Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Héðinn Unnsteinsson áritar bók sína Vertu úlfur.

By apríl 18, 2015No Comments

Hann lík­ir upp­sveifl­unni við það að breyt­ast í var­úlf, fara í ham þar sem hann öðlast eig­in­leika úlfs­ins; hraða, styrk og hygg­indi. Hér áður fyrr voru þeir sem voru út­skúfaðir úr sam­fé­lag­inu rekn­ir burt með þeim orðum að þeir ættu að lifa eins og úlf­ar. Héðinn Unn­steins­son er höf­und­ur bók­ar­inn­ar Vertu úlf­ur, þar sem hann seg­ir frá reynslu sinni af geðhvörf­um. Þetta er saga af sigri.

„Mér líður vel í dag og ég er lyfja­laus. Ég hef lært að mataræði, svefn, hug­leiðsla og hreyf­ing skipta miklu máli fyr­ir mig. Ef ég næ að vinna með það á rétt­an hátt er auðvelt fyr­ir mig að stjórna minni lífs­orku og þá þarf ég ekki hjálp frá kerf­inu eða lyfj­um. Ég hug­leiði í tutt­ugu mín­út­ur á hverj­um morgni og næ þannig að hafa stjórn á hugs­un­um mín­um. Ég þekki þær hugs­an­ir sem ég áður fyrr sogaðist inn í, en nú næ ég að stöðva þær, ég hleypi þeim ekki að. Ég hef verið þátt­tak­andi í Al-anon-sam­tök­un­um og farið í gegn­um tólf spora kerfið og það hef­ur gefið mér frelsi til að geta valið um það í líf­inu við hverju ég bregst og hverju ekki. Þetta snýst líka um innri full­vissu og að vera ekki háður ytri viður­kenn­ingu,“ seg­ir Héðinn Unn­steins­son sem ný­lega sendi frá sér bók­ina Vertu úlf­ur, sem er vægðarlaus saga af ham­skipt­um, en þar seg­ir hann frá eig­in reynslu af geðhvörf­um, aðallega frá versta upp­sveiflukast­inu sem varð hjá hon­um árið 2008 sem endaði með nauðung­ar­vist­un á geðdeild. Bók Héðins er sann­ar­lega saga af sigri, líf hans er nú í föst­um skorðum og hann stund­ar vinnu sína sem stefnu­mót­un­ar­sér­fræðing­ur í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.
Losn­ar aldrei við stimp­il­inn

„Ég hef aldrei litið á geðhvörf­in sem al­vöru­sjúk­dóm, held­ur sem ákveðinn hluta af per­sónu­leika. Ég hef alltaf litið á þetta sem ým­ist óstjórn­lega mikla orku eða óstjórn­lega litla orku. Við get­um aldrei sett ein­hverja hlut­læga mæli­stiku á normið. Sá tími sem ég hef verið veik­ur er sam­tals um tvö ár, það er stutt­ur tími af lífi mínu, og þess vegna er ég ekki til­bú­inn til að skrifa und­ir það að ég sé geðveik­ur maður. En ég kemst ekk­ert und­an þeim dómi að hafa verið greind­ur með geðhvörf. Þótt ég álíti að í dag sé ég heil­brigðari en marg­ur ann­ar sem ekki hef­ur fengið þenn­an hug­læga stimp­il, þá losna ég aldrei við hann. Það er fólk út um all­an heim sem lif­ir lyfja­lausu lífi þótt það hafi ein­hvern tím­ann fengið ein­hverja grein­ingu. Í dag get­ur nán­ast eng­inn gengið inn á lækna­stofu án þess að ganga út með ein­hver lyf. Það eru mik­il hags­muna­öfl sem viðhalda því að greina sem flest fólk til að geta selt lyf. Það er þver­sögn og eitt­hvað að þegar heil­brigðisþjón­usta batn­ar með hverju ár­inu, en sí­fellt fleiri eru greind­ir veik­ir,“ seg­ir Héðinn, sem missti fyrst stjórn­ina á til­finn­ing­um sín­um og líðan þegar hann var 19 ára. Þá datt hann í þung­lyndi og kvíða en náði sér á strik eft­ir nokkra mánuði.
Þegar maður hætt­ir að sofa fer allt í rugl

„Tveim­ur árum síðar lenti ég í þessu aft­ur þegar ég kom heim frá Banda­ríkj­un­um og fór í lækna­nám í Há­skól­an­um, en þá var það ekki þung­lyndi eins og í fyrra skiptið held­ur allt of mik­il orka. Ég hlakkaði svo til morg­undags­ins að ég gat ekki farið að sofa og þegar maður hætt­ir að sofa fer allt í rugl. Ég missti stjórn­ina. Þá kom kerfið og sagði: „Þú ert með rösk­un. Þú ert með sjúk­dóm. Þú verður að taka li­tí­um alla ævi.“ Það voru þau skila­boð sem ég fékk hjá geðlækni.
Hreyfðu þig daglega.

Hreyfðu þig dag­lega. Friðrik Tryggva­son

Síðan var lífið held­ur flatt í tíu ár, en þá ákvað ég að hætta á li­tí­um, því af­leiðing­arn­ar voru að skjald­kirt­ill­inn var blæðandi og safn­ast hafði upp kreatín í nýr­un­um hjá mér. Ég gerði þetta í sam­ráði við minn lækni, að minnka li­tíumskammt­inn smátt og smátt.“
Var eins og raf­magn­skap­all með engri ein­angr­un

Til að bregðast við blæðandi skjald­kirtli var Héðinn sett­ur á hjarta­lyf, svo­kallaða beta­blokk­era.

„Þessi hjarta­lyf hægðu rosa­lega á hjart­slætt­in­um og gerðu skynsvið mitt of­ur­næmt á hljóð, ljós, raf­magn og fleira, sem eru þekkt­ar auka­verk­an­ir af beta­blokk­ur­um á miðtauga­kerfið. Ég var eins og raf­magn­skap­all með engri ein­angr­un utan um. Ef við sjá­um fyr­ir okk­ur himnu milli und­irvit­und­ar og meðvit­und­ar, þá hvarf sú himna hjá mér. Ég fór í mjög mikla man­íu eft­ir að ég hætti á hjarta­lyfj­un­um. Það var rosa­legt ferðalag sem endaði í októ­ber það sama hrun-ár, 2008, þegar Geir bað Guð að blessa Ísland. Ég fór í bank­ana í ág­úst rétt fyr­ir hrun og tók út pen­ing­ana mína af því ég skynjaði að bank­arn­ir væru að fara á haus­inn og ég lét vita af því. Eft­ir á að hyggja var eng­in geðveiki í því,“ seg­ir Héðinn og hlær.
Hann gerði rétt, en hvernig það var gert var rangt

Upp­sveifl­unni miklu lauk þegar Héðinn var nauðung­ar­vistaður á geðdeild.

„Sjö karl­menn komu og tóku mig með valdi, sneru mig niður og sátu nokkr­ir ofan á mér á meðan þeir toguðu niður um mig bux­urn­ar til að sprauta mig með ró­andi lyfj­um. Eft­ir þessi átök var ég mar­inn frá öxl og niður á mjöðm, samt streitt­ist ég ekk­ert á móti. Það er svo mik­ill óþarfi að beita slíku valdi. Fyrstu tvær vik­urn­ar var ég lokaður inni í her­bergi líkt og í ein­angr­un og ég upp­lifði mig sem fanga, þótt ég hefði ekk­ert brotið af mér. Það er mikið áfall að vera svipt­ur frelsi,“ seg­ir Héðinn og bæt­ir við að það hafi tekið mjög lang­an tíma fyr­ir hann að vinna úr því áfalli að hafa verið nauðung­ar­vistaður og að faðir hans skyldi bera ábyrgð á þeirri ákvörðun.

„Ég var lengi að vinna aft­ur traust og sam­skipti við föður minn. Ég var al­veg brjálaður út í hann og átti lengi mjög erfitt með að tala við hann. En mér tókst að vinna mig út úr þessu og hann gafst aldrei upp á því að hafa sam­band við mig. Ég fór til hans með fyr­ir­gefn­ing­ar­skjal sem ég las upp fyr­ir hann. Og við fór­um sam­an til sál­fræðings til að ræða þetta. Ég tek ofan fyr­ir föður mín­um að hafa lagt sig fram um að bæta sam­skipti okk­ar. Ég veit að það sem hann gerði var rétt, en hvernig það var gert var rangt.“
Ná­inn ætt­ingi á ekki að þurfa að skrifa und­ir

Lögð hef­ur verið fram til­laga að laga­breyt­ingu, sem fer fyr­ir þingið í haust, um að sveit­ar­fé­lög en ekki nán­ir ætt­ingj­ar skrifi und­ir ákvörðun um nauðung­ar­vist­un fólks, en Héðinn á stór­an hlut að máli við þá vinnu.

„Það get­ur haft gríðarleg áhrif á sam­skipti og lífs­gæði þegar ná­inn ætt­ingi skrif­ar und­ir nauðung­ar­vist­un. Ég veit um bræður sem hafa ekki talað sam­an í tutt­ugu ár vegna slíks, og það er bara eitt dæmi af mörg­um. Það er ekki boðlegt að hafa svo slæm áhrif á sam­skipti inn­an fjöl­skyldna. Þess vegna verða sveit­ar­fé­lög­in að taka þessa ábyrgð.“

Héðinn nefn­ir líka dæmi um unga menn sem hafa farið í geðrof vegna hass­reyk­inga og þeim verið haldið í hálft ár, jafn­vel heilt, sjálfræðis­svipt­um inni á Klepps­spít­ala.

„Slíkt inn­grip hef­ur gríðarleg áhrif á svo ungt fólk. Þess vegna er mik­il­vægt að end­ur­skoða þessi lög, það er stórt mann­rétt­inda­mál að fækka til­fell­um nauðung­ar­vist­un­ar og sjálfræðis­svipt­ing­ar.“
Margt hef­ur verið upp­götvað í hugs­ana­stormi

Þegar ég spyr Héðin hvort upp­sveifl­an sé ekki á ein­hverju stigi skemmti­leg, í ljósi þess að sum­ir með geðhvörf segj­ast ekki hefðu viljað missa af því að upp­lifa man­íu, seg­ir hann að vissu­lega sé hún kraft­mik­il og hömlu­laus, en hún endi alltaf í paranoju og þung­lyndi, sem fylgi mik­il og erfið átök.

„Þetta upp­sveiflu­ferðalag hjá mér árið 2008 var vissu­lega mögnuð upp­lif­un, eins og lýsi í bók­inni, en ég upp­lifði líka hræðilega hluti, eins og felmt­urs­ástand, eða ofsa­hræðslu, sem er skelfi­leg upp­lif­un.“

Héðinn seg­ir að allt sem gerðist í huga hans í þessu ferðalagi hafi verið lógískt og raun­veru­legt fyr­ir hon­um þar sem hann var þá, þótt all­ur heim­ur­inn hafi sagt að hann væri geðveik­ur.

„Þetta er allt svo af­stætt og hug­lægt og við meg­un ekki tak­marka of mikið þessa hugs­ana­storma sem fólk upp­lif­ir, því í þeim hafa ótrú­leg­ir hlut­ir verið gerðir og upp­götvaðir í gegn­um tíðina, hjá svo­kölluðum snill­ing­um sem fóru út fyr­ir boxið.“
Byggj­um upp það sem er heilt
Bók­in er til­einkuð öll­um þeim sem hafa í hugs­un­um sín­um, orðum eða gjörðum staðið utan hrings­ins. Eitt af mark­miðum Héðins með bók­inni er að hvetja sam­fé­lag okk­ar til þess að end­ur­skoða skil­grein­ing­ar sín­ar, gild­is­mat og for­send­ur fyr­ir þeim kerf­um sem við höf­um smíðað til að hjálpa fólki til að tak­ast á við lífs­orku sína. Héðinn spyr í eft­ir­mála: Get­um við greint og byggt upp það sem er heilt meðal manna í stað þess að ein­blína á það sem kann að vera óheilt? Get­um við metið ein­stak­linga út frá mann­gildi, hæfi­leik­um og getu?

Héðinn skrifaði hjá sér orð og setn­ing­ar í bata­ferl­inu sem hon­um þótti hjálpa sér að vinna að mark­miðum. Þau urðu að Lífs­orðunum 14:

1. Notaðu and­ar­drátt­inn

2. Borðaðu holl­an mat í fé­lags­skap annarra

3. Hreyfðu þig dag­lega

4. Lifðu í punkt­in­um

5. Upp­lifðu nátt­úr­una

6. Gleymdu þér

7. Mundu að brosa

8. Agaðu sjálf­an þig

9. Vertu til staðar

10. Stattu með sjálf­um þér

11. Láttu þig langa í það sem þú hef­ur

12. Þjónaðu í auðmýkt

13. Trúðu og treystu.

14. Finndu sjálf­an þig í öðrum.

Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir
khk@mbl.is
Morgunblaðið