Skip to main content
Mælt með

Vinnuskilgreining á valdeflingu

By janúar 4, 2018október 26th, 2020No Comments

Þetta er útdráttur úr grein eftir Judi Chamberlin sem hún skrifaði eftir að hafa unnið, með öðrum, að rannsóknarverkefni sem var hannað til að mæla valdeflingu í meðferðum, sem voru fjármagnaðar af og fyrir notendur geðheilbrigðiskerfisins. Þar sem hugtakið „valdefling” var orðið vinsælt innan geðheilbrigðisgeirans en hafði ekki verið skilgreint á greinargóðan hátt réðist hópurinn fyrst í að setja upp vinnuskilgreiningu á hugtakinu.   Lykilþættir valdeflingar voru tilgreindir, til dæmis aðgengi að upplýsingum, hæfni til að velja, ákveðni og sjálfsálit, og hver þáttur skilgreindur nánar. Eftirfarandi upplýsingar eru afrakstur þeirrar vinnu. Til einföldunar er talað um „fagmenn” og „notendur” eða „skjólstæðinga” og er þá verið að tala um aðila innan geðheilbrigðiskerfisins.

Valdefling felur í sér:

1.    Að hafa vald til að taka ákvarðanir.
2.    Að hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum.
3.    Að hafa næga valkosti (ekki bara já/nei, annað hvort/eða).
4.    Að efla ákveðni
5.    Að vekja væntingar um að einstaklingurinn geti haft áhrif (að vera vongóður).
6.    Að læra að hugsa á gagnrýninn hátt, að komast upp úr hjólförunum, að sjá hluti á annan hátt, t.d.
•         Að læra að endurskilgreina hver við erum (að tala með eigin rödd).
•         Að læra að endurskilgreina hvað við getum gert.
•         Að læra að endurskilgreina sambönd okkar við stofnanavöld.
7.    Að læra um reiði og láta hana í ljósi.
8.    Að finnast maður ekki vera einn, finnast maður vera hluti af hópi.
9.    Að skilja að fólk hefur réttindi.
10.    Að hafa áhrif á breytingar í eigin lífi og eigin samfélagi.
11.    Að tileinka sér nýja hæfileika sem einstaklingurinn telur mikilvæga (t.d. í samskiptum).
12.    Að breyta skynjun annarra á eigin hæfni og getu til athafna.
13.    Að koma út úr skápnum.
14.    Að einstaklingurinn stuðli sjálfur að viðvarandi þroska og breytingum.
15.    Að efla jákvæða sjálfsmynd og vinna bug á fordómum.

Ítarleg skilgreining á hverjum lið fyrir sig:

1. Að hafa vald til að taka ákvarðanir.
Fagmenn gera oft ráð fyrir því að notendur séu ófærir um að taka ákvarðanir eða öllu heldur að taka „réttar” ákvarðanir. Þess vegna eru mörg úrræði byggð á forræðishyggju og takmarka fjölda eða gæði ákvarðana sem notendur þeirra mega taka. Notendur geta verið færir um að taka ákvarðanir varðandi matseðil kvöldsins, sem dæmi, en ekki varðandi heildarstefnu þeirra eigin meðferðar. Notendum, sem fá ekki tækifæri til að æfa sig í ákvarðanatöku, er haldið föngnum í langvarandi aðstæðum þar sem þeir eru ósjálfstæðir og háðir öðrum. Enginn getur öðlast sjálfstæði ef hann fær ekki tækifæri til að taka mikilvægar ákvarðanir um eigið líf.

2. Að hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum.
Ákvarðanataka ætti ekki að eiga sér stað í tómarúmi. Vænlegast er að taka ákvarðanir þegar nægar upplýsingar eru fyrir hendi svo hægt sé að vega og meta mögulegar afleiðingar mismunandi valkosta. Þrátt fyrir það takmarka margir fagmenn slíkar upplýsingar í þeirri trú að það sé í þágu notandans. Þessi trú á vanhæfni skjólstæðinganna getur síðan styrkst ef notendur, sem hafa ekki fengið fullnægjandi upplýsingar, taka þar af leiðandi hvatvíslegar ákvarðanir.

3. Að hafa næga valkosti (ekki bara já/nei, annað hvort/eða).
Val sem hefur einhverja þýðingu er ekki val á milli hamborgara og pylsu eða keilu og sunds. Ef þú vilt heldur salat eða fara á bókasafn ertu í slæmum málum.

4. Að efla ákveðni
Fólki, sem hefur ekki verið greint með geðsjúkdóm, er hampað fyrir þennan eiginleika en notendur sem sýna ákveðni eru oft stimplaðir stjórnsamir og erfiðir. Þetta er dæmi um það hvernig geðsjúkdómsstimpill getur orðið til þess að jákvæðir eiginleikar eru endurskilgreindir sem neikvæðir eiginleikar. Ákveðni – það að geta tjáð óskir sínar skilmerkilega og að standa með sjálfum sér – hjálpar einstaklingum að fá því sem þeir vilja framgengt.

5. Að vekja væntingar um að einstaklingurinn geti haft áhrif (að vera vongóður).
Von er ómissandi liður í skilgreiningu okkar. Manneskja sem er vongóð trúir á möguleikann á breytingum og framförum í framtíðinni. Án vonar getur það virst tilgangslaust að sýna viðleitni. Samt virðast fagmenn, sem stimpla skjólstæðinga sína „ólæknandi” eða „með þrálátan sjúkdóm”, í sömu andrá ætlast til þess að þeir telji ástæðu til, og langi til, að grípa til aðgerða og gera breytingar á lífi sínu, þrátt fyrir hið algjöra vonleysi sem slíkir stimplar gefa til kynna.

6. Að læra að hugsa á gagnrýninn hátt, að komast upp úr hjólförunum, að sjá hluti á annan hátt.
Þessi hluti skilgreiningarinnar vakti mesta umræðu og hópurinn átti erfitt með að þjappa honum saman í stuttu máli. Hópurinn taldi að í gegnum ferli greiningar geðröskunar og meðferðar hennar hefði líf notenda og persónuleg saga þeirra umbreyst í sjúkrasögu. Þar af leiðandi er hluti af valdeflingarferlinu endurheimt þessara ævisagna. Á svipaðan hátt felur valdeflingarferlið í sér endurheimt trúar á eigin getu og viðurkenningu á valdasamböndum, sem eru oft ógreinileg, sem fylgja meðferðaraðstæðum. Á frumstigum þátttöku í sjálfshjálparhópum er, sem dæmi, mjög algengt að þátttakendur segi hver öðrum sögu sína; bæði það að segja frá og að hlustað sé á mann eru mikilvæg atriði fyrir meðlimi hópanna.

7. Að læra um reiði og láta hana í ljósi.
Fagmenn telja oft að notendur sem láta reiði í ljósi séu „að missa tökin” eða „stjórnlausir”. Það á jafnvel við þegar reiðin er réttmæt og væri talin það ef „venjuleg” manneskja léti hana í ljósi. Þetta er enn eitt dæmið um það að jákvæður eiginleiki umbreytist í neikvæðan eiginleika hjá manneskju sem hefur verið greind með geðröskun. Þar sem tjáning reiði hefur oft verið svo takmörkuð er algengt meðal notenda að óttast eigin reiði og ofmeta eyðileggingarmátt hennar. Notendur þurfa tækifæri til að læra: um reiði; að láta hana í ljósi á öruggan hátt og að þekkja takmörk hennar.

8. Að finnast maður ekki vera einn, finnast maður vera hluti af hópi.
Hópefli er mikilvægur liður í skilgreiningu okkar. Valdefling er ekki eitthvað sem gerist eingöngu hjá einstaklingnum, hún felur í sér að upplifa tengsl við annað fólk. Ímynd Johns Wayne þar sem hann kemur í bæinn, lagar allt og ríður svo inn í sólsetrið er ekki samhljóma skilgreiningunni.

9. Að skilja að fólk hefur réttindi.
Sjálfshjálparhreyfingar þeirra sem hafa náð að lifa með geðsjúkdómum er hluti af viðameiri hreyfingu sem stefnir á að koma á grundvallarréttindum. Við sjáum sterka samsvörun milli okkar hreyfingar og annarra hreyfinga fólks sem er undirokað og hefur verið mismunað, að meðtöldum kynþátta- og þjóðernisminnihlutum, konum, samkynhneigðum og fötluðu fólki. Hluti af starfi allra þessarra frelsishreyfinga hefur verið baráttan fyrir jafnrétti. Þegar við vitum hver réttindi okkar eru skynjum við aukinn innri styrk og meira sjálfstraust.

10. Að hafa áhrif á breytingar í eigin lífi og eigin samfélagi.
Valdefling er meira en tilfinning eða kennd, við lítum á slíkt sem undanfara framkvæmda. Þegar manneskja kemur breytingu til leiðar eykst sjálfstraust hennar og það leiðir af sér frekari og áhrifameiri breytingar. Enn og aftur leggjum við áherslu á að þetta er ekki eingöngu einstaklingsbundin breyting heldur hefur þetta áhrif á heildina.

11. Að tileinka sér nýja hæfileika sem einstaklingurinn telur mikilvæga.
Fagmenn kvarta oft undan því að skjólstæðingar þeirra hafi fáa hæfileika og virðist ekki geta tileinkað sér nýja. Hæfileikar, sem fagmenn telja mikilvæga, eru hins vegar oft ekki þeir sem notendunum sjálfum finnst áhugaverðir eða mikilvægir (t.d. að búa um rúmið á hverjum degi). Þegar notendur fá tækifæri til að læra hluti sem þá langar til að læra koma þeir fagmönnum oft (og stundum sjálfum sér) á óvart með því að takast að læra þá vel.

12. Að breyta skynjun annarra á eigin hæfni og getu til athafna.
Ef eitthvað einkennir hugmynd almennings og fagmanna um „geðsjúklinga”, þá er það vanhæfni. Fólk sem hefur verið greint með geðsjúkdóm er almennt talið ófært um að þekkja eigin þarfir eða framfylgja þeim. Þegar einstaklingur verður færari um að taka stjórnina í eigin lífi og sýnir þannig hversu líkur hann er „venjulegu” fólki í grundvallaratriðum ætti þessi skynjun að byrja að breytast. Og notandinn sem gerir sér grein fyrir því að hann eða hún er að öðlast virðingu annarra öðlast sjálfstraust sem ýtir frekar undir breytingu á skynjun utanaðkomandi aðila.

13. Að koma út úr skápnum.
Þetta er hugtak sem við höfum fengið að láni frá hreyfingu samkynhneigðra. Fólk sem er með skerta samfélagsstöðu en getur falið það, velur oft (mjög skiljanlega) að gera það. Þessi ákvörðun getur hins vegar tekið sinn toll í formi lakara sjálfstrausts og ótta við uppgötvun. Einstaklingar sem ná þeim áfanga að geta svipt hulunni af kringumstæðum sínum eru að sýna sjálfstraust.

14. Að einstaklingurinn stuðli sjálfur að viðvarandi þroska og breytingum.
Í þessum lið vildum við leggja áherslu á að valdefling er ekki ákvörðunarstaður, heldur ferðalag; enginn hefur náð einhverju lokastigi þar sem frekari þroski og breyting er óþarfi.

15. Að efla jákvæða sjálfsmynd og vinna bug á fordómum.
Eftir því sem valdefling einstaklingsins eykst fer hann að finna fyrir auknu sjálfsöryggi og aukinni trú á eigin getu. Þetta leiðir til þess að hann verður færari um að stjórna eigin lífi, sem hefur aftur í för með sér enn bættari sjálfsmynd. Hin neikvæða ímynd „geðsjúklings”, sem hefur verið tengd persónunni órjúfanlegum böndum, fer líka að breytast. Einstaklingurinn gæti losað sig algjörlega við stimpilinn eða gæti endurskilgreint hann þannig að hann gefi til kynna jákvæða eiginleika.

Útdráttur úr greininni „A Working Definition of Empowerment” eftir Judi Chamberlin.
http://www.power2u.org/articles/empower/working_def.html
þýtt af Björgu Torfadóttur, meðlimi Hugarafls