Skip to main content

Jú góðan daginn og komiði sæl!  

Hér kemur stórglæsileg dagskrá fyrir sumarlotu, sem gildir frá 10. júní – 15. ágúst 2025. 

Athugið að dagskráin getur breyst í sumar, því er mikilvægt að fylgjast vel með í fb hópnum okkar og mæta á Hugaraflsfundi til að vera með puttann á púlsinum.  

Athygli er vakin á að hópar eins og Lyfjamálin, Hinsegin hugar, Drekasmiðja og Verkfærakistan verða ekki í dagskrá í sumar en munu poppa upp af og til, aftur er mikilvægt að fylgjast vel með í fb hópnum.  

Við viljum minna á hópareglur; að mæta tímanlega í hópa, hafa athyglina á réttum stað (vera t.d. ekki í símanum í hópum) og vera ekki að ráfa út og inn að óþörfu á meðan hópurinn er í gangi. 

Teams er í boði fyrir þau sem búa úti á landi, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda teams linka skal senda tölvupóst á ninna@hugarafl.is með skýringu. Ef þið viljið fá senda staka teams linka skal passa að senda póst fyrir kl. 9 þann dag sem fundurinn er. Athugið að ef þið þurfið link fyrir Skipulag endurhæfingar þarf að taka fram í hvaða hópi þið eruð.   

  

Nánari lýsingar á hópum og viðburðum: 

  

Mánudagur 

Dansilabb 

Förum í göngutúr (dansilöbbum saman) með tónlist og gleði. Rakel heldur utan um hópinn. 

 

Skipulag endurhæfingar (teams) 

Þrír hópar ganga undir nafninu Skipulag endurhæfingar og eru lokaðir hópar.  

Í hópatímum A og B eru rædd markmið og tilgangur endurhæfingar með iðjuþjálfa.  

Í hópi A er lögð áhersla á tilgang endurhæfingar og markmið daglegs lífs. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum.  

Í hópi B er lögð áhersla á að viðhalda árangri, taka á þeim atriðum sem mögulega þarf að breyta í daglega lífinu og horfa fram á við hvað varðar framtíðaráform. Unnið er með bakslög sem þekkingarbrunn og stuðst við þá þekkingu sem skapast. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum.  

Í hópi C fer fram starfsmiðuð endurhæfing. Þau sem taka þátt í þeim hópi eru flest á seinni hluta endurhæfingar og á leið á vinnumarkað eða til skólagöngu. Unnið er með undirbúning fyrir endurkomu á vinnumarkað og hópastarfið felur í sér að farið er í gegnum vonir og væntingar og unnið með þær áhyggjur sem upp koma þegar þetta skref er stigið. Gerð eru hagnýt plön sem miðast að því að komast á vinnumarkað, farið er yfir möguleika á vinnumarkaði, unnið að ferilskrá, undirbúningur umsókna og starfssamtals og margt fleira mætti telja. Stuðlað er að tengingu við samfélagið og samstarf við þá aðila sem skipta máli þegar stigið er út í samfélagið á ný. Má þar nefna Vinnumálastofnun, Mímir, vinnustaðir og aðrir.  

Kær kveðja.  

Auður og Grétar 

 

Sjósund í Nauthólsvík – núvitund og náttúruböð 

Við hittumst í Nauthólsvík og förum saman í sjóinn til að kæla hug og líkama. Sjósund er frábær leið til að tengjast sjálfum sér, jörðinni og náttúrunni – og hefur reynst mörgum öflug aðferð til að takast á við kvíða, spennu og vanlíðan.
Við förum á okkar eigin hraða og leggjum áherslu á öryggi, samveru og virðingu fyrir mörkum hvers og eins. Það skiptir engu máli hvort þú ert vanur sjósundari eða að stíga fyrstu skrefin – þú ert velkomin(n)(ð)!
Haukur, Ninna og Tryggvi taka á móti ykkur í Nauthólsvík.
Athugið að það er frítt í laugarnar fyrir þau sem eru á endurhæfingarlífeyri eða örorku. 

  

Þriðjudagur 

Meðvirkni og innri sannfæringar 

Undanfarið hafa þetta verið tveir hópar, meðvirknispjall og innri sannfæringar, en í sumar ætlar Guffa að prófa að blanda þessu saman.  

Hvað er meðvirkni? Spjöllum um það. Hvernig hefur hún áhrif á daglegt líf okkar og hvernig getum við verið meðvitaðri um meðvirknina okkar.  

Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag. 

 

Bati (teams) 

Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferlinu. Hver tími er bland af fræðslu, umræðum og verkefnavinnu. Hópurinn er leiddur af Sigrúnu Huld í júní og júlí. 

 

Unghugar 

Unghugar er hópur fyrir ungt fólk, 18 – 30 ára, sem glímir við geðrænar áskoranir og vinna að eigin bata. Við styðjum hvert annað í félagslegum aðstæðum, byggjum tengsl og leggjum rækt við valdeflingu, jafningjastuðning og traust.
Hópurinn var stofnaður þann 24. ágúst 2009 af ungmennum innan Hugarafls og hefur frá upphafi verið jafningjarekinn, þar sem áhersla er lögð á að dagskrá og starf þróist út frá því sem hópmeðlimir vilja sjálfir taka þátt í. 

Þriðjudagar
Á þriðjudögum leggjum við áherslu á félagsskap, tengsl og samveru. Við höfum ákveðið að taka hlé frá Stepping Stones bókinni í bili og gefa rými fyrir meira spjall, styrkingu tengsla og sveigjanlegri dagskrá.
Við ræðum um það sem skiptir okkur máli, deilum reynslu, spjöllum, hlæjum og stundum spilum við.
Stundum förum við líka út fyrir húsið – í skipulögð „field trip“ sem við ákveðum saman (t.d. í Nauthólsvík, ísferð, picnic o.s.frv.), annaðhvort spontant eða með fyrirvara frá vikunni áður.
Þetta er rólegt, styrkjandi og afslappað rými þar sem þú mátt vera nákvæmlega eins og þú ert 💜
Alexander, Blær og Silvía sjá um hópinn. 

 

Borðspil 

Hittumst og spilum saman borðspil!
Hugarafl á helling af skemmtilegum spilum sem við getum valið úr. Þið megið líka endilega koma með ykkar eigin spil ef ykkur langar. Við ákveðum saman hvað við spilum í hvert skipti og leggjum áherslu á góða stemningu og samveru. Alexander heldur utan um hópinn.  

 

Miðvikudagur 

Kaffispjall og handavinna 

Áhersla er lögð á samveru og að efla félagsleg tengsl. Engin þörf er á að vera með eitthvað í höndunum eða drekka kaffi, bara koma og vera. Þetta er til dæmis tilvalið fyrir þau sem eru að æfa sig í að koma í hús og rjúfa einangrun. Ninna og Rakel taka vel á móti ykkur. 

  

Yoga með Hauki Gunnars 

Miðlungs öflugt jógaflæði með áherslu á öndun og vöðvahópa sem hafa áhrif á líkamlega og andlega vellíðan. Tíminn sameinar styrk, mýkt og núvitund. Gott er að mæta í þægilegum fatnaði. Haukur G leiðir hópinn.  

 

Hugaraflsfundur (teams) 

Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði. 

 

Stafrænir hugar – sköpun, tækni og samfélag 

Stafrænir hugar er hópur fyrir öll sem hafa áhuga á að styrkja stafræna nærveru Hugarafls – hvort sem það er með efnissköpun, greinaskrifum, myndvinnslu, samfélagsmiðlamálum eða tækniaðstoð.
Við vinnum saman að því að gera rödd Hugarafls sýnilegri á netinu – með sköpunargleði, samstarfi og allt á jafningjagrunni. Hvort sem þú hefur reynslu eða ert bara til í að læra og prófa eitthvað nýtt, þá er alltaf pláss fyrir þig.
Sumarstarf Stafrænna huga verður aðallega með fókus á tvennt, það er annarsvegar að klippa saman myndbönd í sameiningu og hinsvegar að vinna í heimasíðunni okkar, bæði með útlit, texta og fleira.
Hópstjórar: Alexander og Ninna. 

 

Sjósund í Nauthólsvík – núvitund og náttúruböð 

Við hittumst í Nauthólsvík og förum saman í sjóinn til að kæla hug og líkama. Sjósund er frábær leið til að tengjast sjálfum sér, jörðinni og náttúrunni – og hefur reynst mörgum öflug aðferð til að takast á við kvíða, spennu og vanlíðan.
Við förum á okkar eigin hraða og leggjum áherslu á öryggi, samveru og virðingu fyrir mörkum hvers og eins. Það skiptir engu máli hvort þú ert vanur sjósundari eða að stíga fyrstu skrefin – þú ert velkomin(n)(ð)!
Haukur, Ninna og Tryggvi taka á móti ykkur í Nauthólsvík.
Athugið að það er frítt í laugarnar fyrir þau sem eru á endurhæfingarlífeyri eða örorku. 

 

Get together Unghuga 

Get Together er hópur sem Unghugar stofnuðu. Hópurinn hittist annan hvern miðvikudag utan hefðbundinnar dagskrár til að eiga saman notalega og skemmtilega stund. Markmiðið er að efla vináttu og samveru með fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum. Alexander, Blær og Sylvía sjá um hópinn.  

 

Fimmtudagur 

Valdefling (teams) 

Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin og hér má lesa punktana: https://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/ 
Hópstjórar eru Rakel og Tinna.  

Lifandi list 

Hópurinn er leiddur af Blæ Rósar og Sigrúnu Huld. Það er engin skráning en það eru bara 8 pláss í boði þannig við mælum með að mæta snemma. Þegar herbergið er fullt þá lokum við hurðinni. 

Hér kemur svo nánari hóplýsing: 

Hendur okkar hafa þá stórkostlegu hæfileika að þýða hugsanir og tilfinningar í mynd. Með hreyfingu og snertingu gefa þær mynd af landslagi innri heims okkar, og með því skapa okkar eigin persónulegu merkingu. 

Þegar hendur okkar mæta listamiðli – hvort sem það er leir, málning, krít eða pastell – hefjast samræður. Áferð, hitastig og mótstaða efnisins tala beint til líkamsins: mjúkt eða hart, hlýtt eða kalt, róandi eða óþægilegt. Þessi skynjanir virkja okkar innri hæfileika og örva ímyndunaraflið. 

Hverja viku erum við með áætlaða og vandaða hugsun út frá hugmyndum frá starfsþjálfun, listmeðferð og sálfræðikenningum. Markmiðið er að bjóða upp á öruggt og styðjandi umhverfi – eitt sem gerir okkur kleift að gróa, ná bata, ná sjálfsbirtingu og vinna með tilfinningar með áþreifanlegum og list miðuðum æfingum. 

  

Hjólagarpar 

Ferskt loft, stinnir kálfar og gúrme kaffi. Við hittumst í Hugarafli með fallegu hjólin okkar og finnum skemmtilega leið að góðu kaffihúsi. Tour De Hugarafl er engin keppni og markmiðið eingöngu að njóta saman. Öll hjól velkomin. Tryggvi leiðir hópinn. 

 

Aðstandendafundur (annan hvern fimmtudag) 

Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir og Thelma Ásdísardóttir leiða þennan hóp og fá einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald. 

 

Föstudagur 

Hugleiðsla 

Tími til að slaka á líkama og taugakerfi þar sem hugleiðsla er leidd. Einstaklingurinn liggur á dýnu með teppi, mælt er með þægilegum fatnaði. Rakel leiðir hugleiðsluna. 

 

Unghugar – fræðsluvikunefnd (teams) 

Unghugafundur (Teams) 

Unghugar er hópur fyrir ungt fólk, 18 – 30 ára, sem glímir við geðrænar áskoranir og vinna að eigin bata. Við styðjum hvert annað í félagslegum aðstæðum, byggjum tengsl og leggjum rækt við valdeflingu, jafningjastuðning og traust. 

Hópurinn var stofnaður þann 24. ágúst 2009 af ungmennum innan Hugarafls og hefur frá upphafi verið jafningjarekinn, þar sem áhersla er lögð á að dagskrá og starf þróist út frá því sem hópmeðlimir vilja sjálfir taka þátt í. 

Föstudagar 

Á föstudögum komum við saman til að skipuleggja og móta framtíð hópsins auk þess sem í sumar munum við nota þennan tíma til að undirbúa fræðsluviku sem við ætlum að halda í lok sumars. Unghugar eru hvattir til að mæta og taka sameiginlegar ákvarðanir um virkni og stefnu hópsins, ræða málefni líðandi stundar og vinna saman að skipulagi komandi viðburða. Þetta er vettvangur fyrir unghuga til að hafa áhrif á starfið og þróun þess, leiða hugmyndir í framkvæmd og tryggja að hópurinn haldi áfram að dafna á okkar forsendum. 

 Alexander, Blær og Silvía sjá um hópinn. 

 

Leikum okkur 

Sigrún Huld býður félögum í leiktíma vikulega í júní og júlí. Frelsum innra barnið og þjálfum okkur í leik og kjánaskap. Finnum húmorinn saman og setjum léttleika í batavegferðina. Förum út úr húsi þegar sólin skín og leikum okkur undir berum himni.