Skip to main content
Fréttir

Hugarafl 21 árs!

Kæru vinir.
Hugarafl á afmæli í dag, 21 árs. Því ber að fagna og á sama tíma er gott að líta yfir farinn veg.

Hugarafl er stofnað af hugsjón um að gera geðheilbrigðiskerfi Íslendinga betra, fyrst og fremst mannúðlegra, með áherslu á tengsl og samskipti, mannréttindi, virðingu og valdeflingu. Á sama tíma efla þekkingu almennings á eðli geðrænna áskorana, batahorfum og mikilvægi fjölbreytileikans.

Unnið hefur ötult starf til að sporna við fordómum og ýta undir jákvæða umræðu, um leið rýna alltaf til gagns á líðandi stund.

Hugarafl hefur lagt reynslu fagfólks og notenda á vogarskálarnar svo nýta megi þekkinguna til að skilja þjáninguna betur og til þess að skilja batann og bataleiðirnar betur. Hjá Hugarafli er litið á tilfinningalegt ójafnvægi sem eðlileg viðbrögð við áföllum eða öðru sem kann að henda á lífsins göngu og mikilvægt að taka til skoðunar, ekki bæla.

Enn í dag er reynslan það mikilvægasta í starfi Hugarafls og samvinna allra aðila á jafningjagrunni er höfð í hávegum þegar innra og jafnframt ytra starf er skipulagt og útfært. Þannig hefur fjöldi nýsköpunarverkefna orðið til hjá Hugarafli sem ýta undir framfarir í samfélagi okkar og nýja nálgun. Má þar nefna Geðfræðslu Hugarafls í grunn-og framhaldsskólum, Vegvísi að geðheilsu, Hearing Voices Iceland, Safe House sem enn er draumur Hugarafls og svo mætti lengi áfram telja.

Dagskrá Hugarafls er metnaðarfull alla daga og lögð er áhersla á fjölbreytt hópastarf þar sem hver þátttakandi velur sér bata- og endurhæfingarleið. Hugmyndafræðin byggir á batanálgun og valdeflingu og eigin forsendur hvers og eins eru leiðarljósið.

Aðstandendur koma saman reglulega til að styrkja hlutverk sitt, ungt fólk vinnur að því að efla félagsleg tengsl og sjálfstraust og fólk á öllum aldri velur Hugarafl til að efla lífsgæði sín og bata. Að tilheyra hópi er mikilvægt hverjum og einum sem til Hugarafls kemur og skiptir í raun sköpum í bataferlinu.

Í dag rekur Hugarafl öfluga virknimiðstöð sem er opin öllum landsmönnum sem vilja sækja sér aðstoð vegna geðrænna áskorana og aðstandendur þeirra. Það eru næg verkefni framundan og Hugarafl mun áfram sem hingað til verja kröftum sínum í að standa vörð um mannréttindi þeirra sem leita sér aðstoðar um skemmri eða lengri tíma og um leið munum við í Hugarafli sjá til þess að litið sé á tilfinningar sem eðlilegan áttavita í lífinu, sem beri að hlusta á og virða.

Til hamingju með daginn!

Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri og ein af stofnendum Hugarafls.