Skip to main content
Samfélagsleg geðþjónusta

Einstaklingsmiðuð nálgun

Hugarafl er starfrækt fyrir alla þá sem hafa gengið í gegnum andlegar áskoranir og aðstandendur þeirra. Hjá Hugarafli er einstaklingnum veittur stuðningur við að ná bata og stjórn á eigin lífi með einstaklingsmiðaðri nálgun. Sérstaða Hugarafls er persónuleg nálgun og samstarf fagfólks og notenda geðheilbrigðisþjónustunnar á jafningjagrunni. Notendur í Hugarafli móta eigin endurhæfingu og veita öðrum stuðning sem eru í svipuðu ferli. Kjarni starfs Hugarafls er þekking og reynsla notenda og fagfólks, verkefni og hugsjónabarátta.

Markmið Hugarafls eru:

  • að uppræta fordóma í íslensku samfélagi
  • að efla hlutverk og þátttöku einstaklinga sem eru að efla geðheilsu sína í samfélaginu
  • að efla þekkingu almennings og fagfólks á bataferli einstaklinga sem eru að efla geðheilsu sína
  • að kynna og starfa eftir hugmyndafræði valdeflingar og batamódelsins
  • að starfrækja og þróa þjónustu og úrræði fyrir einstaklinga sem eru að efla geðheilsu sína samkvæmt ofangreindri hugmyndafræði.

Valdefling og batanálgun

Markviss tæki notuð til að efla starfið og einstaklinginn. Hópurinn virkar sem forvörn, uppbygging í bataferli og notendastýrð starfsendurhæfing.

Valdefling

Valdefling er einstaklingsmiðað batahvetjandi kerfi, byggt á trausti og virðingu, og mótað af notanda í samvinnu við fagmenn.

Bati

Bati á sér stað þegar fólk getur búið við lífsgæði hvort sem geðræn veikindi eru til staðar eða ekki.

Jafningjagrunnur

Jafningjagrundvöllur næst þegar fagmenn og einstaklingar með persónulega reynslu af andlegum áskorunum tala saman og starfa sem jafningjar.

Fagfólk og notendur starfa saman á jafningjagrunni og taka sameiginlegar ákvarðanir.

 Valdefling felur í sér:

Árið 1997 birti Judi Chamberlin grein með vinnuskilgreiningu á valdeflingarhugtakinu (e. empowerment). Orðið „valdefling“ hafði þá verið notað víða en í ólíkum tilgangi og vöntun var á sameiginlegri skilgreiningu. Judi vann vinnuskilgreiningu á valdeflingarhugtakinu í samstarfi við fjölda annarra einstaklinga með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Afrakstur vinnu þeirra reyndist vera 15 ólíkir punktar sem hver um sig útskýrir eina vídd valdeflingar. Valdefling felur í sér:

1. Að hafa vald til að taka ákvarðanir.
2.    Að hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum.
3.    Að hafa næga valkosti (ekki bara já/nei, annað hvort/eða).
4.    Að efla ákveðni
5.    Að vekja væntingar um að einstaklingurinn geti haft áhrif (að vera vongóður).
6.    Að læra að hugsa á gagnrýninn hátt, að komast upp úr hjólförunum, að sjá hluti á annan hátt, t.d.

  • Að læra að endurskilgreina hver við erum (að tala með eigin rödd).
  • Að læra að endurskilgreina hvað við getum gert.
  • Að læra að endurskilgreina sambönd okkar við stofnanavöld.

7.    Að læra um reiði og láta hana í ljósi.
8.    Að finnast maður ekki vera einn, finnast maður vera hluti af hópi.
9.    Að skilja að fólk hefur réttindi.
10.    Að hafa áhrif á breytingar í eigin lífi og eigin samfélagi.
11.    Að tileinka sér nýja hæfileika sem einstaklingurinn telur mikilvæga (t.d. í samskiptum).
12.    Að breyta skynjun annarra á eigin hæfni og getu til athafna.
13.    Að koma út úr skápnum.
14.    Að einstaklingurinn stuðli sjálfur að viðvarandi þroska og breytingum.
15.    Að efla jákvæða sjálfsmynd og vinna bug á fordómum.

Meira um valdeflingu

Batahugmyndafræði 

Bandaríski geðlæknirinn Daniel Fisher er einn af þeim sem unnu náið með Judi. Hann hefur einnig persónulega reynslu af andlegum áskorunum og hefur látið til sín taka í réttindabaráttu í geðheilbrigðismálum. Daniel Fisher og Laurie Ahern gáfu út svk. Empowerment Model of Recovery árið 1999 sem mætti gróflega þýða sem batahugmyndafræði byggð á valdeflingu. Myndræna framsetningu líkansins má sjá hér að neðan:

Þegar Hugarafl var stofnað árið 2003 var batahugmyndafræðin enn ný af nálinni og starfsemin byggði á líkani Fishers. Taka ber fram að orðalag þessa líkans hefur nú verið uppfært og Fisher talar einnig sjálfur um „recovery paradigm“ sem þýða mætti sem batahugmyndafræði í stað líkans. Lykilatriði batahugmyndafræðinnar hafa þó ekki breyst. Í grunninn mætti segja að andlegar áskoranir megi rekja til áfalla, missis, skorts á nægjanlegum félagslegum tengslum, stuðningi og þeirri tilfinningu að þú tilheyrir samfélaginu. Andlegar áskoranir eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Við göngum í gegnum tilfinningalegt rót í kjölfar erfiðrar upplifunar og getum misst stjórn á eigin lífi í kjölfarið. Í þeim aðstæðum uppfyllum við mögulega greiningarskilmála fyrir svk. „geðsjúkdóma“ og fáum stimpil. Það er hægt að ná bata af andlegum áskorunum, þær eru ekki komnar til að vera. Það er mikilvægt að miðla von um batann og ítreka það að hvert og eitt okkar skilgreinir hvað felst í okkar bata sjálf. Einstaklingar geta náð bata hvort sem þeir upplifi enn einhver merki vanlíðunar eður ei. Batavegferðin er mismunandi fyrir hvern og einn en felur gjarnan í sér aukna valdeflingu, tilfinninguna að vera við stjórnvölinn í eigin lífi, aukin tengsl við samfélagið og félagslegan stuðning og að vinna úr þeirri lífsreynslu sem við höfum gengið í gegnum. Eftir að við höfum náð bata tekur hefðbundið líf við með venjubundnum sveiflum upp og niður í daglegri líðan.

Fisher gaf út bókina „Heartbeats of hope“ árið 2017 sem lýsir persónulegri sögu hans og auk þess sem stór hluti bókarinnar fjallar um batahugmyndafræðina, andlegt hjartahnoð (e-CPR) og fleiri hjálpleg verkfæri sem Fisher hefur þróað í gegnum árin. Hugarafl mun flytja inn bókina og selja á næstunni. Í bókinni má meðal annars finna nýjustu myndrænu framsetningu batahugmyndafræðarinnar;

Jafningjagrundvöllur

Jafningjagrundvöllur næst þegar fagmenn og einstaklingar með persónulega reynslu af andlegum áskorunum tala saman og starfa sem jafningjar. Við metum reynslu þessara tveggja hópa til jafns. Einstaklingurinn sjálfur er ávallt sérfræðingur í eigin lífi.

Atriði til að hafa í huga til að meta hvort jafningjagrundvöllur sé til staðar:

– Er starfsfólk sérstaklega merkt eða klætt öðruvísi, t.d. í hvítum sloppum eða með nafnspjöld?
– Er beðið með að hefja fund þangað til einhver ákveðinn aðili mætir á fundinn, t.d. forstöðumaður, formaður, læknir, jafnvel þó meirihluti fundargesta sé mættur?
– Hafa allir jafnt vægi með ákvarðanatöku? Er tekið mark á skoðunum allra og eru öll viðstödd með atkvæðarétt?
– Eru sérmerkt salerni og kaffiaðstaða eingöngu fyrir starfsmenn/fagfólk?