Skip to main content
Fréttir

Morgunblaðið: Geðsjúkdómar, fordómar og baráttan við báknið

By október 22, 2005No Comments
22. október 2005 | Aðsent efni | 785 orð | 1 mynd

Margrét Eiríksdóttir

Margrét Eiríksdóttir
Margrét Eiríksdóttir fjallar um málefni geðsjúkra: „Leggjumst öll á árarnar, myndum einn allsherjar þrýstihóp…“
SNEMMA á 20. öldinni var geðklofa fyrst lýst sem sérstökum sjúkdómi. Sjúkdómurinn var þá talinn fela í sér ótímabæra andlega hrörnun og vera ólæknandi. Það besta sem þá var hægt að gera fyrir manneskju með geðklofa var að sjá henni fyrir fæði, klæði og öryggi á þar til gerðum einöngruðum stofnunum. Þekking og vísindi þeirra tíma buðu því miður ekki upp á neitt betra fyrir fólk með alvarlega geðsjúkdóma og fjölskyldur þeirra. Þekking hefur vaxið. Lyfjameðferð og önnur meðferðarform hafa þróast á síðustu áratugum. Hátæknisjúkrahús sinna bráðveikum en eru ekki talin ákjósanlegur staður fyrir sjúka til lengri dvalar. Eftir stendur að einstaklingur með alvarlegan geðsjúkdóm þarfnast stuðnings á mörgum sviðum lífs síns, stundum árum eða jafnvel áratugum saman, eigi hann að geta lifað við öryggi, tekist á við sjúkdóminn og náð sér af geðrænum veikindum. Margar rannsóknir benda til að rétt aðstoð við að læra á sjúkdóminn, lyfjameðferð og stuðningur við tengslamyndun og búsetu í samfélaginu hafi úrslitaþýðingu fyrir lífsgæði og bata geðklofasjúklinga. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að samvinna geðsjúks einstaklings, fjölskyldu og heilbrigðisstarfsmanna getur aukið mjög lífsgæði sjúklingsins. Ennfremur hafa rannsóknarniðurstöður leitt í ljós að möguleikar til að stunda nám eða vinnu eru grundvallarforsendur í lífsgæðum geðsjúkra. Heildstæður stuðningur, vinna, eða nám standa geðfötluðum sorglega sjaldan til boða. Getur verið að um sé að kenna vanþekkingu og fordómum heilbrigðis- og félagsmálastarfsmanna? Erum við starfsmenn heilbrigðis- og félagsmálakerfis þá fáfróðir og fordómafullir og fyrirmunað að byggja upp viðeigandi meðferð og stuðning fyrir fólk með alvarlega geðsjúkdóma? Mér er það til efs. Flestir þeir einstaklingar sem ég hef hitt fyrir úr þessum tveimur kerfum virðast vel menntaðir einstaklingar. Við meinum vel og höfum tekið mið af hugsjónum okkar þegar við völdum okkur starfsvettvang. Ég held að skýringanna sé í raun að leita í því að báknin tvö, heilbrigðismálakerfi og félagsmálakerfi, reyna stöðugt að greina sig hvort frá öðru og ýta viðfangsefnum og fjárútlátum hvort á annað. Þannig er stöðugt tekist á um hvort kerfið eigi að veita sjúklingum þjónustu og starfsmenn hvors kerfis fyrir sig eyða orku sinni í að berjast fyrir því að hitt kerfið veiti skjólstæðingum þeirra þjónustu sem þeir eiga lögum samkvæmt fullan rétt á. Má með sanni segja að það sé Kleppsvinna! Á meðan þetta ástand varir rænir það marga alvarlega geðsjúka voninni um bata og fullnægjandi líf. Sumir eru að vísu heppnir, hafa fengið viðeigandi aðstoð og hjálp og náð verulegum bata. En alltof margir búa annaðhvort við algerlega óviðunandi aðstæður eða eru heimilislausir eða sitja fastir inni á geðdeild vegna skorts á úrræðum. Tilboð um nám eða vinnu við hæfi er fyrir mjög marga álíka raunhæfur möguleiki og að vinna í lottóinu. En hvað er þá til ráða? Allir vita að það þýðir ekki að tala við „kerfið“. Kerfið er bákn. Það hefur ekki heilastarfsemi. Það verður hvorki beitt tilfinninga- né réttlætisrökum. Hvað er þá hægt að gera? Er þetta ekki bara vonlaust? Rannsóknir sýna að það að eiga sér von er mikilvæg forsenda bata hjá alvarlega geðsjúkum. Ég tel mig oft hafa orðið vitni að því hvernig vonleysi, sársauki og úrræðaleysi vegna alvarlegra geðrænna veikinda hafa valdið togstreitu milli heilbrigðisstarfsmanna, sjúklinga og fjölskyldna þar sem hver kennir öðrum um það sem úrskeiðis fer í stað þess að taka höndum saman og leggja saman krafta sína, von og trú. Þannig höfum við oft þjónað hagsmunum kerfanna tveggja og lagt hinni eilífu togstreitu þeirra lið. Enginn má við margnum segir máltækið. Einstaklingurinn má sín lítils gagnvart heilu „kerfi“, hvað þá tveimur. Máttur þrýstihópa af ýmsu tagi, þar sem margir leggjast á eitt, getur hins vegar verið ótrúlega mikill eins og dæmin sanna. Ég hvet því alla þá sem hafa lesið þessar línur vegna áhuga síns á málefninu, að leggja því lið með einhverjum hætti. Í Reykjavík og nágrenni eru þegar starfandi nokkrar félagsmiðstöðvar og félagasamtök í þágu geðfatlaðra og aðstandenda þeirra. Má nefna t.d. Geysi, Hugarafl, Dvöl, Vin og Læk. Í þessum stöðvum hefur þegar myndast jarðvegur fyrir þrýstihópa sem allir þarfnast frekari krafta. Í Geðhjálp eru starfandi allnokkrir opnir sjálfshjálparhópar fyrir bæði aðstandendur og sjúklinga. Yngsti hópurinn er sjálfshjálparhópur fólks með geðklofasjúkdóm. Þátttakendur í honum hafa á síðustu mánuðum verið að færa sönnur á það sem áður var vitað, að fólk með geðklofa getur vissulega unnið á ábyrgan og uppbyggilegan hátt með veikindi sín og vandamál. Einhvers staðar í þessum félagsmiðstöðvum, eða sjálfshjálparhópum, er þörf fyrir þig, rétti staðurinn fyrir þig að leggja þitt lóð á vogarskálarnar. Leggjumst öll á árarnar, myndum einn allsherjar þrýstihóp og berjumst fyrir því að fólk með alvarlega geðsjúkdóma fái þau úrræði og aðstæður sem það þarfnast til að geta tekist á við sjúkdóm sinn og notið sín í lífinu. Hittumst og tökum höndum saman!

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur, starfandi á geðsviði LSH.