Góðan og blessaðan daginn elsku vinir
Þá er komið að jóladagskránni en hún er svo glæsileg að við munum pósta nýrri dagskrá í hverri viku fram að jólum.
Þessi dagskrá gildir vikuna 9. – 13. desember
Við viljum minna á hópareglur; að mæta tímanlega í hópa, hafa athyglina á réttum stað (vera t.d. ekki í símanum í hópum) og vera ekki að ráfa út og inn að óþörfu á meðan hópurinn er í gangi.
Það eru nokkrir hópar sem halda sér allar vikurnar en sumir sem eru bara einu sinni í des og þess vegna ákváðum við að gera nýja dagskrá fyrir hverja viku. Við hvetjum ykkur því til að fylgjast vel með hér og í húsinu auðvitað.
Zoom er í boði fyrir þau sem búa úti á landi, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda zoom linka skal senda tölvupóst á ninna@hugarafl.is með skýringu. Ef þið viljið fá senda staka zoom linka skal passa að senda póst fyrir kl. 9 þann dag sem fundurinn er.
Nánari lýsingar á hópum og viðburðum:
Mánudagur 9. desember
Skipulag endurhæfingar (zoom)
Í desember munum við sameina alla þrjá hópana í einn hóp sem hittist kl. 11 á mánudögum. Þemað í tímunum verða desember og jólin. Auður, Grétar og Kristín sjá um hópinn.
Þriðjudagur 10. desember
Meðvirknispjall
Hvað er meðvirkni? Spjöllum um það. Hvernig hefur hún áhrif á daglegt líf okkar og hvernig getum við verið meðvitaðri um meðvirknina okkar. Guffa heldur utan um hópinn.
Léttar teygjur og slökun
Tökum mjög léttar teygjur fyrir allann líkamann og slökum svo vel á í djúpri slökun sem Rakel leiðir í gegnum. Mælum með léttum fatnaði.
Lyfjamálin (zoom)
Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður sér um hópinn.
Unghugar
Hópur sem ætlaður er ungmennum í Hugarafli á aldrinum 18-30 ára. Áhersla lögð á samveru og tengsl ásamt því sem unnið er út frá hugmyndafræði Hugarafls á skemmtilegan hátt. Alexander og Silvía halda utan um hópinn.
Miðvikudagur 11. desember
Jólabaðið
Hittumst í Laugardalslauginni og slökum aðeins á í pottunum, syndum kannski nokkrar ferðir eða skellum okkur saman í rennibrautina áður en við höldum út í daginn. Grétar tekur á móti ykkur í steinapottinum.
Hópstjóranámskeið hjá Thelmu
Hópstjóranámskeið verður haldið miðvikudaginn 11. desember kl. 9-12.
Námskeiðið er hugsað fyrir þau sem langar að verða hópstjórar innan Hugarafls.
Skráning nauðsynleg – sendið póst á hugarafl@hugarafl.is í síðasta lagi á mánudagsmorgun en athugið að þau sem skráðu sig áður þurfa að gera það aftur. Ekki er gefið að öll komist að á þetta fyrsta námskeið en það verða fleiri námskeið á næsta ári.
Zoom er í boði fyrir þau sem það þurfa.
Lesið eftirfarandi punkta vel:
Leiðbeiningar fyrir hópstjóra í Hugarafli
-
Hópur þarf að hafa tvo hópstjóra og einn til vara. Undantekningar geta verið eins og spilaklúbbur, prjónaklúbbur o.fl., það er metið hverju sinni.
-
Hópstjóri þarf að hafa stundað starfið í Hugarafli í að lágmarki hálft ár en getur verið lengri tími, það er metið hverju sinni. Innifalið í ástundun er virk þátttaka í hópastarfi sem snýr að hugmyndafræði Hugarafls og stefnu.
-
Hópi á að fylgja hópalýsing sem þarf að fylgja hugmyndafræði Hugarafls.
-
Skila þarf hópalýsingu, nöfnum hópstjóra og óskum um dag- og tímasetningu fyrir hópinn á hugarafl@hugarafl.is
-
Allir hópstjórar þurfa að hafa setið hópstjóranámskeið hjá Thelmu sem verða haldin reglulega.
-
Þó að manneskja uppfylli öll ofangreind skilyrði er ekki sjálfgefið að viðkomandi verði hópstjóri. Það er metið hverju sinni.
Knús frá Thelmu
Göngutúr
Förum saman í létta göngu í nærumhverfi Hugarafls. Hægt að fara á þeim hraða sem hvert og eitt kýs. Birna og Helga A. fara með okkur í göngutúr.
Hugaraflsfundur (zoom)
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.
Fimmtudagur 12. desember
Innri sannfæringar
Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag. Guffa heldur utan um hópinn.
Nintendo Switch og borðspil
Spilum saman! Við eigum fullt af borðspilum sem hægt er að spila og einnig verður boðið upp á ýmsa leiki í Nintendo Switch. Grétar tekur á móti ykkur í risinu.
Föstudagur 13. desember
Wim Hoff öndun
Við ætlum að gera léttar wim hoff öndunaræfingar saman. Wim hoff öndun getur hjálpað við slökun og innri ró. Mæja leiðir öndunina.
Súpa
Rakel ætlar að elda dýrindis mexíkóska kjúklingasúpu. Hráefnið er ekki ókeypis svo það kostar 1.500 kr á mann og þarf að koma með pening til Ninnu í síðasta lagi fyrir hádegi á miðvikudag.