„Það sem er í húfi er mitt öryggisnet, þjónusta sem ég vil nota til að viðhalda minni geðheilsu. Geðheilsa er ekki áfangastaður, það þarf að viðhalda henni. Það geri ég í Hugarafli og með aðstoð GET. Ef þetta hverfur, verð ég að finna mér eitthvað nýtt,“ sagði Grétar Björnsson á Morgunvaktinni. Hann veiktist ungur á geði en hefur náð ótrúlegum árangri, sem hann þakkar Hugarafli og geðheilsu- og eftirfylgniteymi Heilsugæslunnar. Það verður lagt niður og nýtt fyrirkomulag sett á laggir.
Notendur þjónustu GET og aðstandendur þeirra hafa miklar áhyggjur af stöðunni, treysta því ekki að nýtt fyrirkomulag komi í staðinn. Þetta fólk segir að mikill árangur hafi náðst með starfi Auðar Axelsdóttur, iðjuþjálfa, og fleiri, innan GET og á vettvangi Hugarafls. Önnur nálgun sé boðuð með nýju kerfi, hún verði klínískari, áherslan verði á lyf. „Ég nota ekki lengur lyf, hef ekki gert í mörg ár. Það sem ég þarf frekar er stuðningur, félagsskapur. Svo hef ég fengið sálfræðimeðferð, sem hefur verið ríflega skömmtuð hjá GET. Ég sé ekki fram á að fá þessa þjónustu hjá nýju teymi,“ segir Grétar Björnsson.
Grétar veiktist ungur, fyrir 20 árum, og móðir hans, Þóra Gylfadóttir, hefur fylgst með því hvernig hann hefur styrkst og náð miklum bata – öðlast nýtt líf – ekki síst vegna GET og Hugarafls: „Frá því Grétar fór þarna inn, algjörlega óvirkur, bara ofan í sinni svartsýnisholu, hélt að ekkert yrði úr honum og hann ætti sér ekki von um gott líf, lífið væri svona, í það að verða uppréttur einstaklingur, sem á sér líf og góðar stundir, sitt heimili og börn. Þetta er úrræði sem bjargaði lífi Grétars. – Þetta má ekki hverfa!“ segir Þóra Gylfadóttir.
Bæði draga þau mæðgin fram kosti geðheilsu- og eftirfylgniteymis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sveigjanleikann og fjölbreytt úrræðin, félagslegan styrk og valdeflingu Hugarafls. Þau vita hvað þau hafa, en óttast að það verði lengra að sækja hjálp, fá stuðning, í nýju kerfi. Grétar lýsti þessu þannig á Morgunvaktinni: „Þegar maður er í sinni dýpstu holu, á sínum svartasta degi, kemst ekkert út úr húsi, jafnvel ekki fram úr rúminu, þá opnast stundum gluggi og manni líður aðeins betur. Maður verður að gera eitthvað. Þá verður að grípa það tækifæri. Þetta er gluggi sem er opinn svo stutt.“ Grétari líst ekki á að þurfa þá að hringja og panta tíma, sem fæst eftir viku, tvær eða þrjár. Þá gæti glugginn hafa lokast. Í staðinn geti hann gengið beint inn hjá Hugarafli, hitt fólk og rætt málin, og fengið viðtalstíma hjá GET.
„Það er mikilvægt að við stöndum vörð um geðheilbrigðiskerfið okkar. Hugarafl og GET er mjög mikilvægur hlekkur sem við megum ekki missa,“
segir Grétar Björnsson, sem ætlar ásamt móður sinni að taka þátt í mótmælum við velferðarráðuneytið í dag.
Fréttin og viðtalið birtist upphaflega á RUV