Skip to main content

Jú góðan daginn og gleðilegt sumar!

Hér sjáið þið dagskrána okkar fyrir sumarið, stútfull af allskonar fyrir öll!

Mig langar að hvetja ykkur til að lesa vel hópalýsingarnar hér að neðan, þannig finnið þið best hvaða hópar henta ykkur.

Ég vil líka hvetja ykkur til að mæta tímanlega í hópa, skilja símana eftir frammi og njóta samveru og samvinnu með félögum okkar hér í húsinu.

Zoom er í boði fyrir þau sem búa á landsbyggðinni, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda zoom linka skal senda póst á ninna@hugarafl.is með skýringu.
Gott er að hafa í huga að senda póst tímanlega, ekki er hægt að fá senda linka rétt fyrir fundi.

Skilaboð frá Thelmu: Verkfærakistan, Drekasmiðja og aðstandendafundir verða í sumar en ekki í reglulegri dagskrá svo þeir verða auglýstir sérstaklega. Hvetjum ykkur til að fylgjast með í fb hópnum okkar og í húsi.

Hér fáið þið nánari lýsingar á hópunum:

Mánudagur

Frisbígolf

Haukur B og Ágúst halda utan um hópinn. Hittumst í stofunni á fyrstu hæð og förum út í frisbígolf.

Sumarsprikl (zoom)

Nú er komið sumar. Smáfuglar tísta, gæsir rigsa, flugur suða og sprikl-löngun mannfólksins gæti aukist. Marga langar til að stíga einhver skref í að bæta líkamlegu heilsuna sína með meiri hreyfingu eða breyta einhverju í mataræði sínu og nú ætlum við að hittast til skrafs og ráðagerða og sjá hvað okkur dettur í hug.

Þar sem hver og einn getur sett sér markmið eftir sínum hugmyndum, áhuga og getu. Eða bara til að forvitnast um hvað við meinum eiginlega með sprikl

Thelma Ásdísar heldur utan um hópinn.

Þriðjudagur

Bati með Guffu (zoom)

Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Guffu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.
Guffa ætlar að blanda saman Bata og Innri sannfæringum (hópur sem hún hefur haft áður) en í þeim hópi fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag.

Leitin að gleðinni – innra barnið og ég

Vikulegir hittingar þar sem við tengjumst innra barninu og gerum tilraunir. Hvað er gleði? Hvað gleður mig? Hvað veitir mér frelsistilfinningu?

Fundirnir verða bland af æfingum til að tengja og styrkja samband við innra barnið (kynnast þörfum þess) og opnum og skemmtilegum tilraunum til að komast að því hvað gleður innilega. Við förum út úr húsi í góðum veðrum. Við leikum okkur, verðum skapandi og kjánaleg. Þjálfum okkur í leik og gleði og lærum hvernig við getum veitt barninu okkar þann stuðning sem það þarf.

Sigrún Huld leiðir hópana og byggir námsefnið á eigin sjálfsvinnu og rannsóknum, þjálfun í tilfinningaseiglu og verkfærum úr markþjálfun og leiklist.

Hittingarnir verða opnir og skemmtilegir  Þjálfum okkur í að vera frjáls.

Þjálfum okkur í að vera í möguleikavíddinni.

Þjálfum okkur í að gera tilraunir og fara út úr þægindarammanum í góðum og öruggum hópi jafningja

Unghugar

Hópur fyrir öll á aldrinum 18-30 ára.

Göngutúr

Ágúst heldur utan um göngutúra tvisvar í viku. Ýmist verður gengið frá Hugarafli eða farið saman á staði til að ganga á. Öll velkomin, við förum á okkar hraða og njótum útiveru saman.

Miðvikudagur

Sund í Laugardalslaug

Ninna tekur á móti ykkur í steinapottinum í Laugardalslauginni. Ekki er nauðsynlegt að mæta á slaginu hálfníu, það má líka koma seinna og vera styttra. Njótum morgunsins saman í pottunum.

Hinsegin hugar

Hópur fyrir öll sem finna sig undir regnboganum – og öll hin sem vilja fræðast. Umræður í anda hugmyndafræðinnar okkar í bland við hinseginleikann.

Hugaraflsfundur (zoom)

Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.

Fimmtudagur

Kaffispjall og handavinna

Vettvangur fyrir þau sem eiga mögulega erfitt með að koma í hús. Góður vettvangur til að efla félagsleg tengsl, æfa sig í samræðum og að vera með fólki. Ekki er nauðsynlegt að hafa eitthvað í höndunum, það má líka bara koma að spjalla.  Ninna og Tinna ásamt úrvalsliði taka vel á móti ykkur í sófanum.

Valdefling (zoom)

Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin.
Ninna og Tinna halda utan um hópinn í sumar en hvetja öll til að taka að sér að leiða hópinn í eitt og eitt skipti.

Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/

Listasmiðja

Emil heldur utan um listasmiðjuna í júlí en hún verður áfram með svipuðu sniði og er oft auglýst daginn áður í FB hópnum okkar ef það er eitthvað þema eða eitthvað slíkt.

Lovorka heldur utan um listasmiðjuna, hér kemur hópalýsing á ensku:
Let’s have relaxing time together in Verkefnaherbergi to do some arts and crafts!

We will be making jewelry, paint ceramics, stones, paper craft, cards and diamond painting.

Also we will learn drawing basics and some advanced techniques like perspective, anatomy, light and shading and do acrylic painting.

The goal is to experiment and just relax the mind, so there is no pressure to know how to draw, rather to enjoy to express the feelings and explore your inner world!

You can also bring your own ideas, suggest themes and let’s share the creative knowledge together.

Félagsvist/Kani

Hittumst í stofunni og spilum saman félagsvist eða kana. Oliver heldur utan um spilahópinn.

Göngutúr

Ágúst heldur utan um göngutúra tvisvar í viku. Ýmist verður gengið frá Hugarafli eða farið saman á staði til að ganga á. Öll velkomin, við förum á okkar hraða og njótum útiveru saman.

Aðstandendafundur

Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Thelma Ásdísardóttir leiðir þennan hóp í sumar og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.

Föstudagur

Sund í Laugardalslaug

Ninna tekur á móti ykkur í steinapottinum í Laugardalslauginni. Ekki er nauðsynlegt að mæta á slaginu hálfníu, það má líka koma seinna og vera styttra. Njótum morgunsins saman í pottunum.

Kaffispjall og handavinna

Vettvangur fyrir þau sem eiga mögulega erfitt með að koma í hús. Góður vettvangur til að efla félagsleg tengsl, æfa sig í samræðum og að vera með fólki. Ekki er nauðsynlegt að hafa eitthvað í höndunum, það má líka bara koma að spjalla.  Ninna og Tinna ásamt úrvalsliði taka vel á móti ykkur í sófanum.

Rýnihópur Stepping Stones

Hugarafl tekur þátt í verkefni á vegum Erasmus+ þar sem unnið er að vinnubók, myndböndum og bæklingum til að nýta í geðheilbrigðismálum. Verkefnið klárast í haust og nú er komið að síðustu rýnihópunum fyrir verkefnið. Tilvalið tækifæri til að hafa áhrif, æfa röddina sína og valdeflast.