Skip to main content
GeðheilbrigðismálGreinar

BLAÐUR UM ÁFÖLL

By May 24, 2016No Comments
Blaður um áföll

HÖFUNDUR: SÆUNN KJARTANSDÓTTIR

Þegar ég hafði lesið viðtal við geðlækni með glórulausum staðhæfingum um áföll og afleiðingar þeirra henti ég Fréttablaðinu frá mér. Örfáum dögum síðar var ég sest við tölvuna. Mér var um megn að sitja með hendur í skauti og láta það viðgangast að fagmanneskja í áhrifastöðu tali af svo miklu ábyrgðarleysi og vanþekkingu um jafn viðkvæm og mikilvæg mál.

Það er eflaust misjafnt hvað fólk kallar áföll en ég hugsa að flestir geti sætt sig við skilgreiningu íslenskrar orðabókar þar sem slys, mótlæti eða þungbær reynsla eru nefnd sem dæmi. Á síðustu árum hefur athygli fagfólks beinst að annars konar áföllum sem kallast tengslaáföll (e. relational trauma). Þá er ekki um stakan atburð að ræða heldur langvarandi ferli þar sem barn verður fyrir vanrækslu eða ofbeldi foreldra, misjafnlega alvarlegu. Tengslaáföll eru mun skaðlegri en stakir atburðir. Þau eiga sér stað á meðan barn er varnarlaust og óþroskað, sá sem veldur sársauka eða ótta er manneskja sem barnið er háð, áföllin eru endurtekin og viðvarandi og hafa þar af leiðandi skaðleg áhrif á mótun heilans og viðhorf manneskjunnar til sjálfrar sín og annarra.

Tengslaáföll fara oft leynt vegna þess að einstaklingurinn hefur eingöngu sitt takmarkaða sjónarhorn á eigið líf. Barn hefur ekki forsendur til að vita að ekki sé í lagi að pabbi öskri eða að mamma sé alltaf í rúminu. Börnum er eiginlegt að réttlæta framkomu foreldra sinna og þau vilja frekar trúa því að eitthvað sé að þeim sjálfum en pabba og mömmu. Þess vegna gera þolendur ofbeldis og vanrækslu sér oft ekki grein fyrir að eitthvað athugavert hafi átt sér stað. Þess í stað sitja þeir uppi með vanlíðan sem þeir skilja ekki og kenna sjálfum sér um. Oft er það ekki fyrr en á fullorðinsárum sem fólk gerir sér grein fyrir hvernig kvíði, þunglyndi, léleg sjálfsmynd eða ofneysla áfengis/fíkniefna er afleiðing erfiðrar lífsreynslu ásamt vanmætti til að bregðast við henni.

Skilningur eða afsakanir?
Það er margtuggin mýta, meðal annars í fyrrnefndu viðtali, að alkóhólistar eigi þá ósk heitasta að finna sökudólg sem réttlæti drykkju þeirra svo þeir sjálfir geti afneitað eigin ábyrgð. Hugmyndafræði sem túlkar þörf fólks fyrir skilning sem afneitun ber ekki með sér mikinn mannskilning. Auðvitað eru þeir til sem þrá að benda á sökudólga en flestir uppgötva fljótlega hversu skammvinn fróun felst í því. Alkóhólistar eins og aðrir sem glíma við tilfinningalega erfiðleika þurfa hjálp við að skoða og skilja hvernig þeir hafa tileinkað sér bjargráð sem voru upplifuð mikilvæg á sínum tíma en hafa snúist upp í andhverfu sína. Margir eru fastir í mynstri hegðunar og tilfinninga sem eiga ekki lengur við án þess að þeir átti sig á því. Mín reynsla er að flestir hafi takmarkaðan áhuga á að leita sökudólga. Þess í stað vilja þeir sjá samhengi hlutanna, fá innsýn í hvernig sjálfsmyndin hefur mótast, auka þol fyrir erfiðri líðan og tileinka sér heilbrigðari leiðir til að takast á við hana.

Dekur eða vanræksla?
Önnur hæpin goðsögn sem kemur fram í fyrrnefndu viðtali gengur út á að fólk geti ekki tekist á við áföll hjálparlaust vegna þess að það lifi í vernduðu umhverfi. Ekkert tel ég vera fjær sanni. Verndað umhverfi myndi verja fólk fyrir streitu og leiða til betri heilsu í stað aukins kvíða sem nú er landlægur. Börn sem er hlíft við að takast á við krefjandi viðfangsefni eru ekki vernduð, þau eru vanrækt. Lífið er stútfullt af erfiðleikum sem börn þurfa hjálp við frá fæðingu. Þetta er tímafrek þolinmæðisvinna en hún er forsenda þess að börn byggi upp sálrænu vöðvana sem þau þarfnast á fullorðinsaldri, meðal annars til að takast á við áföll. Foreldrum og öðrum fullorðnum ber að vernda börn fyrir óhóflegri streitu og hjálpa þeim frá degi til dags, á þeirra forsendum, til að takast á við erfiðleika sem hæfa aldri þeirra og þroska. Rannsóknir sýna að börn sem fá slíkt atlæti hafa mun meiri seiglu og getu til að takast á við mótlæti. Hin sem eru vanrækt eða látin axla ábyrgð á sjálfum sér of snemma, eins og algengt er, eru mun verr í stakk búin þegar áföll dynja á. Þau eru ófær um að takast á við líðan sína vegna þess að þau skortir sjálfsöryggi og -þekkingu sem aðeins fæst í nánum og ástríkum tengslum. Það er í þessum fyrstu tengslum sem barn lærir að takast á við tilfinningar sínar og vinna úr þeim en lítið fer fyrir slíkum lærdómi í andrúmslofti ótta og höfnunar. Þó að áreitið frá Facebook og öðrum netmiðlum sé áhyggjuefni kemst það ekki í hálfkvisti við streituna sem fylgir því að alast upp í ótta eða ástleysi.

Um eitt get ég verið sammála geðlækninum: Við höfum gengið allt of langt í að sjúkdómsgreina líðan fólks. Ég held líka að sporna þurfi gegn þeirri hugmynd að “sérfræðingar” séu alltaf nauðsynlegir þegar áföll (stakir atburðir) dynja á. Þá jafnast ekkert á við stuðning nánustu fjölskyldu og vina sem þekkja manneskjuna og þykir vænt um hana. Ef slíku fólki er ekki til að dreifa eða líðanin er óvenjulega erfið þarf viðkomandi vissulega að hafa aðgang að fagfólki. Og eitt er víst: Sé áföllum ekki sinnt á fullnægjandi hátt í tæka tíð kemur að því að liðsinni fagfólks verður ekki umflúið, fyrr eða síðar.

Grein birtist upphaflega hér.