Skip to main content

Mánudagar

Skipulag endurhæfingar

Vegna fjölda þeirra sem sækja þennan hóp hefur verið ákveðið að skipta honum aftur í tvennt. Kl. 10 verður Auður með hópinn sem verður einnig á zoom og kl. 11 verður Fríða með hóp.

Hóparnir hittast vikulega og vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á viðkomandi hópstjóra og á hugarafl@hugarafl.is fyrir tímann.

Lyfjamálin

Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður leiðir hópinn.

Frisbígolf í Fossvogi

Grétar og Sindri leiða hópinn í frisbí, yfirleitt er hist í stofunni niðri og sameinast í bíla.

Þriðjudagar

Jóga – Core Restore

Jógatími með Karna. Rólegur tími þar sem iðkendum gefst tækifæri til þess að tengjast líkama sínum og fara inn á við.

Bati

Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Grétari í þessari lotu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.

Sjálfboðaliðafundur

Sjálfboðaliðar hittast einu sinni í viku, manna sjálfboðaliðavaktir, ræða húsmálin og fleira. Öll eru velkomin til að gerast sjálfboðaliðar og/eða forvitnast um sjálfboðaliðastarfið. Ninna heldur utan um sjálfboðaliðana.

Grasrótin

Einnig þekkt sem aktívistar Hugarafls. Hópurinn kemur með hugmyndir að fjáröflunum, aktívisma og fleiru er tengist félaginu og/eða hagnast því. Ninna sér um hópinn.

Ungmenna hittingur

Vettvangur til þess að hitta og kynnast öðrum ungmennum og tækifæri til þess að taka þátt í mótun og eflingu á starfi fyrir ungmenni í Hugarafli. 

Miðvikudagar

Dansflæði (dance movement therapy)

Dans- og hreyfimeðferð er notkun hreyfingu til þess að styrkja og styðja við einstaklinga tilfinningalega, félagslega, vitsmunalega og líkamlega. Hún gengur út frá því að það sé gagnvirkt ferli á milli tjáningar líkamans og innri hugsana og tilfinninga, að dans og hreyfing geti tengt saman huga og líkama einstaklingsins og aðstoðað hann við að skilja sjálfan sig og tjá tilfinningar sínar sem getur verið erfitt með orðum eða öðrum leiðum. Dansflæði er því fyrir alla þá sem vilja dansa og hreyfa sig til að líða vel í huga og líkama og vilja kynnast tilfinningum sínum betur. Enginn þörf á að hafa reynslu í dansi og allir eru velkomnir. 

Bæn og íhugun

Alla miðvikudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6.

Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika hvött til að vera með.

Hugaraflsfundur

Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.

Fimmtudagar

Dansflæði (dance movement therapy)

Dans- og hreyfimeðferð er notkun hreyfingu til þess að styrkja og styðja við einstaklinga tilfinningalega, félagslega, vitsmunalega og líkamlega. Hún gengur út frá því að það sé gagnvirkt ferli á milli tjáningar líkamans og innri hugsana og tilfinninga, að dans og hreyfing geti tengt saman huga og líkama einstaklingsins og aðstoðað hann við að skilja sjálfan sig og tjá tilfinningar sínar sem getur verið erfitt með orðum eða öðrum leiðum. Dansflæði er því fyrir alla þá sem vilja dansa og hreyfa sig til að líða vel í huga og líkama og vilja kynnast tilfinningum sínum betur. Enginn þörf á að hafa reynslu í dansi og allir eru velkomnir. 

Valdefling

Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Fjóla leiðir hópinn í þessari lotu.

Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn. Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/.

Drekasmiðja

Thelma Ásdísardóttir heldur vikulegar vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan.

Frisbígolf í Fossvogi

Grétar og Sindri leiða hópinn í frisbí, yfirleitt er hist í stofunni niðri og sameinast í bíla.

Aðstandendafundur (annan hvern fimmtudag)

Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.

Föstudagar

Föstudags – Jóga

Jógatími með Karna. Föstudags fjör í jóga formi

Ný í endurhæfingu

Fyrir þau sem ætla að nýta sér Hugarafl sem hluta af sinni endurhæfingu

Kynningarfundur (4. og 22. sept, 6. okt)

Áhugasömu fólki sem hefur haft samband við Hugarafl og óskað eftir að gerast meðlimir eða til að fá kynningu á starfsemi Hugarafls, er boðið á kynningarfund í Síðumúla.

Það þarf ekki að skrá sig á fundinn. Fjóla og Ninna sjá um kynninguna þar sem starfsemi og hugmyndafræði Hugarafls er kynnt og rædd við fundargesti. Að því loknu geta þau sem hafa áhuga á að nýta sér starfsemi Hugarafls skrifað undir félagsaðildarsamning.

Kvennafundur

Umræða fyrir þær sem skilgreina sig sem konur til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópurinn er í umsjá Fjólu og Ninnu.

Karlahópur

Grétar Björnsson heldur utan um hópinn. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag.