Skip to main content
Greinar

Farðu í meðferð

By mars 6, 2015No Comments

Það bar svo við um þær mundir að sumarið 2012 var ég upptekinn við að brenna kertið mitt í báða enda. Út frá þeirri iðju höfðu brunnið allar þær brýr sem voru mér að baki.

Ég var einn af þeim sem frá upphafi var ljóst að átti ekki að smakka það. Frá fyrsta fylleríi. Æskuvinkona mín sagði við mig, þegar ég var búinn að drekka í nokkrar vikur, að ég kynni ekki að drekka. Ég? Það var HÚN sem kunni ekki að drekka! Sötraði 2-3 bjóra ÓTRÚLEGA hægt. Fór svo bara heim stuttu eftir miðnætti, aldrei til í tryllinginn! Það var hún sem var með drykkjuvanda! Það er í hjarta myrkursins sem töfrarnir gerast. Hvernig ætlaru að komast þangað ef þú ferð heim á miðnætti eftir örfáa sopa af bjór? Og töfrarnir gerðust alveg stundum. Handahófskennt líf býður oft uppá ótrúlegar upplifanir.

Þegar ég var tvítugur var ég búinn að drekka mig út úr einum framhaldsskóla og inn í annan. Sá var í Breiðholtinu og eðli málsins samkvæmt kynntist ég þar kannabisefnum.

Þegar ég var tvítugur var ég búinn að drekka mig út úr einum framhaldsskóla og inn í annan. Sá var í Breiðholtinu og eðli málsins samkvæmt kynntist ég þar kannabisefnum. Þau sögðu „Komdu í ferðalag” og ég sagði „OK, ég elska þig” og næstu árin litaðist líf mitt af stormasömu sambandi okkar.

Fljótlega varð þó ljóst að kannabisefnin voru að fara með geð mitt á áður órannsakaðar lendur. Ég vil meina að fyrst hafi þau kennt mér eitthvað, raunverulega. Ég upplifði tónlist, samræður, samfélagið og lífið sjálft, allt á annan hátt. En mjög stuttu eftir að ég fór að nota þau í miklu magni varð kennaraverkfall hjá efnunum. Þau sögðu mér sömu hlutina, aftur og aftur, þangað til þau hættu algjörlega að opna munninn nema til þess að bíta mig. Narta burtu hluta af mér þangað til ekkert stóð eftir nema geðveik beinagrind.

Vorið 2005, þegar ég var 21 árs gamall, var ég að koma upp í mína fyrstu geðhæð, maníu. Ég sýndi öll einkennin; svefnleysi, málæði, gríðarlegar skapsveiflur, reiðiköst og aftengingu frá raunveruleikanum. Ég hafði aldrei áður farið í maníu, en þarna, rúmu ári eftir að hafa fyrst prófað kannabis og einungis nokkrum mánuðum eftir að hafa farið út í dagneyslu, var ég kominn með áunnin geðsjúkdóm. Trítilóður, bókstaflega að drepast úr hroka og nokkuð viss um að ég væri framtíðar leiðtogi alls heimsins. Ég var MÆTTUR.

Áunnið brjálæði

Um sumarið fór ég með félögum mínum úr framhaldsskóla á Hróaskelduhátíðina. Ég var í fullkomnu maníukasti allan tímann. Öskraði, laug, talaði stöðugt, skipaði fólki fyrir, tók reiðiköst á þá sem voru mér ekki samboðnir og var almennt óalandi og óferjandi. Enda gáfust flestir félagar mínir upp á mér. Það varð einhver samstaða um að ég væri algjörlega óbærilegur og ekki við mig talandi. Og það var alveg satt. Geðheilsa mín skánaði ekki á hátíðinni sjálfri. Ég prófaði sýru í fyrsta skiptið og fléttaðist allur sá brjálæðislegi sannleikur sem hún hafði að segja saman við mína brengluðu upplifun af raunveruleikanum. Ég var farinn.

Eftir hátíðina missti ég af fluginu heim og eyddi nokkrum vikum á götunni í Kaupmannahöfn. Svaf á frekar óhefðbundnum stöðum – á lestarstöðvum, undir stigum, í tjaldi úti í skógi með ógeðslega leiðinlegum Svía, í yfirgefnum barnaskóla með þýskum fjöllistahóp, í almenningsgörðum. Safnaði dósum til að eiga fyrir bjór og hassi.

Eftir hátíðina missti ég af fluginu heim og eyddi nokkrum vikum á götunni í Kaupmannahöfn. Svaf á frekar óhefðbundnum stöðum – á lestarstöðvum, undir stigum, í tjaldi úti í skógi með ógeðslega leiðinlegum Svía, í yfirgefnum barnaskóla með þýskum fjöllistahóp, í almenningsgörðum. Safnaði dósum til að eiga fyrir bjór og hassi. Inn á milli hinsvegar, þegar vímuástandið var í lágmarki, varð meira að segja mér ljóst að eitthvað mikið var að. Ég var að missa flugið. Þetta hafði ekki verið planið.

Ég komst á endanum aftur til landsins við illan leik. Með lungnabólgu.Vannærð, sextíuogfjögurra kílógramma hundraðnítíuogátta sentímetra, geðveik beinagrind, illa haldinn af áunnu brjálæði. Einhver hefði haldið að eftir svona útreið ætti maður að gera vörutalningu á sjálfum sér. Sjá hvað hefði farið úrskeiðis. Reyna að endurtaka ekki mistökin. Einhver hefði haft rangt fyrir sér. Því eftir mjög langan og myrkan vetur gerði ég það nákvæmlega sama: Reykti mig í sturlun, fór á Hróaskeldu, gerði alla vini mína fráhverfa mér, endaði á götunni og brotlenti svo aftur heima við illan leik. Stuttu seinna gerði ég mína fyrstu tilraun til að hætta allri neyslu. Aleinn.
Að leggja eigin handónýtu hugmyndir á hilluna

Ég hékk tæp þrjú ár á snúrunni, hnefandi sjálfan mig allan tímann, þangað til mér tókst að selja mér þá hugmynd að ég gæti notað aftur. Að þessir atburðir, tveimur til þremur árum áður, hefðu verið bernskubrek. Að NÚ væri ég í jafnvægi. Að NÚ kynni ég þetta. Ef ég BARA reykti kannabis. Af því ég varð svo ruglaður af víni. Vínið hlyti að vera vandamálið. Sú tilraun fór ekki vel. Ég endaði uppi á geðdeild. Allt í lagi, þá reyndi ég að BARA drekka áfengi. Af því ég varð svo geðveikur af reyknum. Það fór dásamlega. Ég endaði í meðferð.

Afhverju dásamlega? Vegna þess að í meðferðinni var útskýrt fyrir mér, í fyrsta skiptið á ævinni, að ég væri með fíknisjúkdóm. Að hann mætti meðhöndla. Ef ég aðeins framkvæmdi og gerði það sem mér var sagt þá ætti ég að eiga séns. Ef ég legði mínar handónýtu hugmyndir til hliðar og tæki leiðsögn, þá ætti ég möguleika á að lifa þokkalega eðlilegu lífi. Svo ég ákvað að gera nákvæmlega það.

Ef ég legði mínar handónýtu hugmyndir til hliðar og tæki leiðsögn, þá ætti ég möguleika á að lifa þokkalega eðlilegu lífi. Svo ég ákvað að gera nákvæmlega það.

Fyrst fór ég í tíu daga inn á sjúkrahúsið Vog í afeitrun. Þar kynntist ég frábæru fólki. Starfsfólkið kunni að takast á við mig og gaf mér allt það rými sem ég þurfti – annarsvegar til að jafna mig, og hinsvegar til að átta mig. Svo voru það hinir vistmennirnir, fólk að hefja sömu vegferð og ég – á leiðinni úr fjóshaugnum í átt til sólar. Þeir herbergisfélagar sem ég kynntist á Vogi eru enn þann dag í dag með mínum bestu félögum og samferðarfólki.

Eftir Vog var mér ráðlagt að fara upp á Staðarfell í meðferð, og ég hlýddi. Ég var orðinn mjög spenntur fyrir því að verða besta mögulega útgáfan af sjálfum mér. Sá framá að ef mér tækist að halda mínum fíknisjúkdóm í skefjum, þá gæti mér hugsanlega tekist að uppfylla drauma mína. Standa við orð mín. Verða eitthvað annað en útigangsmaður og aðhlátursefni. Ég tók leiðsögn. Hlýddi ráðum sérfræðinga. Og mér fór að batna.
Engin skömm í því að biðja um hjálp

Í mörg ár hafði ég þrár og langanir sem ég var ófær um að gera að veruleika. Í dag upplifi ég hinsvegar að allt sem ég vilji gera sé mögulegt. Ekkert secret kjaftæði. Ég bara set mér markmið og stend við þau. Edrú allann tímann. Þetta hljómar kannski bara eins og það sem venjulegt fólk gerir, en fyrir mér er þetta nýtt líf.

Þannig ef þú telur þig eiga við vandamál að stríða, (og birtingarmynd þess þarf alls ekki að vera eins ýkt og mín), þar sem áfengis og/eða fíkniefnaneysla þín er að valda þér vanlíðan, þvælist fyrir þér og/eða þínum, og þér er ekki að takast að fá lausn á þeirri hegðun, farðu þá í meðferð. Ef það er verið að taka þig fyrir ölvunarakstur, þú ert að sofa hjá fólki sem þú ætlaðir ekki að sofa hjá, manst ekki hvað þú gerðir í gær af því stóran hluta af deginum vantar, vaknar á stöðum sem þú ætlaðir ekki að vakna á, taktu þá fokking ábyrgð á lífi þínu og farðu í meðferð. Ef þú hinsvegar gerir þér grein fyrir því hvert vandamálið er en ert of stolt/ur – hrædd/ur – upptekin/n til að gera eitthvað í því, þá ertu samt í frekar vondum málum.

Umræðan hefur nefnilega verið tekin um blöðruhálskrabba, geðsjúkdóma, átraskanir og ýmislegt fleira, en mér finnst kannski aðeins þurfa að opna á fíknisjúkdóma. Að fólk þurfi ekki að skammast sín. Það sé engin skömm í því að biðja um hjálp.
Gefstu upp, taktu ábyrgð

Ég kem ekki í veg fyrir inflúensu með því að borða meira næst. Verð ekki ónæmur fyrir ebólu ef ég bara passa mig að blanda ekki saman bjór og sterku. Það hugsar sig enginn út úr fíknisjúkdómum, og skömmin í kringum þá gagnast engum nema Bakkusi.

Ekki misskilja mig. Ég elska mistökin mín. Ef gamla orðtækið: „Vegur þjáningarinnar liggur til hallar viskunnar” er satt – þá hef ég malbikað þennan veg og borgað alla tollana, búinn að kaupa höll viskunnar og er farinn að leigja þar út herbergi á AirBnB.

Ekki misskilja mig. Ég elska mistökin mín. Ef gamla orðtækið: „Vegur þjáningarinnar liggur til hallar viskunnar” er satt – þá hef ég malbikað þennan veg og borgað alla tollana, búinn að kaupa höll viskunnar og er farinn að leigja þar út herbergi á AirBnB. Ég hafði gert það að lífsstíl að vera misheppnaður, þunglyndur og í sjálfsvígshugsunum. Gott og vel. Það er fínt að hafa prófað það. En lífið hefur upp á fleiri bragðtegundir að bjóða. Ég þurfti hinsvegar að brotlenda fullkomnlega til þess að gefa þeim séns. Og fyrsta sporið var að gefast upp, og svo að biðja um hjálp. Þín saga þarf ekki að vera eins og mín. En ef þér líður illa og grunar að þetta sé ástæðan, gefstu þá upp. Taktu ábyrgð.

Kjarninn:
Bragi Páll Sigurðarson
Fimmtudagur 5. mars 2015 10:00