Skip to main content
FréttirGreinarMælt með

Minning um geðheilbrigðislausn sem virkaði of vel?

By February 12, 2018February 14th, 2018No Comments

Eftir Jóhann Valbjörn Long Ólafsson:

Það hefur gerst að ég hafi skrifað minningargreinar um látna samferðamenn sem hafa gefið af sér, verið mér og mínum góðir og látið gott af sér leiða.

Mig langar lítið að skrifa þessa næstum minningargrein.En ég verð að leggja mitt fram þegar á að loka og leggja niður apparatið sem hjálpaði mér að bjarga mér sjálfum og sparaði kerfinu fullt af pengingum um leið.

Nú á að loka Geðheilsu – Eftirfylgd til þess að auka þjónustu við þá sem eru í flækju með heilsuna í höfðinu og hjartanu. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hjartað sé órjúfanlegur hluti af okkur mönnunum (og kannski dýrum) með heilabúinu þegar kemur að tilfinningum og geði.

Sjálfur hef ég reynt á eigin skinni að lenda í verulegum erfiðleikum með hausinn (og hjartað) á mér en nokkrir svo nefndir banvænir (eða þar um bil) sjúkdómar bönkuðu upp á hjá mér á svipuðum tíma. Þess vegna var ég úr leik. Nokkuð lengi. Kom til Íslands eftir tæplega tveggja ára sjúkralegu erlendis, hafði reyndar fengið þá flugu að mennta mig betur en það var verulega slagsíða á skútunni. Vel að merkja þá var þetta ekki aumingjaskapur þótt ég á stundum sé óttalegur aumingi.

Í júlí 2011 kom ég í Borgartúnið hjá Geðheilsu – Eftirfylgd og Hugarafli og þar kom ég á mínum forsendum, labbaði inn, réði mér sjálfur og fékk líka að vita að það væri alveg hægt að laga þennan halla án þess að liggja á stofnun, geyma sig heima og fylla sig af lyfjum o.s.frv. Verða síðan veikur að atvinnu vegna þess að þetta dýr sem við stundum köllum kerfið (sem er reyndar fólk) hafði engan áhuga á því að ég yrði læknaður eða næði bata (þannig er það nú því miður á mörgum stöðum og ég þarf enn að kljást við þetta dýr á stundum). Reyndar hafði ég verið hjá góðum lækni á Íslandi fyrr. En það er önnur saga og hún er góð.

Þarna fékk ég „nesti og nýja skó“, reis úr öskustónni og allt þetta undir vængjabarðinu hjá Auði Axelsdóttur og hennar fólki, þ.m.t. Hugaraflsfólkinu en vel að merkja undir húsi hjá Geðheislu – Eftirfylgni.

Nú á að loka sjoppunni og senda allt þetta fólk í „miklu betri þjónustu á þremur mismunandi stöðum í Reykjavík“.

Þetta er afar dapurt vegna þess að blanda Hugarafls (sem Geðheilsa –Eftirfylgd er órjúfanlegur hluti af) er það sem gerir árangurinn svona góðan. Það er fullt af fólki, sem eins og ég er ekki lengur sjúklingar, veikt, stimplað út og fast í búri geðveiki (með dyggri aðstoð yfirvalda). Oft finnst mér og sérstaklega í þessu að „fagfólk“ sé hrokafullt, þykist vita betur og hafi fundið upp nýtt skipulag sem á að vera miklu betra. En það er bara engin eining um þetta. Ég þekki ekki einn einasta notanda sem er sammála þessu.

Svo ég er öskufúll yfir því að ráðherra berji hausnum við steininn og hlusti ekki og taki ákvörðun byggða á notendum. Þetta má ekki gerast. Þá deyr fólk. Það er ekkert flóknara. Og kerfið og fagfólkið ber aldei ábyrgð.

Ef þetta væri bara í sögu þá myndum við kalla alla til vopna. Berjast. Hvað sem tautar og raular. En það eina sem ég og mínir geta sýnt fram á er bati. Ég kláraði mitt nám, fór aftur í víking til útlanda og er mjög svo vinnufær í dag. Eiginlega bara að gera fína hluti.

Þetta þakka ég Geðheilsu – Eftirfylgd og Hugarafli sem ég sé sem eina heild.

Þetta byrjaði allt í Grasagarðinum og nú er þetta allt saman að breytast í illgresi, fálkinn missti flugið og er að brotlenda.

Ekki gera þessi mistök. Það bara má ekki. Og ef þið ráðamenn og -konur gerið það samt þá er best að halda því til haga að við munum öll sem eitt fylgjast mjög vel með enda eru þið búin að lofa okkur, og þar með talið ráðherrann, að þetta verði betra. Við höldum að svo verði bara alls ekki. En ábyrgðin verður ykkar. Alla leið. Það er jú þess vegna sem þið eruð í pólitík en ekki ég. Til að taka ábyrgð á okkur, gera betra samfélag og fara vel með peninginn (en Borgartúnsbatteríið er hræódýrt).

Eins og góður forsætisráðherra sagði þegar átti að leggjast á blaðbera: „Svona gerir maður bara ekki!“

Höfundur er deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá erlendu skiparekstrarfyrirtæki.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 8. febrúar 2018.