Skip to main content
FréttirMælt með

Mörgæs í eyðimörkinni

By December 20, 2017January 8th, 2018No Comments
 Hugaraflskonan Frida Adriana Martins skrifar:

Um daginn var kvikmyndin “Mörgæsirnar hans Peter Popper” í sjónvarpinu. Hún fjallar um mann sem þarf að sinna sex mörgæsum í venjulegri borgaríbúð. Dýravernd fór fljótlega að kvarta yfir því að maðurinn væri ekki með réttan búnað eða næga reynslu til að annast þær, en mörgæsirnar elskuðu manninn hvort sem var og bjuggu jafnvel til hreiður í ísskápnum hans. Þó að svona hugmyndir um samband manns og dýra skyldi ekki taka alltof bókstaflega er samt sannan punkt þar að finna: Ást og vilja til að kynnast hvert öðru og til að vinna með þær auðlindir sem eru til staðar og eru oft mikilvægri en kerfisbundin aðferð.

Frida gefur mikið af sér í starfi Hugarafls og er mikilvæg fyrirmynd. (Mynd: Keli)

Ég er sjálf lík mörgæs: Ég labba mjög hægt og klaufalega; sumt fólk segir jafnvel að ég sé krúttleg út af þessu. Hinsvegar er ég, eins og mörgæsin, mjög sérhæfð og get bara séð um sjálfa mig í ákveðnu umhverfi, það er, umhverfi sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Fötlunin mín á sínar rætur í lélegum samskiptum tauganna og samfélagskerfið gerir ekki alltaf ráð fyrir afleiðingum þess. Sem dæmi má nefna að ég hitti mjög almennilega konu hjá Vinnumálastofnun sem hlustaði vel á mínar lýsingar um hvað og hvernig ég gæti unnið, en sagði mér síðan að hún gæti ekkert gert fyrir mig þar sem ég passaði ekki inn í kerfið sem hún þekkti. Annað dæmi er að félagsráðgjafi lagði til að ég myndi fá heimilishjálp til að þrífa fyrir mig, en áttaði sig ekki á að ég þarf að læra hreyfingar og skipulag í hvert skipti upp á nýtt og þyrfti þess vegna frekar að fá einhvern til að taka til með mér, en ekki fyrir mig.

Ég fann örugga höfn í Hugarafli. Þar er mér alltaf mætt þar sem ég er stödd.  Það skiptir mig miklu máli að þar er ekki talað um vonda kerfið (eða vonda samfélagið) gegn aumingja „geðsjúklingunum“, frekar að þar er rætt um úrræði og skapandi lausnir. Þar er einstaklingsmiðuð þjónusta sem leyfir fólki að stjórna sínu bataferli sjálft og getur einstaklingurinn tekið þátt í öllum hópum sem hann vill.

Hugarafl og Geðheilsa-Eftirfylgd vita að ekki er til einir skór sem passa á alla. Þeir skór sem við eigum að labba í allt okkar líf þurfa að vera sniðnir að þörfum okkar og þurfa að vera sveigjanlegir. Þjónustan þarf að vera nálægt skjólstæðingunum, bæði andlega og rýmislega, án þess að drukkna í skrifstofuhyggju. Þar gegna grasrótasamtökin mikilvægu hlutverki. Þau gefa skjólstæðingunum meira rými til að taka virkan þátt í að skapa eigin batalausnir.

Ég er sjálf lyfjalaus í dag en ég þarf á mjög skipulögðu (en samt sveigjanlegu) hversdagslífi að halda. Ég get ekki skipulagt kvíðaköstin mín svo þau séu í takt við læknistímana sem í boði eru með mánaðar fyrirvara. Þar þarf að vera fólk til staðar sem getur LEYFT sér að gefa sér tíma fyrir mann í núinu. Tíma til að skilja heildarmyndina án þess að þar séu 20 aðrir í biðröð eftir þjónustu. Við þurfum á Geðheilsu-Eftirfylgd að halda sem efnislegan tengilið á milli manna og kerfis sem er mjög abstrakt. Fólk á að hafa rými innan heilsugæslu til að endurhæfa sjálft sig og að notfæra sér sína hæfileika í fjölskyldu- og atvinnulífi. Það getur líka sparað peninga að nota hæfileika fólks sem eru þegar til staðar frekar en að þvinga fólk til að æfa sig alltaf í einhverju nýju.

Hefðbundinn vinnumarkaður er á mikilli hraðferð og hægfara fólk eins og ég dettur stundum út nema það finni sér eitthvað sérstakt, hægt og sérhæft umhverfi. Markþjálfinn minn lét mig einu sinni fá þýskt uppistands- og markþjálfamyndband, að nafni DAS PINGUINPRINZIP, “mörgæsagrundvöllurinn”. Þetta myndband segir frá því að mörgæs er svo sérhæfð til að synda og að labba á ísnum að hún myndi deyja í eyðimörk. Myndbandið hvetur fólk til að viðurkenna sína sérstöku hæfileika.

En það sem myndbandið kennir mér og ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er að heimurinn þarf fjölbreytt landslag til að gefa fjölbreyttu dýraríki tækifæri til að lifa. Að öllu jöfnu þarf mannfólk fjölbreytta þjónustu í fjölbreyttu landslagi til að verða ekki að mörgæs í eyðimörkinni.