Skip to main content
Greinar

Skref aftur á bak

By febrúar 20, 2014No Comments

Auður Axelsdóttir skrifar um fyrirhugaða lokun iðjuþjálfunar á geðsviði Landspítalans
„Er fólk með geðröskun ekki nógu hátt skrifað hjá stofnuninni eða er fjölbreytni í þjónustu ekki álitin nauðsynleg?“

ÞAÐ er áhyggjuefni ef loka á iðjuþjálfun á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss v. Hringbraut. Ef af verður er þarna verið að stíga mörg skref aftur á bak í þjónustu LSH við geðsjúka. Þarna hefur árum saman farið fram endurhæfing sem hefur gefið fólki tækifæri til að ná tökum á daglegu lífi eftir veikindi. Bataferlið er einstaklingsbundið og getur tekið langan tíma en þessi staður hefur stutt fólk við að finna þær leiðir sem virka fyrir hvern og einn til að tryggja að einstaklingur geti í framhaldinu tekið virkan þátt í samfélaginu. Unnið hefur verið eftir hugmyndafræði valdeflingar og batahvetjandi þjónustu. Ég hóf störf við þessa umræddu deild 1994 og starfaði þar til 1998. Á þessum tíma störfuðu iðjuþjálfar í öllu ferlinu þ.e. á bráðamóttökudeildunum sjálfum og komu þannig strax að bataferli einstaklingsins. Á þeim tíma kom í ljós hverjir áttu erindi í endurhæfingu og fólki var síðan fylgt eftir í iðjuþjálfun. Mig langar að taka fram að á þessum tíma störfuðu einnig sjúkraþjálfarar og listmeðferðarfræðingur á bráðadeildum ásamt öðrum hefðbundnum fagstéttum. Iðjuþjálfar starfa ekki lengur á bráðadeildunum og hefur fækkað verulega í iðjuþjálfahópnum sem sinnir endurhæfingunni undanfarin ár vegna bágra launakjara, sjúkraþjálfararnir eru horfnir og listmeðferðarfræðingurinn líka.
Ég get ekki látið það vera að hugleiða hvort forgangsröðun sé rétt á geðsviði LSH eða er endurhæfing ekki mikils metin? Er fólk með geðröskun ekki nógu hátt skrifað hjá stofnuninni eða er fjölbreytni í þjónustu ekki álitin nauðsynleg? Er iðjuþjálfun ekki talin nauðsynleg?

Í nýjustu rannsóknum um bataferli kemur ítrekað fram að einstaklingar verði að hafa víðtæka valmöguleika í bataferlinu og m.a. fjölbreytt tækifæri til endurhæfingar. Niðurskurður á þjónustu stofnunarinnar leiðir líka hugann að því hvort ekki sé einblínt á of fáar leiðir í meðferðarlegum tilgangi. Það er ekki ein leið sem hentar öllum.

Ég hef líka undrað mig á að sviðsstjóri geðsviðs skuli hafa komið fram og bent á að fólk geti leitað til félagsmiðstöðva ef af lokun verði. Hvað er hann að tala um, að félagsmiðstöðvar sinni endurhæfingu? Hefur viðkomandi aðili ekki fylgst með þróun í samfélagsþjónustu geðsjúkra hér á landi?

Á félagsmiðstöðvum og athvörfum fyrir geðsjúka er unnið gott starf, en þar fer ekki fram endurhæfing heldur er lögð áhersla á tómstundir og félagsskap.

Það skerðir einnig valmöguleika fólks ef senda á alla sem þurfa á endurhæfingu að halda á geðdeild LSH v. Klepp og sú starfsemi getur ekki sinnt öllum þeim sem iðjuþjálfunin við Eiríksgötu hefur sinnt og byggist ekki á sama hugmyndafræðilega grunni. Það er sjálfsögð krafa og réttur þeirra sem til LSH leita að þeir sem stjórna þekki þau úrræði sem eru í boði innan LSH og utan. Eins verða þeir að hafa þekkingu á mismunandi hugmyndafræði sem tengist bataferlinu til að koma í veg fyrir endurteknar innlagnir sem gríðarlegur kostnaður hlýst af.

Heilbrigðisráðherrar í aðildarríkjum Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) undirrituðu Evrópuyfirlýsingu um geðheilbrigðismál í janúar 2005 í Helsinki. Undir kaflanum forgangsmál er m.a. lögð á hersla á eftirfarandi:

I. Að stuðla að skilningi á mikilvægi góðrar geðheilsu;

II. Að takast sameiginlega á við fordóma, mismunun og ójafnræði, og hvetja og styðja fólk með geðraskanir sem og fjölskyldur þess til að taka virkan þátt í því starfi;

III. Að móta og innleiða samþætt og skilvirkt heildarkerfi í geðheilbrigðismálum sem nær til kynningarstarfs, forvarna, meðferðar og endurhæfingar, umönnunar og bata;

IV. Að mæta þörfinni á hæfu starfsfólki sem sé skilvirkt á öllum sviðum;

V. Að viðurkenna að við skipulagningu og þróun geðheilbrigðisþjónustu sé mikilvægt að byggja á reynslu og þekkingu þjónustuþega og umönnunaraðila.

Vita forsvarmenn spítalans ekki af ofangreindri stefnu? Ætla heilbrigðisyfirvöld ekki að framfylgja þeirri stefnu sem þarna var undirrituð? Viljum við dragast meira aftur úr hér á landi?

Mig langar sérstaklega að benda á að reynsla er í stefnumótuninni talin mikilvæg og að þörfinni á hæfu starfsfólki sé mætt. Það er erfitt að koma auga á að þessari stefnu sé framfylgt. Í iðjuþjálfun LSH við Hringbraut starfar mjög hæft og reynslumikið starfsfólk. Verði starfsemi minnkuð eða jafnvel hætt fer þetta fólk til annarra starfa og glatast þar verðmæti sem tekur langan tíma að byggja upp aftur. Ég hvet stjórnvöld til að grípa strax í taumana og hindra að deild iðjuþjálfunar verði lokað.

Undanfarið hefur verið fjallað mikið um fjölgun öryrkja og skort á úrræðum til starfsenduhæfingar. Að sjálfsögðu eiga aðrir aðilar að sjá um starfsendurhæfingu utan spítalans, en þarna er verið að taka fyrstu skrefin í endurhæfingunni og þeim má ekki sleppa.

Höfundur er forstöðumaður miðstöðvarinnar Geðheilsa-eftirfylgd/iðjuþjálfun, innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og starfar með Hugarafli.