Hópalýsing fyrir lotu 3 árið 2022

Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni. Boðið er upp á hópa leidda af einstaklingum með fagmenntun sem og einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Dagskráin samanstendur af 6 vikna lotum með mismunandi hópa í hverri lotu. Lotukerfið varð fyrir valinu til að miðla efnistökunum á hnitmiðaðan hátt, bjóða upp á fjölbreytt starf og gefa tækifæri á myndun og þróun nýrra hópa.

 

Aðstandendafundur

Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald. Hópurinn hittist í verkefnaherberginu í Síðumúla 6.

 

Bati

Klukkutímalangur hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Grétari Björnssyni og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu. Hópurinn fer fram í stóra fundarherberginu með sjónvarpinu. Þau sem geta ekki komið í persónu vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna geta setið fundinn í gegnum zoom.

 

Brúin og opið hús

Magnús Ingi og Linda Munda bjóða upp á vikulegan fund fyrir þau sem íhuga eða eru farin að fikra sig aftur í skóla eða á vinnumarkað. Markmiðið er að brúa bilið milli starfsemi Hugarafls og næstu skrefa, takast á við áskoranir sem geta komið upp þessu tengt, ræða tilfinningar og tilheyra hópi. Hópurinn ræðir málin á fimmtudögum frá kl. 17:30-18:30, en til kl. 19 þegar gestafræðarar koma. Að loknum fundi borðar fólk það nesti sem það kom með eða eldar saman. Þá er húsið opið og gegnir hlutverki félagsmiðstöðvar til kl. 20:30.

 

Drekasmiðja

Thelma Ásdísardóttir ráðgjafi frá Drekaslóð heldur vikulegar tveggja klukkustunda vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan. Hópurinn fer fram í stóra fundarherberginu í Síðumúla.

 

Handverkshorn

María Owen og Tinna Björnsdóttir halda utan um handverkshorn í stofunni í Síðumúla, á miðvikudögum kl. 10-12. Öll sem eru að vinna eitthvað í höndunum eða langar bara að spjalla og drekka kaffi, boðin velkomin.

 

Hópstjórar framtíðarinnar

Hefur þú verið hópstjóri upp á síðkastið og langar að styrkja þig í hlutverkinu? Langar þig að verða hópstjóri í náinni framtíð? Langar þig að vita meira um hvað það felur í sér að leiða hóp í Hugarafli og æfa upp þá færni? Hópurinn verður á þriðjudögum kl. 14:15-15:15 í verkefnaherberginu í Síðumúla og er ætlaður þeim sem hafa verið hópstjórar upp á síðkastið eða myndu vilja vera hópstjórar í framtíðinni. Mikilvægt er að taka frá tímann og reikna með að koma á alla fundina. Okkur þætti frábært ef þið mynduð senda okkur tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is til að skrá ykkur í þennan hóp. Svava Arnardóttir, Bragi Sæmundsson, Auður Axelsdóttir og Guðfinna (Guffa) Kristjánsdóttir skipta á milli sín að halda utan um hópinn.

 

Hugaraflsfundur

Hugaraflsfundir, sem eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls, eru einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði. Fundurinn fer fram í stóra fundarherberginu með sjónvarpinu. Þau sem geta ekki komið í persónu vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna geta setið fundinn í gegnum zoom.

 

Karlahópur

Grétar Björnsson heldur utan um hópinn sem hittist einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Hópurinn hittist í fundarherberginu sem er nær stiganum í Síðumúla. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag.

 

Kynningarfundur

Áhugasömu fólki sem hefur haft samband við Hugarafl og óskað eftir að gerast meðlimir eða til að fá kynningu á starfsemi Hugarafls, er boðið á kynningarfund sem fer fram einu sinni í viku í Síðumúla, á mánudögum klukkan 11. Það þarf ekki að skrá sig á fundinn. Fjóla og Grétar sjá um kynninguna þar sem starfsemi og hugmyndafræði Hugarafls er kynnt og rædd við fundargesti. Að því loknu geta þau sem hafa áhuga á að nýta sér starfsemi Hugarafls skrifað undir félagsaðildarsamning.

 

Kundalini yoga

Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á kundalini jógatíma, í 90 mín í senn. Tímarnir eru aðlagaðir að þörfum þátttakenda. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.

 

Léttar teygjur og hugleiðsla

Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á 90 mín hugleiðslu og léttar teygjur. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.

 

Listasmiðjan „Kaffi og krot“

Frida Adriana Martins og Ásta Lilja Magnúsdóttir halda utan um opna listasmiðju á miðvikudögum kl. 18-20 í verkefnaherberginu, í Síðumúla. Smiðjan er opin byrjendum sem og lengra komnum. Fjölbreytt úrval af listavörum er á staðnum og því eingöngu gerð krafa um að mæta með opinn huga og sköpunarkraftinn með sér.

 

Lyfjamálin

Þessi hópur, sem er undir umsjón Auðar Axelsdóttur, er á mánudögum frá kl. 10:30 til 12 og markmið hans eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Hópurinn fer fram stóra fundarherberginu með sjónvarpinu, í Síðumúla.

 

Opið spjall um einhverfu

Tilgangur hópsins er að ræða lifaða reynslu af einhverfu á jafningjagrundvelli, án sjúkdómsvæðingar eða fordóma. Hver fundur er með lauslega ákveðið umræðuefni (t.d. skólaganga, félagsleg tengsl) og samanstendur að langmestu leiti af opnu spjalli um það hvernig einhverfa hefur litað upplifanir okkar af umræðuefninu. Hópurinn hittist á zoom annan hvern þriðjudag kl. 17:30-18:30. Frida Adriana Martins og Ragnheiður Ósk Ákadóttir sjá um hópinn.

 

Rvk.Kóp.Grb.hópur

Reykjavíkur-, Kópavogs- og Garðabæjarhópurinn er í höndum Guffu markþjálfa og NLP sérfræðings, Braga sálfræðings, Kristínar og Auðar iðjuþjálfa. Hópurinn er eingöngu fyrir þau sem eru í sérstöku úrræði á vegum þeirra sveitarfélaga. Hópurinn hittist í persónu í stóra fundarherberginu í Síðumúla.

 

Skipulag endurhæfingar

Hópurinn hittist vikulega og vinnur markvisst í endurhæfingu sinni og mótar eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Í þessari lotu eru fjórir ólíkir endurhæfingarhópar í gangi. Fólk velur þann hóp sem þeim hentar og mætir í hann í þessari lotu. Það er velkomið að prófa annan hóp í næstu lotu. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á viðkomandi hópstjóra og á hugarafl@hugarafl.is fyrir tímann.

  • Skipulag endurhæfingar með Braga – mánudaga kl. 13-14 í stærra fundarherberginu, því sem er með sjónvarpi.

  • Skipulag endurhæfingar með Svövu – mánudaga kl. 13-14 í fundarherberginu sem er nær stiganum.

  • Skipulag endurhæfingar með Kristínu og Auði – mánudaga kl. 13-14 í verkefnaherberginu. Þessi hópur er eingöngu fyrir þau sem eru í sérstöku utanumhaldi á vegum þjónustusamnings við Reykjavík, Kópavog og Garðabæ.

  • Skipulag endurhæfingar Á ZOOM með Svövu – fimmtudaga kl. 11-12. Þessi hópur er sniðinn að þeim sem geta ekki komið í hús vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna.

Stöðufundur sjálfboðaliða

Hugarafl myndi ekki virka ef ekki væri fyrir fagran hóp sjálfboðaliða sem taka að sér ýmis verk í starfseminni sem hluta af eigin bataferli. Sjálfboðaliðar funda í stofunni á fimmtudögum frá kl. 10-10:30. Áhugasöm eru hvött til að heyra t.d. í Fjólu Kristínu Ólafardóttur eða Maríu Owen fyrir frekari upplýsingar um sjálfboðaliðastörf.

 

Valdefling

Hópur opinn öllu félagsfólki, þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn er leiddur af Málfríði Hrund Einarsdóttur og Auði Axelsdóttur. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn. Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/. Hópurinn fer fram í stóra fundarherberginu með sjónvarpinu. Þau sem geta ekki komið í persónu vegna búsetu eða annarra sérstakra aðstæðna geta setið fundinn í gegnum zoom.

 

Yoga nidra

Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á 90 mínútna slökun með leiddri hugleiðslu og ásetningi. Jógað fer fram í jógaherberginu í Síðumúla.

Verkefni sem Hugaraflsfólki býðst að taka þátt í:

  • Erasmus+ verkefni. Hugarafl tekur þátt í fjölda erlendra verkefna sem hafa hlotið fjárhagslegan styrk frá Evrópusambandinu. Þátttaka í þessum verkefnum hefur meðal annars snúið að því að skipuleggja námskeið með erlendum leiðbeinendum, fara erlendis í þjálfanir, þróa námsefni og borðspil og þátttaka í öðrum viðburðum hérlendis sem erlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Dumitritu Simion dumitrita@hugarafl.is

  • Geðfræðsla Hugarafls. Einstaklingar á vegum Hugarafls fara í efstu bekki grunnskóla og menntaskóla til að fræða ungmenni um reynslu sína, batann, bjargráð og hvað sé mikilvægt að gera ef geðrænar áskoranir eiga sér stað og hvar megi leita stuðnings í umhverfinu. Þessi fræðsla byggir á persónulegri reynslu einstaklingsins og hefur gefið góða raun til að minnka fordóma og opna umræðu um geðheilbrigðismál. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

  • Klikkið hlaðvarp. Hugarafl gaf út vikulegt hlaðvarp (e. podcast) á netinu. Hlaðvarpið miðlar hugmyndafræði Hugarafls og opinni umræðu og viðtölum um geðheilbrigðismál til íslensks samfélags. Áhugasöm eru hvött til að hlusta á hlaðvarpið á: stundin.is, kjarninn.is (undir Hlaðvarp – Klikkið) eða hugarafl.is. Við myndum gjarnan vilja heyra frá ykkur ef þið mynduð vilja taka þátt í að endurreisa hlaðvarpið.

  • Ritnefnd. Ritnefndin heldur úti heimasíðunni hugarafl.is. Ritnefndin miðlar fréttum um geðheilbrigðismál á síðunni en getur einnig skrifað pistla, þýtt efni og skapað myndbönd eftir áhuga og málefni hverju sinni. Áhugasöm geta haft samband við Magga, Fjólu eða Auði. Einnig er hægt að senda ábendingu um vefinn á ritnefnd@hugarafl.is.

  • Skipulagning ráðstefna, námskeiða og annarra stakra viðburða í starfsemi Hugarafls. Hugarafl heldur ýmsa stóra viðburði í gegnum árið til að opna umræðu um geðheilbrigðismál og miðla reynslu okkar. Þessir viðburðir eru ræddir á Hugaraflsfundum og ákvarðanir teknar þar. Áhugasömum er bent á að sækja Hugaraflsfundi til að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og mögulega grasrótarfundi til að vinna að verkefnunum í kjölfarið.