Skip to main content
Fréttir

Samningur við Vinnumálastofnun undirritaður

Reykjavík 15.maí 2024

 

Í dag var skrifað undir nýjan samning á milli Hugarafls og Vinnumálastofnunar fyrir hönd Félags- og Vinnumarkaðsráðuneytis. Það er gleðiefni fyrir allt Hugarafls fólk og styður við metnaðarfullt starf samtakanna. Hugarafl rekur öfluga virknimiðstöð og endurhæfingu utan hefðbundins kerfis og Hugarafl hefur um árabil stuðlað að fjölbreytileika í starfi sínu og allt starf samtakanna byggir á valdeflingu og batanálgun.

”Með samningi þessum kaupir þjónustukaupi sértæka þjónustu þjónustusala, starfs og/eða endurhæfingu fyrir einstaklinga með geðraskanir sem þurfa öflugt utanumhald og eftirfylgd, með sérstaka áherslu á ungt fólk og fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir þjónustu lokaðra endurhæfingarúrræða. Tilgangur samningsins er að veita þeim sem VMST, Tryggingastofnun ríkisins (TR), heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga vísa til þjónustusala, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang s.s. að undangengnu frekara námi með það að markmiði að efla lífsgæði og virkni í bataferlinu”.

Í Hugarafli fer fram öflugt starf í viku hverri með metnaðarfullri dagskrá sem mótuð er af notendum og fagfólki í sameiningu. Hugsjónirnar eru aldrei langt undan og það að tilheyra valdeflandi samfélagi Hugarafls skapar samkennd og ómetanlega trú á lífið og tilveruna. Hugarafl er opið öllum landsmönnum og ekki er gerð krafa um tilvísanir eða sjúkdómsgreiningar.

Til Hugarafls leita um 800 manns á ári og mánaðarlega eru ríflega 220 einstaklingar í virkri þjónustu, endurhæfingu og bataferli.

Í september 2022 var gerð þjónustukönnun fyrir Hugarafl á vegum Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Sú könnun sýnir einstakar niðurstöður af starfi Hugarafls sem sannarlega gefa jákvæðan byr inn í ókomna framtíð.

 

Kær kveðja.

Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls Gsm. 663-7750

Málfríður Hrund Einarsdóttir formaður Hugarafls Gsm. 897-1653