ef geðrænar áskoranir eiga sér stað og hvar megi leita stuðnings í umhverfinu. Þessi fræðsla byggir á persónulegri reynslu einstaklingsins og hefur gefið góða raun til að minnka fordóma og opna umræðu um geðheilbrigðismál. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

Klikkið hlaðvarp. Hugarafl gefur út vikulegt hlaðvarp (e. podcast) á netinu. Hlaðvarpið miðlar hugmyndafræði Hugarafls og opinni umræðu og viðtölum um geðheilbrigðismál til íslensks samfélags. Áhugasöm eru hvött til að hlusta á hlaðvarpið á: stundin.is, kjarninn.is (undir Hlaðvarp – Klikkið) eða hugarafl.is.

Ritnefnd. Ritnefndin heldur úti heimasíðunni hugarafl.is auk opinni like-síðu Hugarafls á facebook. Ritnefndin miðlar fréttum um geðheilbrigðismál á síðunni en getur einnig skrifað pistla, þýtt efni og skapað myndbönd eftir áhuga og málefni hverju sinni. Áhugasöm geta haft samband við Magga, Fjólu eða Auði. Einnig er hægt að senda ábendingu um vefinn á ritnefnd@hugarafl.is

Skipulagning ráðstefna, námskeiða og annarra stakra viðburða í starfsemi Hugarafls. Hugarafl heldur ýmsa stóra viðburði í gegnum árið til að opna umræðu um geðheilbrigðismál og miðla reynslu okkar. Þessir viðburðir eru ræddir á Hugaraflsfundum og ákvarðanir teknar þar. Áhugasömum er bent á að sækja Hugaraflsfundi til að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og mögulega grasrótarfundi til að vinna að verkefnunum í kjölfarið.