Skip to main content
GreinarMælt með

Minning

By október 17, 2010mars 15th, 2018No Comments

Judi Chamberlin er látin, 65 ára að aldri eftir erfiða baráttu við illvígan lungnasjúkdóm.

Judi átti við geðræna erfiðleika að tríða á unga aldri, barðist við þunglyndi í kjölfar áfalla og var lögð inn á geðdeild gegn vilja sínum 21 árs gömul.Hún sá að það var ýmislegt sem mátti betur fara innan geðheilbrigðiskerfisins og helgaði sig æ síðan baráttunni fyrir bættri nálgun við fólk sem hafði verið greint með geðsjúkdóm. Hún var ötul baráttumanneskja fyrir réttindum geðsjúkra, lagði ríka áherslu á virðingu og að rödd þeirra sem fengið hefðu þennan stimpil yrði að heyrast. Í bók sinni „On our Own“, Patient-controlled Alternativers to the Mental Health system, skrifar hún um reynslu sína og segir þar meðal annars„Þunglyndi er eitthvað sem á að losna við og að markmið geðlækninga sé að „lækna „ þunglyndið.Að þunglyndi mitt væri í raun að gefa til kynna eitthvað mikilvægt um mitt eigið líf, hvarflaði ekki að nokkrum manni, ekki mér sjálfri heldur“.Í bók sinni lagði Judi í raun grunninn að þeirri mikilvægu hreyfingu sem stuðlaði að breyttu viðhorfi í garð geðsjúkra og varpaði ljósi á þá staðreynd að mikilvægasta vitneskjan væri í raun hjá þeim sem reynsluna hefðu. Bókin hennar varð hornsteinninn að þeirri hreyfingu sem kallast „MadPride“ sem skapaðist á meðal einstaklinga sem höfðu reynslu af geðrænum erfiðleikum og vildu koma reynslu sinni á framfæri til að hjálpa öðrum og stuðla að bættri nálgun í geðheilbrigðiskerfinu og auknum mannréttindum.

Judi Chamberlin 30.október 1944-16.janúar 2010.

Frá því að Hugarafl var stofnað 5.júní 2003 höfum við stuðst við vinnuskilgreiningu Judi á valdeflingu. Á fundum Hugarafls í hverri viku er skilgreining hennar rædd, dæmi skoðuð frá öllum hliðum og reynsla einstaklinga með geðraskanir höfð að leiðarljósi.Í kjölfarið skapast oft á tíðum ný sýn sem hvetur okkur til verka og ýtir á eftir mikilvægum breytingum í lífi einstaklings, innan hópsins og/eða innan geðheilbrigðiskerfisins. Þessi hlið valdeflingar hefur í raun sett tóninn í starfi okkar öllu, stutt okkur í umræðu um geðheilbrigðismál á Íslandi og ýtt undir þau áhrif sem Hugarafl hefur og við munum stefna áfram á að hafa. Reynsla einstaklinga með geðraskanir kemst í farveg sem skiptir alla máli. Við höfum lagt áherslu á að efla þekkingu á bataferli, auka þekkingu almennings á eðli geðrænna vandamála og stuðla að aukinni þekkingu og minnkun fordóma.Judi hefur með verkum sínum sýnt okkur fram á að baráttan sé þess virði og að ekki megi gefast upp þótt á móti blási. Í starfi sínu lagði hún alla tíð áherslu á að hægt væri að ná bata þrátt fyrir áföll og erfið tímabil. Hún kenndi okkur að bataferlið væri ekki endalaust, við tæki “eðlilegt” líf sem fæli líka í sér góða og slæma daga sem væru til að takast á við. Hægt væri að endurheimta drauma sína á ný og taka virkan þátt í lífinu og tilverunni.

Á ráðstefnu Hugarafls „Bylting í bata“ árið 2006 fengum við Judi til að vera heiðursgestur ráðstefnunnar og hún hélt mikilvægt erindi og vinnusmiðju um valdeflingu og einkenni hennar til að styðja okkur hér á landi til jákvæðra breytinga á okkar kerfi. Koma hennar hingað til lands blés okkur í brjóst og sagði okkur að við værum á réttri leið. Judi hvatti okkur áfram og sagði það mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hópur sem okkar léti til sín taka og héldi baráttunni áfram. Við finnum í Hugarafli að við sannarlega höfum háft áhrif, til Hugarafls hefur verið leitað í auknum mæli undanfarin ár vegna stefnumótunar og breytinga í átt til öflugri samfélagsþjónustu við fólk með geðraskanir. En við vitum líka að betur má ef duga skal. Við munum hafa hvatningarorð Judi og verk í heiðri, halda áfram að styðjast við þá nálgun sem hún kenndi okkur og láta verkin tala, nú sem og hingað til.

Síðast liðið haust gafst mér tækifæri á að skreppa til Boston og ég var svo lánsöm að eiga góða stund með Judi á heimili hennar. Ég bar henni kveðjur Hugaraflsmanna og við áttum yndislega stund. Það gladdi hana að heyra að við notuðum skilgreiningu hennar á valdeflingu svo markvisst og henni fannst það í raun mjög merkilegt. Hún rifjaði upp ferðir sínar til Íslands. Henni þótti vænt um Ísland og alla þá vini sem hún eignaðist hér og bað mig fyrir kveðju hingað heim. Þrátt fyrir veikindi hennar var stutt í baráttuhugann og hugsjónakonuna sem hún hefur alltaf verið. Judi var heima hjá fjölskyldu sinni í veikindaferlinu og naut umhyggju hennar og vina sinna. Einnig fékk hún aðra þjónustu sem hún hafði þörf fyrir heim sem „Hospice patient“ og hélt einnig úti bloggi þar sem hún skrifaði um heilsu sína http://judi-lifeasahospicepatient.blogspot.com/. Hún skrifaði grein sem fjallaði um þá löngun að fá að deyja heima í umhverfi við sína nánustu, í sátt við sjálfan sig og aðra. Greinin heitir „A wish to die at home“ og hvet ég þig lesandi góður til að lesa hana. http://www.boston.com/news/local/massachusetts/articles/2009/05/22/advocate_for_others_fights_to_die_at_home/

Judi skrifaði fjölda greina á ævi sinni, flutti fyrirlestra úti um allan heim, var alltaf tilbúin að segja skoðun sína þótt hún félli stundum í grýttan jarðveg. Hún hafði kjark til að nýta reynslu sína öðrum til góðs og þreyttist ekki á að benda á mikilvægi óhefðbundinna leiða í bataferli.

Við í Hugarafli söknum vinkonu og baráttukonu sem var okkur mikil fyrirmynd og hvatning í öllu okkar starfi.

Með kærri kveðju;

Auður Axelsdóttir