Skip to main content
Sæl öll! 
Hér kemur ný og stórglæsileg dagskrá fyrir lotu 4 sem gildir frá 2. september – 11. október.
Nánari lýsingar á hópum koma hér fyrir neðan.
Athugið – Sjósund hefst 10. september. Kvenna- og karlafundir hefjast 13. september.
Mánudagur
Skipulag endurhæfingar (lokaðir hópar) (athugið að aðeins annar þeirra er á zoom)
Hóparnir eru lokaðir og eru einungis fyrir þau sem eru í virkri endurhæfingu hjá Hugarafli.
Auður og Kristín sjá um hópana.
Hóparnir hittast vikulega og vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is eða ninna@hugarafl.is fyrir tímann.
Haustsprikl (zoom)
Stuttir fundir með áherslu á líkamlegu heilsuna okkar. Hér ætlum við að segja frá markmiðum okkar ef við viljum, læra af öðrum og fá hugmyndir. Sumir fundir verða með áherslu á ákveðna fræðslu og umræður ef tími vinnst til. Thelma mun sjá um spriklið og stundum ætlar Kristín að vera með okkur líka.
Verkfærakistan (zoom)
Thelma heldur utan um opinn hóp fyrir öll sem hafa áhuga á verkfæri vikunnar.
Í hverjum tíma verður kynnt eitt verkfæri sem gæti nýst í þeirri sjálfsvinnu sem hvert og eitt okkar er að vinna, alls konar sjálfsstyrkingu eða bara til að gera „andlegar armbeygjur“ til að auka lífsgæði okkar.
Stundum prófum við verkfærið í tímanum og stundum verða tillögur að heimavinnu. En ekki alltaf og það er aldrei þrýstingur eða skylda að taka þátt í neinu. Það er alltaf í boði að koma bara og fylgjast með. Hlakka til að sjá ykkur.
Spil og spjall
Hópurinn hittist í verkefnaherberginu í klukkustund. Áhersla á létta samveru. Við munum spila stutt spil og eiga uppbyggilegar samræður. Alexander heldur utan um hópinn.
Útivist – Frisbígolf
Grétar, Haukur, Sveinn og Ágúst skiptast á að leiða frisbígolf.Hittumst í miðjunni og förum saman út að leika.
Þriðjudagur
Bati (zoom)
Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Grétari í þessari lotu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.
Lyfjamálin (zoom)
Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður sér um hópinn.
Unghugar
Hópur sem ætlaður er ungmennum í Hugarafli á aldrinum 18-30 ára.
Hinsegin hugar
Hópur fyrir öll sem skilgreina sig hinsegin á einn eða annan hátt til að ræða líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Emil heldur utan um hópinn.
Útivist – sjósund
Hittumst í miðjunni og verðum samferða út í Nauthólsvík. Áhersla þessarar lotu verður að kæla en ekki endilega synda.
Miðvikudagur
Tónheilun
Herbert leiðir tónheilun annan hvern miðvikudag. Skráning á hugarafl@hugarafl.is
Listasmiðja
Listasmiðjan er tími og staður fyrir fólk til að vera saman og gera myndlist, stundum er þema, eins og að mála, nota tússpenna eða teikna eitthvað sérstakt, en annars bara fólk að spjalla og teikna. Emil heldur utan um hópinn.
Félagsvist/Kani
Hittumst í miðjunni og spilum saman félagsvist eða kana. Oliver heldur utan um spilahópinn.
Hugaraflsfundur (zoom)
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.
Útivist – göngutúr
Ragna og Kristín leiða okkur í létta göngutúra um hverfið.
Fimmtudagur
Kaffispjall og handavinna
Hittumst í miðjunni og spjöllum yfir kaffibolla. Engin skylda á að mæta með einhverja handavinnu frekar en man vill, áhersla lögð á samveru og er þessi hópur tilvalinn til að æfa sig að koma í hús og efla félagsleg tengsl. Ninna, Tinna og Rakel taka vel á móti ykkur.
Valdefling (zoom)
Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin.
Ninna og Tinna halda utan um hópinn og hvetja notendur til að leiða einn og einn fund í lotunni (mjög valdeflandi!).
Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/
Bæn og íhugun
Alla fimmtudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6.
Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika hvött til að vera með.
Drekasmiðja (zoom)
Thelma Ásdísardóttir heldur vikulegar vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan.
Aðstandendafundur (annan hvern fimmtudag)
Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir og Thelma Ásdísardóttir leiða þennan hóp og fá einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.
Föstudagur
Slökun með Rakel
Rakel leiðir okkur í slökun, aldeilis gott inn í helgina.
Kvennafundur
Umræða fyrir konur og kvár til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópurinn er í umsjá Ninnu og Tinnu.
Karlafundur
Grétar Björnsson heldur utan um hópinn. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag.
Útivist – Frisbígolf
Grétar, Haukur, Sveinn og Ágúst skiptast á að leiða frisbígolf.Hittumst í miðjunni og förum saman út að leika.