Skip to main content
Greinar

Reynslusaga af kvíðaröskun

By febrúar 20, 2014No Comments

Sumarið 2006 greindist ég með altæka kvíðaröskun. Kvíðinn hafði reyndar verið fylgifiskur minn í mörg ár en í kjölfar mikill breytinga í lífi mínu 2004 og 2005, keyrði um þverbak. Þegar ég greindist var kvíðaröskunin farin að hafa víðtæk áhrif á hugsun mín og tilfinningalíf.

Ég leitaði mér ekki hjálpar fyrr en í óefni var komið, en var heppin að lenda á skilningsríkum lækni. Í samráði við hana tókum við þá ákvörðun að ég færi í meðferð á Hvíta-bandinu. Meðferðin var þriggja mánaða prógramm sem byggðist á hugrænni atferlismeðferð. Það mátti varla tæðara standa þegar ég byrjaði, því ég var að þrotum komin. Sennilega eiga þau orð sem ég notaði þar við komuna vel við ástand mitt, en ég sagði að það væri allt farið í rugl í höfðinu á mér. Mér fannst eins og ég gæti ekki hugsað heila hugsun og einbeitingin eftir því. Ofsakvíði var farinn að einkenna alla daga í lífi mínu.

Í tengslum við meðferðina var ég í viðtölum við ungan sálfræðing tvisvar í viku. Segja má að hann hafi hjálpað mér að endurheimta allt sem heitir rökhugsun þessa 3 mánuði. Samhliða því var ég í fræðslu, slökun, listþerapíu og hópmeðferð. Á þessum þrem mánuðum tók ég miklum framförum, en hvar var hverju að þakka er frekar erfitt að benda á í dag. Ég lærði að slaka á í fyrsta skipti en spenna hefur einkennst stóran hluta lífs míns. Einnig fór ég aftur að finna til öryggis en ég var orðin það áhyggjulaus að jaðraði við örvæntingu. Einmanaleiki sem var farinn að stjórna mér hörfaði fyrir samkennd og lífsfyllingu.

Lengi vel hafði ég verið á lyfjum sem ég tel eftir á að hafa bætt gráu ofan á svart og orsakað tilfinningalegan doða og framtaksleysi. Ég er laus við þau í dag og styðst við aðferðir sem byggja ekki á lyfjum. Við sem glímum við mikinn tilfinningalegan sársauka einöngrumst gjarnan og það gerði ég líka. Sú einangrun var rofin samhliða meðferðinni sem ég var í. Mikið var hvatt þarna til sjálfshjálpar og ég fór að endurskoða flest allt og þar á meðal að hverju ég hafði gaman.

Í kjölfar þess fór ég að stunda göngur og reyndi að fremsta megni að vera innan um hluti sem mér þóttu fallegir. Ég rifjaði upp tónlist sem mér hafði þótt gaman að sem barni og unglingi og lét stundum sömu lögin viðstöðulaust ganga aftur og aftur, ef þau snertu við mér tilfinningalega. Aumingja nágrannarnir.

Hugræn atferlismeðferð byggir á því að stjórna hugsun sinni og smátt og smátt fór ég að ná árangri í því. Þar var á brattann að sækja og enn í dag þarf ég að vanda mig og tekst þetta ekki alveg stundum. Bestum árangri hef ég náð í að losa mig við hugsun sem byggir á svart/hvítu og tekst ágætlega upp með gráa litinn. Til að flæma óæskilegar neikvæðar hugsanir ná brott, nota ég gjarnan myndlíkingar. Ég myndgeri þá það sem er að angra mig í huganum. Sem dæmi ef að óæskilegar neikvæðar hugsanir leita á mig sem eru kvíðavaldandi, þá set ég upp rautt stoppmerki. Stundum tekst fljótt að bægja hlutunum frá mér, en stundum ekki. Þá fer stoppmerkið upp aftur og aftur, þangað til hugsunin hörfar.

Síðasta ár hefur athygli og einbeiting hjá mér komið mikið til baka, en það hefur kostað mikla áreynslu. Róm var ekki byggð á einum degi og ég sýni sjálfri mér þolinmæði sem ég hafði ekki gert áður. Þetta ár hefur verið ár mikilla breytinga hjá mér og í gegn um þessa reynslu mína hef ég kynnst mikið af góðu fólki. Ég hef líka notið umhyggju og skilnings sem ég gerði ekki áður. Það hafa margir lagt hönd á plóginn og er ekki hægt að benda á einn frekar en annan.

Í dag er ég virkur meðlimur í Hugarafli. Ég er í mjög góðum bata og styðst við öndun, slökun, tónlist og lestur til að halda mér við. Stopp merkið er líka óspart notað og stuðningur og umhyggja sem ég nýt í nánasta umhverfi hjálpar mikið. Mér finnst gott ef að hugsunin fer á flug að skrifa hugsanirnar niður og strika yfir óæskilegar.

Félagslega er ég virk og afla mér stöðugt nýrrar þekkingar. Ekki sakar að ástin kom aftur inn í líf mitt en hún er eitt besta lækningarmeðal sem til er. Verst að ekki er hægt að skrifa upp á hana. Það sannast bara það fornkveðna að ef manni fer að þykja vænt um sjálfan sig þá eiga aðrir auðveldara með það líka.