Skip to main content

Jú góðan daginn og gleðilegt sumar!

Hér sjáið þið dagskrána okkar fyrir sumarið, stútfull af allskonar fyrir öll!

Mig langar að hvetja ykkur til að lesa vel hópalýsingarnar hér að neðan, þannig finnið þið best hvaða hópar henta ykkur.

Ég vil líka hvetja ykkur til að mæta tímanlega í hópa, skilja símana eftir frammi og njóta samveru og samvinnu með félögum okkar hér í húsinu.

Zoom er í boði fyrir þau sem búa á landsbyggðinni, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda zoom linka skal senda póst á ninna@hugarafl.is með skýringu.
Gott er að hafa í huga að senda póst tímanlega, ekki er hægt að fá senda linka rétt fyrir fundi.

Skilaboð frá Thelmu: Verkfærakistan, Drekasmiðja og aðstandendafundir verða í sumar en ekki í reglulegri dagskrá svo þeir verða auglýstir sérstaklega. Hvetjum ykkur til að fylgjast með í fb hópnum okkar og í húsi.

Hér fáið þið nánari lýsingar á hópunum:

 

Mánudagur

Frisbígolf

Grétar heldur utan um hópinn. Hittumst í stofunni á fyrstu hæð og förum út í frisbígolf.

Föndurhorn Fridu frænku

Frida býður ykkur að föndra með sér á mánudagsmorgnum. Gott er að koma með eigin bækur eða blöð en Frida verður með skriffæri og skraut.

Sumarsprikl (zoom)

Nú er komið sumar. Smáfuglar tísta, gæsir rigsa, flugur suða og sprikl-löngun mannfólksins gæti aukist.  Marga langar til að stíga einhver skref í að bæta líkamlegu heilsuna sína með meiri hreyfingu eða breyta einhverju í mataræði sínu og nú ætlum við að hittast til skrafs og ráðagerða og sjá hvað okkur dettur í hug.

Þar sem hver og einn getur sett sér markmið eftir sínum hugmyndum, áhuga og getu.  Eða bara til að forvitnast um hvað við meinum eiginlega með sprikl 😀

Thelma Ásdísar heldur utan um hópinn.

Skipulag endurhæfingar (zoom)

Hópurinn er lokaður og er einungis fyrir  þau sem eru í virkri endurhæfingu hjá Hugarafli.

Hópurinn hittist vikulega þar sem notendur vinna markvisst í sinni endurhæfingu og móta eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll eru notendur beðin um að senda tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is eða ninna@hugarafl.is fyrir tímann.

Sjósund í Nauthólsvík

Alexander heldur utan um hópinn. Engin kunnátta er nauðsynleg og áhersla lögð á að fólk fer á eigin hraða og eins og það treystir sér til. Hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum. Hist er í stofunni á fyrstu hæð og sameinast í bíla eftir þörfum.

 

Þriðjudagur

 Bati með Guffu (zoom)

Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Guffu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.
Guffa ætlar að blanda saman Bata og Innri sannfæringum (hópur sem hún hefur haft áður) en í þeim hópi fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag.

Leitin að gleðinni – innra barnið og ég

Vikulegir hittingar þar sem við tengjumst innra barninu og gerum tilraunir. Hvað er gleði? Hvað gleður mig? Hvað veitir mér frelsistilfinningu?

Fundirnir verða bland af æfingum til að tengja og styrkja samband við innra barnið (kynnast þörfum þess) og opnum og skemmtilegum tilraunum til að komast að því hvað gleður innilega. Við förum út úr húsi í góðum veðrum. Við leikum okkur, verðum skapandi og kjánaleg. Þjálfum okkur í leik og gleði og lærum hvernig við getum veitt barninu okkar þann stuðning sem það þarf.

Sigrún Huld leiðir hópana og byggir námsefnið á eigin sjálfsvinnu og rannsóknum, þjálfun í tilfinningaseiglu og verkfærum úr markþjálfun og leiklist.

Hittingarnir verða opnir og skemmtilegir.

Þjálfum okkur í að vera frjáls.

Þjálfum okkur í að vera í möguleikavíddinni.

Þjálfum okkur í að gera tilraunir og fara út úr þægindarammanum í góðum og öruggum hópi jafningja.

Göngutúr

Ingunn heldur utan um göngutúra tvisvar í viku. Ýmist verður gengið frá Hugarafli eða farið saman á staði til að ganga á. Öll velkomin, við förum á okkar hraða og njótum útiveru saman.

 

Miðvikudagur

Sund í Laugardalslaug

Ninna og Rakel taka á móti ykkur í steinapottinum í Laugardalslauginni. Ekki er nauðsynlegt að mæta á slaginu hálfníu, það má líka koma seinna og vera styttra. Njótum morgunsins saman í pottunum.

Öndun og slökun

Rakel leiðir léttar teygjur, öndun og slökun í jógaherberginu.

Hinsegin hugar

Hópur fyrir öll sem finna sig undir regnboganum – og öll hin sem vilja fræðast. Umræður í anda hugmyndafræðinnar okkar í bland við hinseginleikann.

Hugaraflsfundur (zoom)

Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.

Sjósund í Nauthólsvík

Alexander heldur utan um hópinn. Engin kunnátta er nauðsynleg og áhersla lögð á að fólk fer á eigin hraða og eins og það treystir sér til. Hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum. Hist er í stofunni á fyrstu hæð og sameinast í bíla eftir þörfum.

 

Fimmtudagur

Kaffispjall og handavinna

Vettvangur fyrir þau sem eiga mögulega erfitt með að koma í hús. Góður vettvangur til að efla félagsleg tengsl, æfa sig í samræðum og að vera með fólki. Ekki er nauðsynlegt að hafa eitthvað í höndunum, það má líka bara koma að spjalla. Ninna, Tinna og Rakel taka vel á móti ykkur í sófanum.

Valdefling (zoom)

Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin.
Ninna og Tinna halda utan um hópinn í sumar en hvetja öll til að taka að sér að leiða hópinn í eitt og eitt skipti.

Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/

Listasmiðja

Lovorka heldur utan um listasmiðjuna, hér kemur hópalýsing á ensku:
Let’s have relaxing time together in Verkefnaherbergi to do some arts and crafts!

We will be making jewelry, paint ceramics, stones, paper craft, cards and diamond painting.

Also we will learn drawing basics and some advanced techniques like perspective, anatomy, light and shading and do acrylic painting.

The goal is to experiment and just relax the mind, so there is no pressure to know how to draw, rather to enjoy to express the feelings and explore your inner world!

You can also bring your own ideas, suggest themes and let’s share the creative knowledge together.

Göngutúr

Ingunn heldur utan um göngutúra tvisvar í viku. Ýmist verður gengið frá Hugarafli eða farið saman á staði til að ganga á. Öll velkomin, við förum á okkar hraða og njótum útiveru saman.

 

Föstudagur

Sund í Laugardalslaug

Ninna og Rakel taka á móti ykkur í steinapottinum í Laugardalslauginni. Ekki er nauðsynlegt að mæta á slaginu hálfníu, það má líka koma seinna og vera styttra. Njótum morgunsins saman í pottunum.

Öndun og slökun

Rakel leiðir léttar teygjur, öndun og slökun í jógaherberginu.

 Kvennafundur

Umræða fyrir þau sem skilgreina sig sem konur og/eða kvár til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópurinn er í umsjá Ninnu og Tinnu. Athugið að hópurinn fer í sumarfrí eftir júnímánuð og kemur aftur saman í byrjun september.

Tónlistardjamm

Davíð Ágústsson og Vala Yates halda utan um tónlistardjammið. Fjölbreytt hverju sinni, komum saman, syngjum, spilum og höfum gaman.

Karlavirkni

Hefðbundinn karlahópur fer í frí í sumar en karlavirkni kemur í staðinn. Karlar, komum saman og gerum eitthvað skemmtilegt.