Skip to main content
FréttirGreinar

Hugarafl skilar ungu fólki aftur út í lífið

By nóvember 30, 2017No Comments

Verkefnisstjóri Svava Arnardóttir, iðjuþjálfi, segir að þótt fólk sé ungt þegar það leiti sér bata sé mikilvægt að það sé við stjórnvölinn í eigin lífi. Mynd:Morgunblaðið/Hari

Tilraunaverkefni félagasamtakanna Hugarafls snýst um að hlúa að geðheilsu og styðja ungt fólk, sem vill auka lífsgæði sín og fara aftur út á vinnumarkaðinn eða í skóla. Svava Arnardóttir, iðjuþjálfi og forstöðukona verkefnisins, þekkir á eigin skinni að þurfa á endurhæfingu að halda og segir reynsluna nýtast sér vel í starfi. Vinnumálastofnun styrkir verkefnið.

Samningurinn hljóðar upp á tíu einstaklinga í nánu utanumhaldi og samstarfi. Ég hef verið með 30 einstaklinga alls, af þeim eru 20 sem hafa útskrifast og níu þeirra hafa farið í fulla vinnu eða nám á eftir. Svo er hópur sem er enn í þjónustu sem er í hlutastarfi eða -námi,“ segir Svava Arnardóttir iðjuþjálfi sem veitir verkefninu forstöðu, en hún segist einnig hafa reynt það á eigin skinni hvernig það er að þurfa á endurhæfingu að halda, en það segir hún að nýtist vel í starfinu.„Verkefnið hefur verið í gangi í rúmt ár og er vegna samnings sem við gerðum við Vinnumálastofnun (VMST). Tilgangurinn er að veita aukinn stuðning til ungs fólks í endurhæfingu sem vill hlúa að geðheilsu sinni og stefnir aftur út á vinnumarkaðinn, í skóla eða á aukin lífsgæði. Aukin lífsgæði felast t.d. í að því að rjúfa félagslega einangrun, finna trú á eigin getu og í kjölfarið fara hjólin oftast að snúast til hins betra hjá fólkinu. Samningurinn gerði Hugarafli kleift að ráða fagmann í fyrsta sinn til starfa. Ég fékk það verkefni að sinna endurhæfingunni og þróa vinnuna áfram,“segir Svava. „Það skiptir miklu máli að tólin sem maður fær í hendurnar til að vinna í sínum bata henti manni, að maður hafi valmöguleika, að fólk hafi trú á manni og miðli því að maður geti náð bata, að maður finni að bati sé raunhæft markmið,“ segir Svava um það hvernig það sé að vera einstaklingur að leita sér að bata.

„Ég hef verið að þróa í hverju þjónustan á að felast, móta stefnu hennar og viðeigandi matstæki. Í kjölfarið höfum við komist að því að það sé nauðsynlegt að setja áhersluna á ungt fólk, en margt ungt fólk hefur verið að sækja hingað til Hugarafls. Ég tel það vera út af þeirri nálgun sem Hugarafl notar, en við
byggjum starfið á hugmyndafræði valdeflingar, bata og jafningjagrunns. Það er mikilvægt að hafa í huga að þó fólk sé ungt þegar það byrjar að leita sér að bata og að bættri geðheilsu, þá þarf það að fá að vera við stjórnvölinn í eigin lífi og velja það sem því hentar. Þá er líklegra að fólk framkvæmi og fylgi markmiðum sínum eftir, frekar en ef aðrir eru að koma með ráð eða lausnir fyrir það til að fara eftir. Fólk getur verið hérna hjá okkur eins lengi og það vill. Þau geta komið í einstaklingsviðtöl til mín eða í hópastarfið þar sem við förum yfir hugmyndafræði, sjálfsvinnu, hóp- starf, hópeflingu og fundi fyrir verkefni og viðburði sem skipta þau máli. Við höfum einnig verið með hóp sem heitir „Skipulag endurhæfingar“ sem ég held utan um ásamt öðrum iðjuþjálfa frá Geðheilsu eftirfylgd og hann er sérstaklega ætlaður þeim sem þiggja endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Hópurinn hefur vaxið með starfinu, en hann veitir svokallaðan jafningjastuðning þar sem þau setja sér markmið, deila þeim og fylgjast með hvernig gengur hvert hjá öðru.“

HUGMYNDAFRÆÐIN

Valdefling, bati og jafningjagrunnur

  • Ungt fólk í endurhæfingu sem stefnir aftur út í lífið.
  • Níu af 20 sem hafa útskrifast eru farin í fulla vinnu eða nám.
  • Aukin lífsgæði felast í að rjúfa félagslega einangrun og öðlast trú á sjálfan sig.
  • Valdefling, bati og jafningjagrunnur er hugmyndafræðin að baki.
  • Að vera sjálfur við stjórnvölinn í bataferlinu skiptir máli.
  • Drifkraftur getur tapast við að bíða eftir greiningum og bíða á biðlistum.

Fólk kemur að eigin frumkvæði

„Fólkið sem kemur til Hugarafls þarf ekki að hafa neinar greiningar eða tilvísanir, þannig að fólk getur komið hingað af sjálfsdáðum. Við leggjum meiri áherslu á styrkleika og hvert fólk stefnir, drauma og markmið þess frekar en erfiðleika og áskoranir sem það er að glíma við. Þetta er oft ungt fólk sem hefur dottið út úr námi eða er að berjast við að halda sér í námi og kemur hingað til að fá stuðning, en einnig einstaklingar sem hafa verið að vinna og hafa þurft að taka sér veikindaleyfi. Ég tel að ókosturinn við þær lausnir sem kerfið býður fólki oft upp á sé biðtíminn. Fólk þarf að bíða svo lengi eftir greiningum, beiðnum og því að komast að hjá fagaðilum til að fá pappíra til að komast á biðlista, þar sem það er látið bíða eftir að geta byrjað að vinna í sinni geðheilsu. Þetta ferli getur tekið margar vikur og mánuði. Þegar fólk þarf að bíða svo lengi eftir úrræðum, þá tapast drifkrafturinn til að gera eitthvað sjálfur og fólk er líka sett í þá stöðu að vera að bíða eftir að aðrir komi og hjálpi því. Þetta er a.m.k. valkostur fyrir fólk sem velur að hjálpa sér sjálft.“

Fjóla Kristín Ólafardóttir og Magnús Gauti Geirsson taka þátt í verkefninu

Markmiðið er að ná bata og takast á við aðstæður

Fjóla Kristín Ólafardóttir og Magnús Gauti Geirsson voru keik. Mynd: Morgunblaðið/Hari

Fjóla Kristín Ólafardóttir 26 ára og Magnús Gauti Geirsson 27 ára sóttu um sérstakan stuðning í tengslum við verkefnið. Magnús Gauti og Fjóla hafa verið í um tvö ár í Hugarafli og byrjuðu í sérstökum stuðningi hjá Svövu í upphafi verkefnisins fyrir rúmu ári.

„Ég hef glímt við mikið þunglyndi og félagsfælni. Ég var á geðdeild og mér var vísað hingað í Hugarafl og starfsmaður geðdeildarinnar kom með mig og kynnti mér starfið. Ég var ekkert innan um fólk áður en ég kom hingað, en hérna hef ég fengið að vera ég sjálfur og njóta þess að vera innanum fólk,“ segir Magnús Gauti semtelur sig hafa tekið miklum framförum.

„Ég varð fyrir miklum áföllum í æsku og hef verið lengi í sjálfsvinnu. Mínir erfiðleikar voru tengdir því sem kemur í kjölfar áfalla, lítið sjálfstraust, ég einangraði mig og bældi niður tilfinningar með mat. Þegar ég byrja hér, og byrja hjá Svövu, þá er ég frosin eftir lyfjagjöf undanfarin sjö ár. Ég gat ekki svarað hver er Fjóla sem líður vel,“ segir Fjóla.

Unnið á jafningjagrunni

„Ég er mjög ánægður hérna, mér finnst Svava hafa spýtt í lófana og komið miklu og góðu starfi hratt og vel í gang og hjálpað okkur að finna út hvað við vildum,“ segir Magnús Gauti. „Hún kemur með kraft inn í hópinn og heldur honum saman með skipulagi og uppsetningu á starfinu. Ég upplifi miklar framfarir eftir viðtölin hjá henni. Það gekk brösuglega í byrjun, því ég tók þetta ekki nógu alvarlega. En ég fór að hugsa: á ég að nýta þetta tækifæri eða ekki? Þá fór ég að vinna markvisst með henni að mínum markmiðum og margt hefur breyst til hins betra hjá mér í framhaldinu,“ segir Fjóla og Magnús Gauti tekur undir með henni fyrir sína parta.

„Ég er allt annar maður en ég var fyrir ári,“ segir hann glaður í bragði. „Við vinnum þetta saman á jafningjagrunni og kraftinum sem Svava gefur í vinnuna vill maður mæta með sama krafti á móti,“ segir Fjóla og Magnús Gauti tekur undir það og bætir við að Svava viti að það tekur tíma og að það er erfitt að vinna sig upp úr erfiðleikum sem tengjast geð- heilsunni.

„Minn draumur er að vita hvað ég vil og að ég get farið að gera það sem ég vil. Mig langar í nám og ég er að átta mig á því að ég get farið í nám, ég er byrjaður að þora,“ segir Magnús Gauti. „Nú þori ég að láta mig dreyma og ég trúi því að ég eigi það skilið og geti hrint því í framkvæmd. Ég fæ stuðninginn og vettvanginn hér í Hugarafli og ég er í Erasmus plús-verkefnavinnu. Ég er að læra að verða æskulýðsleiðbeinandi og Svava er mín fyrirmynd,“ segir Fjóla.

„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar ég byrjaði að vera hluti af þessu verkefni, en það hefur svo sannarlega farið fram úr mínum björtustu vonum. Svava er mjög dugleg að virkja fólk,“ segir Magnús Gauti og Fjóla tekur undir það með honum. „Ég hef góða trú á því núna að ég nái fullum bata, að ég fari út í lífið tilbúinn, ég hef ekki áhyggjur af því að falla eins og ég hef fallið, þó að ég búist ekki við að lífið sé dans á rósum,“ segir Magnús Gauti bjartsýnn. „Ég trúi því að ég geti lifað við lífsgæði, ég geti upplifað eðlilegar tilfinningar og geti tekist á við aðstæður. Að ná fullum bata fyrir mig er að geta tekist á við áskoranir, staðið sterkari eftir og haldið áfram að þrosk- ast út lífið, því ég hef séð annað fólk ná bata,“ segir Fjóla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóv 2017.