Skip to main content
Fréttir

Starf Hugarafls tryggt!

By desember 6, 2018No Comments

Það var gleðistund þegar skrifað var undir í Hugarafli.

Í gær þann 5.desember var gleðidagur hjá Hugarafli! Skrifað var undir samning við Félagsmálaráðherra til næstu tveggja ára og tryggir 65% af því fjármagni sem samtökin þurfa. Samningurinn er gerður í gegnum Vinnumálastofnun og byggir á opnu úrræði fyrir einstaklinga sem takast á við geðrænar áskoranir og fjölskyldur þeirra. Samningurinn styrkir opna endurhæfingu sem hægt er að leita á eigin forsendum án hindrana og áherslurnar eru bati og valdefling. Byggt er á reynslu notenda og fagfólks sem munu starfa saman á jafningjagrunni við að veita öfluga þjónustu. Reynsla Hugarafls og GET undanfarin 15 ár er hér nýtt og gæti þetta skref orðið til þess að samfélagleg geðþjónusta byggi enn frekar á þeim áherslum sem hér eru settar á vogarskálarnar.

Með þessari ákvörðun er Ásmundur Einar Daðason að efla samfélagslega geðþjónustu sem er í takt við nútíma stefnumótun og byggir m.a. á því auka forvarnir og mæta notanda kerfisins þar sem hann er staddur hverju sinni, án biðtíma og tilvísana. Áhersla er sérstaklega lögð á það starf sem styður við ungt fólk í Hugarafli og veitir þeim bakland þar til lagt er af stað í vinnu eða skóla á ný. Einnig er áhersla lögð á stuðning við aðstandendur og að þeir geti leitað ráðgjafar og þjónustu án hindrana.

Með samningi þessum er m.a. unnið samkvæmt niðurstöðu skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá júní 2017 og ennfremur er stuðst við niðurstöðu Árna Páls Árnasonar fyrrverandi félagsmálaráðherra sem nýlega skilaði af sér skýrslu um velferð á norðurlöndum, ÞEKKING SEM NÝTIST. Tillögur um aukið norrænt samstarf á sviði félagsmála.

Hugaraflsfólk tók vel á móti ráðherra og fylgdarliði.

Í skýslunni er mikilvægi félagasamtaka ítrekað og bent á að félagasamtök séu færari um að bjóða upp á einstaklingsbundnar lausnir en hið opinbera. Bent er á að þættir eins og einmanaleiki, skortur á tengslaneti og fyrirmyndum sé viðfangsefni. Áhersla er lögð á áhrif notandans og að á hann sé hlustað og að hann mæti ekki hindrunum í kerfinu þegar leitað er hjálpar. Þessar niðurstöður koma okkur í Hugaraflinu ekki á óvart og við fögnum því að samningurinn sem gerður var við Hugarafl í gær leggi einmitt áherslur á þessa þætti. Hjá Hugarafli er einstaklingurinn hluti af heild og tilheyrir samfélagi sem veitir mikilvægar fyrirmyndir og hvatningu í bataferlinu. Einnig er bent á að kerfin megi ekki verða það stór og óaðgengileg að þau hindri notandann í raun að stíga skref í átt að því að leita sér hjálpar.

„Því þarf að vinna á kerfisbundinn hátt að því að efla öll félagsleg tengslanet í samfélagi okkar: Fjölskyldu, vinasambönd, jafningjastuðning, nágrannasamfélag og frjáls félagasamtök,“ segir í skýrslunni,Þekking sem nýtist.

„Það eru margir kostir við félagslega þjónustu af hálfu hins opinbera en hún dugar ekki skapa félagsleg tengslanet og persónuleg sambönd. Í þessu sambandi gegna frjáls félagasamtök á félagsmálasviðinu mikilvægu hlutverki. Mörg góð dæmi má finna um að frjáls félagasamtök veiti mikilvæga félagslega aðstoð á sveigjanlegan og einstaklingsbundinn hátt. Slík samtök geta betur en opinberar stofnanir nýtt og byggt upp félagsleg tengslanet og geta oft í enn meira mæli boðið fram lausnir sem eru sniðnar að þörfum hvers og eins. Skýr áhersla á notandann er mikilvæg forsenda þess að félagslegar lausnir mæti þörfum og væntingum einstaklingsins, auk þess sem það skiptir höfuðmáli út frá mannréttindasjónarhóli,” segir í skýrslunni.“

Eins og alþjóð veit hefur Hugarafl barist fyrir tilvist sinni undanfarin tvö ár. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra sýnir hér kjark til að standa með samtökum sem hafa farið óhefðbundnar leiðir í Íslensku samfélagi og hafa sýnt fram á gríðarlegan árangur með nálgun sinni. Hann styður við Hugarafl sem hefur farið á „móti straumnum“ og ekki gefist upp á þeirri nálgun sem einmitt hefur skilað svo mörgum einstaklingum út í lífið á ný og styrkt fjölskyldur í hlutverki sínu.
Hugarafl hefur undanfarin 15 ár bent á nauðsyn þess að það sé valmöguleika að finna í samfélaginu, að það eigi að vera hægt að leita sér aðstoðar á hindrana sem frekar eru ætlaðar til að verja kerfið en hvetja notandann til að leita sér hjálpar á eigin forsendum. Hér fær Hugarafl virðingu og stuðning sem hefur verið langþráður og hvetur samtökin áfram til að stuðla að breytingum á íslensku geðheilbrigðiskerfi með notandann að leiðarljósi.

Innilegar þakkir!!!

Að sjálfsögðu var boðið upp á vöfflur og annað góðgæti eftir undirskrift.

Við í Hugaraflinu erum djúpt snortin yfir þeim mikla stuðningi sem samtökin hafa fengið undanfarin tvö ár. Þingheimur hefur nánast allur staðið með okkur, Velferðarnefnd og Fjárlaganefnd og margir þingmenn úr öllum flokkum. Almenningur hefur látið í sér heyra í ræðu og riti og í raun virðist það hafa hrifið félagsmálaráðherra hvað mest; hann fann þörfina í gegnum notendur sem tjáðu honum reynslu sína og velvilja í garð samtakanna í gegnum almenning. Fagfólk hefur einnig tjáð sig í ræðu og riti.  Má þar sérstaklega nefna Félagsráðgjafafélag Íslands og Háskólasamfélagið hefur einnig bent á mikilvægi þekkingar og reynslu Hugarafls á valdeflingu sem hefur m.a. nýst nemum til rannsókna á hvað virkar í bata og hvað ekki og hvernig aðstandendum líði í hlutverki sínu. Upptalning þessi er langt frá því að vera tæmandi en gefur mynd af þeim víðtæka stuðningi sem samtökin Hugarafl og GET hafa fengið undanfarin tvö ár.
Við erum óendanlega þakklát öllum þeim sem hafa stutt við bakið á okkur og það er ekki ofsagt, að það að finna baklandið skipti sköpum í okkar úthaldi í baráttunni allri.

Við finnum einnig ítrekað að þær áherslur sem við stöndum fyrir eru nauðsynlegar í okkar samfélagi ekki síst þegar heilbrigðisyfirvöld virðast ekki skilja mikilvægi valmöguleika utan stofnana og virðast gera lítið úr valdi notandans og réttinda. Hugarafl mun ekki gefast upp og heldur nú af fullum krafti inn í nýtt ár.

Til hamingju öll!!!