Skip to main content
Sæl öll!
Hér kemur stórglæsileg dagskrá fyrir milliviku í næstu viku! 🥳
Nánari lýsingar:
Mánudagur
Hugleiðsla
Helgi Már leiðir hugleiðslu í jógaherberginu.
Skipulag endurhæfingar
Við sameinum hópana í þessum eina hópi þessa vikuna. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is eða ninna@hugarafl.is fyrir tímann.
Þriðjudagur
Hugaraflsmót í félagsvist
Oliver heldur utan um félagsvist. Hver verður Hugaraflsmeistari 2024?
Mótum dagskrá lotu 2
Í þessum hópi búum við til nýja dagskrá fyrir næstu 6 vikna lotu.
Hafir þú hug á að vera með hóp í næstu lotu er algjört skilyrði að mæta á þennan fund. Gott er að vera búið að ákveða hver verða hópstjórar (æskilegt að þeir séu tveir), hvenær í vikunni þið viljið hafa hópinn (gott að vera með vara-dagsetningu) og vera komin með amk grófa lýsingu á hópnum.
Tarot umræður
Ásta Lilja og Thelma ætla að koma með tarot stokkana sína upp í Hugarafl til að sýna ykkur. Ætlunin er ekki að leggja tarot fyrir fólk, heldur frekar að eiga opið samtal um tarotspilin þar sem öll hafa kost á því að deila reynslu sinni og visku. Við vitum að tarotið leynist víða og því væri mjög gaman að fá ykkar reynslusögur og hvetjum við líka öll þau sem eiga einhvers konar stokka að kippa þeim með sér, hvort sem um tarotstokka er að ræða, englaspil eða annars konar spáspil. Að því sögðu þá tökum við fram að þessi stund er hugsuð fyrir öll, þurfið alls ekki að eiga stokk og eina krafan sem þarf að uppfylla er að hafa áhuga á að fræðast örlítið um tarot. Hlökkum til að sjá ykkur.
Sjósund
Alexander ætlar að taka ykkur með í sjósund. Hist verður í stofunni niðri á 1. hæð og farið samferða í Nauthólsvík.
Bökum pizzu
Alexander ætlar að halda utan um pizzugerð. Öll velkomin sem vilja baka pizzur, eigum notalega stund saman.
Hallgrímur – maður eins og ég
Við ætlum að horfa á heimildamynd um lífshlaup Hallgríms Björgvinssonar sem er einn af stofnendum Hugarafls.
Hallgrímur segir af hreinskilni frá lífsgöngu sinni; einelti í æsku, eiturlyfjaneyslu, gleði og erfiðleikum og því að vera greindur með geðklofa. Hann varð bráðkvaddur rétt eftir að framleiðslu myndarinnar lauk, síðsumars 2010, aðeins 34 ára.
Einnig ætlum við að horfa á viðtal sem Auður og Eiríkur fóru í í Kastljósi stuttu eftir að myndin kom út.
Eftir á verða umræður með Eiríki Guðmundssyni, leikstjóra myndarinnar.
Fimmtudagur
Kaffispjall og handavinna
Hittumst í stofunni í Síðumúla. Öll sem eru að vinna eitthvað í höndunum, hvort sem það er prjón, hekl, föndur, leikur í símanum eða eitthvað annað, eða langar bara að spjalla og drekka kaffi boðin velkomin. Tilvalin stund til að kíkja í hús. Tinna, Fjóla og Ninna taka vel á móti ykkur.
Tækja/myndavélakennsla
Þorkell sér um kennsluna. Byrjum á þessu eina skipti og bætum svo mögulega öðru skipti ef áhugi er til staðar.
Undirstöðuatriði skýrð með einfaldri grafík og smá verklegum æfingum á DSLR og ILMLC myndavél.
Hvað gera takkarnir og hvað þýða orðin í valmyndakerfinu?
Hver er munurinn á DSLR (digital single reflex) spegilvélum, ILMC (spegillausum myndavélum) og svo símamyndavélum?
Hvað er myndflaga? Hvað eru pixlar? Skiptir stærð og fjöldi máli?
Fókuskerfið í vélinni og sýnt hvernig á að velja.
Stillingar sýndar fyrir sjálfvirka eltirakningu til dæmis í myndatöku fljúgandi fugla eða á keppnum íþróttafólks, bílasport o.þ.h. þar sem hreyfing er hröð.
Myndavélalinsur og hvað þýða merkingar á þeim.
Stiklað á stóru – eff stoppin, hristivörn, AF fókus og manual fókus.
Af hverju eru margar ódýrar linsur fyrir myndavélina?
Lífskortið
Vegna þess að fella þurfti niður tvo tíma af Lífskortinu í síðustu lotu langar Fríðu og Ninnu að bæta ykkur það upp með einum tíma í millivikunni. Í þessum tíma ætlum við að búa til okkar eigin lífskort frá grunni og verða Fríða og Ninna ykkur innan handar með það. Allur efniviður í boði á staðnum.
Gong slökun
Ingunn leiðir slökun í liggjandi stöðu á dýnu á gólfinu með púða og teppi. Ef fólk vill ekki eða getur ekki legið má sitja á stól. Spila milt á gong-ið en það er samt mjög áhrifamikið og getur gefið slökun inn í taugakerfið. 40 mín tími.
Frisbí golf (ef veður leyfir)
Í tilefni þess að það er kominn nýr frisbígolf völlur fyrir aftan húsið okkar ætlar Grétar að halda utan um frisbígolf. Hittumst í stofunni á 1. hæð og förum saman út.