Skip to main content
Fréttir

Hugarafl lendir á götunni

By janúar 29, 2018No Comments

Samtökin Hugarafl lenda á götunni í lok sumars, þegar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins breytir geðheilbrigðisþjónustu sinni. Formaður Hugarafls segir vinnubrögð heilsugæslunnar til skammar. Forstjóri Heilsugæslunnar kveðst einfaldlega vera að framfylgja geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi.

Hugarafl eru samtök notenda í geðheilbrigðisþjónustu. Þau hafa haft aðsetur og unnið náið með Geðheilsu- og eftirfylgdarteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um árabil. Samstarfið þykir hafa gefið góða raun.

Það virðist þó ekki eiga af samtökunum að ganga, því í sumar lá nærri að þau yrðu lögð niður vegna fjárskorts. Þáverandi félagsmálaráðherra lagði þeim til fé og bjargaði þeim fyrir horn, en nú er aftur fokið í flest skjól, og Hugarafl missir að óbreyttu húsnæðið í sumar vegna breytinga á geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Geðheilsu- og eftirfylgdarteymið verður lagt niður, og í staðinn verða stofnuð þrjú ný teymi.

Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun, en fjallað hefur verið um breytingarnar á Morgunvaktinni á Rás 1.

„Við höfum unnið saman undir sama þaki í 15 ár, og við höfum séð um þann hluta af þessari hugmynd sem eru hópastarf og annað,” segir Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls. „En það á að leggja þetta teymi niður bara komplít, og þess vegna erum við að missa húsnæðið, vegna þess að við höfum verið undir þaki heilsugæslunnar.”

Geðþóttaákvörðun
Málfríður segir að með gömlu tilhöguninni hafi notendur og sjálfboðaliðar Hugarafls og fagmenn frá geðheilsuteyminu unnið saman að bata notendanna, hvaðanæva að á landinu. Nú verði þjónusta nýju teymanna þriggja einskorðuð við fólk í póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir ákvörðun heilsugæslunnar geðþóttaákvörðun.

„Mér finnst til skammar hvernig er farið með skattfé. Til að búa til nýtt á að henda þessari 15 ára reynslu, og það á að henda þessu flotta starfi sem teymi geðheilsu og eftirfylgni hefur unnið,” segir Málfríður.

Unnið samkvæmt geðheilbrigðisáætlun
Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir málið flóknara en svo.

„Ég vil svara því til að heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er að vinna eftir geðheilbrigðisáætluninni sem gerir ráð fyrir þremur teymum,” segir Svanhvít. „Eins og þessu er stillt upp er ekki gert ráð fyrir fjármögnun nema þessara þriggja teyma sem geðheilbrigðisáætlunin gerir ráð fyrir, en eftir sem áður er ríkið að styrkja hugarafl, svo vonandi verður því gert kleift að starfa áfram og veita áfram þjónustu.”

Upprunalega má finna fréttina á RUV.is