Skip to main content
Mánudagur
Skipulag endurhæfingar
Hóparnir eru lokaðir og eru einungis fyrir þau sem eru í virkri endurhæfingu hjá Hugarafli.
Hópurinn er tvískiptur vegna fjölda – athugið að aðeins annar þeirra er á zoom. Auður og Kristín sjá um hópana.
Hóparnir hittast vikulega og vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is eða ninna@hugarafl.is fyrir tímann.
Hugleiðingar um heimspeki
Kennari er Ágúst Geir Torfason heimspekingur.
Hugleiðingar um heimspeki er heimspekihópur sem kemur saman og stundar heimspeki með því að ræða heimspekileg málefni. Kennari kemur með fyrir hvern tíma tvo tilbúna heimspeki-fyrirlestra sem eru heimspekilegar hugleiðingar. Þessar hugleiðingar fjhalla um almenna heimspeki, heimspekinga, heimspekikenningar eða heimspekistefnur. Markmið okkar er að vera gagnrýnin í hugsun og taka þátt í heimspekilegum umræðum og vonandi auka þekkingu okkar á heimspeki.
Hugleiðingar um heimspeki er heimspekihópur sem hjálpar okkur að fæða eigin hugleiðingar út frá þeim hugleiðingum sem lagðar eru fyrir. Þannig skapast samræðuvettvangur með virkum samræðum. Kennari hvetur öll til að vera gagnrýnin í hugsun þegar þau hlusta á hugleiðingarnar. Taka ekki öllu sem gefnu og fallast ekki á allar skoðanir heldur skoða fleiri hliðar máls.
Hugleiðingar um heimspeki er hópur þar sem öllum er leyfilegt að flytja fyrirlestra eða hugleiðingar og þannig taka virkan þátt. Sem kennari mun Ágúst einnig taka fyrir heimspekileg hugtök og skilgreina þau. Markmiðið er einnig að koma saman og hafa gaman og mynda vinasambönd, ræða heimspeki og læra eitthvað nýtt. Auk þess erum við með Facebook hóp þar sem settar verða inn upplýsingar um námskeiðið og upplýsingar um það námsefni sem tekið verður fyrir í hverjum tíma.
Hittumst heil og hugsum saman.
Verkfærakistan (zoom)
Thelma heldur utan um opinn hóp fyrir öll sem hafa áhuga á verkfæri vikunnar.
Í hverjum tíma verður kynnt eitt verkfæri sem gæti nýst í þeirri sjálfsvinnu sem hvert og eitt okkar er að vinna, alls konar sjálfsstyrkingu eða bara til að gera „andlegar armbeygjur“ til að auka lífsgæði okkar.
Stundum prófum við verkfærið í tímanum og stundum verða tillögur að heimavinnu. En ekki alltaf og það er aldrei þrýstingur eða skylda að taka þátt í neinu. Það er alltaf í boði að koma bara og fylgjast með. Hlakka til að sjá ykkur.
Þriðjudagur
Valdefling í verki
Hvernig valdeflum við okkur? Það er enginn sem valdeflir okkur heldur valdeflumst við vegna atvika eða við það að takast á við hversdagsleikann. Við ætlum líka að skoða, hverju erum við góð í? Langar okkur að verða ennþá betri í því? Erum við með áhuga á einhverju nýju sem við viljum efla? Hvar getum við nýtt styrkleika okkar í verki og hvernig tökum við skrefin að því? Fríða og Ninna halda utan um hópinn.
Valdefling (zoom)
Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin.
Fjóla hefur haldið utan um hópinn síðustu lotur en er að fara í fæðingarorlof og því mun koma í ljós í byrjun lotunnar hver munu sjá um hópinn í lotunni.
Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/
Unghugar
Hópur sem ætlaður er ungmennum í Hugarafli á aldrinum 18-30 ára. Hópstjóri lotunnar er Harpa Kristjana.
Hinsegin hugar
Hópur fyrir öll sem skilgreina sig hinsegin á einn eða annan hátt til að ræða líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Fyrirkomulag hópsins verður unnið í samráði við notendur. Ninna heldur utan um hópinn.
Miðvikudagur
Jóga
Karna leiðir jóga í lotunni.
Kvikmyndaklúbbur (english below)
Frida Martins heldur utan um kvikmyndaklúbbinn sem verður með hinsegin ívafi þessa lotuna. Ábendingar um uppbyggilegar hinsegin myndir eru vel þegnar. Myndirnar geta verið á ýmsum tungumálum en við pössum að hafa alltaf enskan undirtexta með.
Fólk er hvatt til að lesa um myndirnar t.d. á imdb.com fyrir triggerviðvaranir af öllu tagi.
Movie club with LGBTQ+ undertones. We are always happy about film tips too. The movies can come in all sorts of languages but should have english subtitles.
We recommend to check for trigger warnings on imdb.com
Bæn og íhugun
Alla miðvikudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6.
Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika hvött til að vera með.
Hugaraflsfundur (zoom)
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.
Sjósund í Nauthólsvík
Alexander heldur utan um hópinn. Hittumst í stofunni í Síðumúla og sameinumst í bíla.
Fimmtudagur
Lyfjamálin (zoom)
Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður sér um hópinn.
Listræn dagbókarskrif
Frida Martins heldur utan um hópinn og hér er hópalýsing á ensku:
Art journaling is a good way to ground yourself in the moment and to use leftover craft paper. Please bring a small booklet (like a school exercise book) if you can. There will be writing/crafting prompts, but they should only invite your personal creativity and open discussion.
Bati með Grétari (zoom)
Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Grétari í þessari lotu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.
Listasmiðja
Lovorka heldur utan um listasmiðjuna, hér kemur hópalýsing á ensku:
Let’s have relaxing time together in Verkefnaherbergi to do some arts and crafts!
We will be making jewelry, paint ceramics, stones, paper craft, cards and diamond painting.
Also we will learn drawing basics and some advanced techniques like perspective, anatomy, light and shading and do acrylic painting.
The goal is to experiment and just relax the mind, so there is no pressure to know how to draw, rather to enjoy to express the feelings and explore your inner world!
You can also bring your own ideas, suggest themes and let’s share the creative knowledge together. ❤
Drekasmiðja (zoom)
Thelma Ásdísardóttir heldur vikulegar vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan.
Frisbígolf
Í tilefni þess að það er kominn nýr frisbígolf völlur fyrir aftan húsið okkar ætlar Grétar að halda utan um frisbígolf. Hittumst í stofunni á 1. hæð og förum saman út.
Tónlistardjamm
Spilarðu á hljóðfæri? Eða ekki? Viltu gera meira af því? Við ætlum að hittast í tónlistarherberginu vikulega og „djamma“ saman, hvort sem það er að glamra, semja eitthvað, syngja upp úr Stóru Gítarbókinni eða stofna hljómsveit! Öll velkomin sem hafa áhuga á tónlist. Ninna og Davíð halda utan um hópinn.
Aðstandendafundur
Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.
Föstudagur
Frisbígolf
Í tilefni þess að það er kominn nýr frisbígolf völlur fyrir aftan húsið okkar ætlar Grétar að halda utan um frisbígolf. Hittumst í stofunni á 1. hæð og förum saman út.
Kaffispjall og handavinna
Hittumst í stofunni í Síðumúla. Öll sem eru að vinna eitthvað í höndunum, hvort sem það er prjón, hekl, föndur, leikur í símanum eða eitthvað annað, eða langar bara að spjalla og drekka kaffi boðin velkomin. Tilvalin stund til að kíkja í hús. Tinna og Ninna taka vel á móti ykkur.
Kvennafundur
Umræða fyrir þær sem skilgreina sig sem konur til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópurinn er í umsjá Ninnu og Tinnu.
Karlafundur
Grétar Björnsson heldur utan um hópinn. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag.