Skip to main content

Endurhæfingarlífeyrir

Við fáum reglulega beiðni um að útbúa endurhæfingaráætlanir með fólki sem er að vinna að bættri geðheilsu sinni. Grundvallaratriði er að við útbúum slíkar áætlanir eingöngu fyrir Hugaraflsfélaga og því er fyrsta skrefið að sækja um aðild (sjá nánar í  “nýliðaferlið”).

Í starfshópnum okkar eru meðal annars tveir iðjuþjálfar og sálfræðingur og þau sjá um gerð endurhæfingaráætlana í Hugarafli. Forsenda fyrir því að við vinnum endurhæfingaráætlun í samstarfi við þátttakanda er að viðkomandi hafi kynnt sér starfsemina, prófað hópana og gefið sér reynslutímabil í um 3-4 vikur. Þetta er meðal annars til að tryggja það að við séum að útbúa áætlun sem inniheldur dagskrárliði sem fólki hentar og þau hafa prófað áður. 

Ef þú ert nú þegar í nánu samstarfi við fagaðila með starfsréttindi frá Landlæknisembættinu þá getur viðkomandi manneskja útbúið endurhæfingaráætlun í samstarfi við þig (t.d. félagsráðgjafi, geðlæknir, sálfræðingur, heimilislæknir, iðjuþjálfi, geðhjúkrunarfræðingur). 

Ef þú ert tekjulaus og í bráðri stöðu þá er hægt að kanna rétt sinn á framfærslu hjá félagsþjónustunni sem brúar oft bilið milli vinnu og þess að endurhæfingaráætlun fæst útbúin og samþykkt. 

Við útbúum endurhæfingaráætlanir í nánu samstarfi við einstaklinga sem sækja starfsemi Hugarafls. Við skrifum aldrei eitthvað í plöggin án þess að viðkomandi hafi upplýsingar um það og gætum þess að einstaklingar hafi eintök af áætluninni sinni. 

Þegar það þarf að endurnýja endurhæfingaráætlun er mikilvægt að hafa samband við fagaðilann sinn tímanlega. TR áskilur sér þó nokkrar vikur til að fara yfir áætlanir og því er mikilvægt að fylgjast vel með hvenær það þurfi að endurnýja og bóka samtal um 3-4 vikum áður en sá frestur er. 

Við hvetjum Hugaraflsfélaga að halda vel utan um mætingu sína auk þess sem við skráum niður þátttöku í hópastarf og viðveru í húsi. Viðvera, þátttaka og ástundun endurhæfingaráætlunar skiptir bæði máli fyrir einstaklinginn til að vinna að bata sínum og fyrir TR þegar þau meta hvort þau samþykki endurnýjaða endurhæfingaráætlun.