Skip to main content
Greinar

Reynslusaga af þunglyndi og geðklofa

By febrúar 20, 2014No Comments

Í þessari ritgerð ætla ég að reyna að koma því til skila hvernig það er að lifa með þunglyndi og geðklofa. Ég hef lifað með þunglyndi síðan ég var táningur, um 12 ára aldur byrjuðu fyrstu einkennin að koma fram. Ég greindist síðan með geðklofa þegar ég var tæplega þrítugur. Það er von mín að þessi reynslusaga muni nýtast öðrum sem eru að takast á við geðræn vandamál.

Ég ætla að byrja þessa frásögn á barnæsku minni. Ég ólst upp í góðri fjölskyldu og átti nokkuð eðlileg uppvaxtarár. Mér gekk ágætlega í skóla og hafði gott samband við bæði foreldra og vini. Mér leið vel að svo miklu leyti sem ég man þessi ár og átti ekki við nein sérstök vandamál að stríða.

Þegar ég var um það bil tólf til þrettán ára fóru fyrstu einkenni geðraskanna að koma fram. Fyrstu einkennin voru þunglyndi og félagsfælni. Þunglyndið lýsti sér í stöðugri depurð, tómleikatilfinningum, mikilli svartsýni og sjálfsvígshugleiðingum. Félagsfælnin lýsti sér þannig að mér leið illa innan um fólk, átti erfitt með mannleg samskipti og átti erfitt með að mynda tengsl við annað fólk.

Samband mitt við foreldra mína fór versnandi og ég fór í mikla uppreisn gegn þeim. Á þessum tíma leið mér mjög illa og fór ég að gæla við hugmyndir um sjálfsvíg. Ég upplifði lífið og tilveruna sem fáráðlega og sá ekki tilgang í neinu. Sem betur fer þótti mér það vænt um foreldra mína að ég reyndi aldrei að fremja sjálfmorð. En það breytir ekki því að hugmyndin um sjálfsvíg hefur fylgt mér alla tíð, alveg til dagsins í dag.

Á þessum árum reyndu foreldrar mínir að fá mig til að fara til geðlæknis eða sálfræðings. Ég þvertók fyrir það og harðneitaði að leita mér aðstoðar. Ég hafði mikla fordóma í garð geðlækna og var alls ekki tilbúinn að viðurkenna að ég þyrfti á aðstoð að halda. Ég var hræddur um að ef ég færi til geðlæknis þá yrði ég dópaður upp og lokaður inn á geðdeild.

Á næstu árum urðu litlar breytingar á mínu lífi, ég flosnaði upp úr skóla um 18 ára aldur og byrjaði að vinna. Ég var að mestu leyti einn þessi ár, það kom þó fyrir að ég myndaði sambönd við annað fólk en þau stóðu stutt. Um tvítugs aldurinn fór ég að fá mikinn áhuga á trúarbrögðum og heimspeki. Ég varði næstu árum í að velta mér upp úr þessum málefnum, án þess þó að komast að neinni niðurstöðu varðandi lífið og tilveruna. Það virtist vera að öll þau svör sem heimspekin og trúarbrögðin gáfu, leiddu bara til fleiri spurninga sem engin svör voru til við. Ég var mjög þunglyndur á þessum tíma og var vonsvikinn að finna engin svör við lífinu og tilverunni. Ég sé núna að mistök mín voru fólgin í því að reyna að leysa geðræn vandamál með heimspekilegum og trúarlegum aðferðum.

Þegar ég fór að nálgast þrítugsaldurinn fór geðheilsu minni að hraka mjög mikið. Ég fór að fá ranghugmyndir, heyra raddir og upplifa ofsóknarbrjálæði. Ég hélt að nágrannar mínir væru að ofsækja mig með því að planta hljóðnemum í íbúðina mína. Þar sem ég heyrði raddir út um allt fór ég einnig að halda að bíllinn minn, vinnustaður minn og fötin mín væru hleruð og innihéldu hátalara. Ég gat aldrei skilið hvernig raddirnar vissu svona mikið um mig. Þær þekktu öll mín leyndarmál og þekktu allar mínar hugsanir. Seinna fór ég að halda að það væri verið væri að lesa hugsanir mínar og verið væri að senda út raddir á tíðni sem ég einn heyrði.

Þetta ástand varði í rúmt hálft ár og ég var að því kominn að missa vitið. Tengsl mín við veruleikann voru mikið skert og ég var orðinn veikur, bæði andlega og líkamlega.

Það var þá sem ég ákvað að leita mér aðstoðar, ég var kominn út á ystu nöf og hafði engu að tapa. Ég fór á geðdeild Landspítalans og bað um að fá að hitta geðlækni.

Ég sagði mína sögu og í framhaldi af því var ég strax settur á lyf bæði við þunglyndi og geðklofa. Því miður virkuðu lyfin ekki og á næstu mánuðum voru gerðar tilraunir með ýmis lyf. Sem betur fer fannst lyf við geðklofa sem virkaði og í framhaldi af því fóru ranghugmyndirnar og raddirnar að hverfa. Varðandi þunglyndið þá hef ég prófað flest lyf sem eru á markaðinum, núna er ég á kokteil af tveimur lyfjum sem hjálpa mikið.

Ég hef einu sinni verið lagður inni á geðdeild í um það bil mánuð, það var svolítið erfitt að venjast því en það var komið vel fram við mig og starfsfólkið var hjálplegt.

Svo hvað hefur hjálpað mér í þessari baráttu? Fyrst og fremst hafa geðlyfin hjálpað mér. Einnig hefur geðlæknirinn minn hjálpað mér mikið, hún hefur sýnt mér mikla þolinmæði og stutt við bakið á mér í þessari baráttu. Fordómarnir í garð geðlækna sem ég fjallaði um hér fyrir ofan eru sem betur fer horfnir. Það starfsfólk sem ég hef kynnst á geðdeild Landspítalans hefur reynst mér mjög vel og er starfi sínu til sóma. Ég er nýlega farinn að sækja fundi hjá Hugarafli og ég finn að það gerir mér gott.

Kári Halldórsson.