Skip to main content
Fréttir

Áskorun til ráðherra velferðarmála

By apríl 11, 2018No Comments

Eftirfarandi áskorun til ráðherra var lesin  upp í lok þögulla mótmæla við Velferðarráðuneytið.

Reykjavík 10. apríl 2018
Hæstvirtir heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar

Notendur Hugarafls og Geðheilsu – Eftirfylgdar (GET) skora á heilbrigðis- og félagsmálaráðherra að taka ábyrgð á stöðu mála og gera sér grein fyrir því að fjöldi fólks er að missa mikilvæga þjónustu. Við viljum minna ráðherra á að þeir eru líka ráðherrar notenda og sem slíkir ættu þeir að sjá sóma sinn í að hlusta á raddir okkar, virða þá reynslu sem við búum að, og taka þörf okkar á mismunandi úrræðum til greina. Þessi staða hefði líklegast ekki komið upp hefðum við fengið að vera með í ráðum frá upphafi við stefnumótun og framkvæmd þeirra breytinga sem við stöndum nú frammi fyrir. Stjórnvöld hafa nú hátt um það að verið sé að efla geðheilbrigðisþjónustu en á sama tíma er verið að leggja niður mikilvæga samfélagsgeðþjónustu sem hefur starfað við góðan orðstír í 15 ár.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um „Réttindi hvers manns til þess að njóta bestu mögulegrar líkamlegrar og andlegrar heilsu“ og samkvæmt „Stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum“ sem Alþingi á að vera vinna eftir er samvinnnu milli notenda og fagfólks lýst sem framtíð geðheilbrigðisþjónustunnuar. Það er því ljóst að með því að slíta í sundur samstarf Hugarafls og GET er verið að hverfa aftur til fortíðar, taka valdið af notendum, og skerða valmöguleika þeirra sem þurfa á þjónustu að halda vegna andlegra erfiðleika.

Hæstvirtu ráðherrar, við krefjumst þess að fundin verði lausn til að Hugarafl og GET geti haldið áfram sinni starfsemi og binda þannig enda á þá óvissu sem notendur þjónustunnar búa við í dag. Sú nýja þjónusta sem hefur verið kynnt er á engan hátt sambærileg þeirri þjónustu sem samstarf Hugarafls og GET hefur getað boðið uppá síðastliðin 15 ár.
Til að halda samtalinu áfram er ykkur boðið á almennan borgarafund sem haldinn verður þann 17. Apríl í Borgartúni 22, 3. hæð milli klukkan 11 og 12.30.

Fyrir hönd notenda Hugarafls og GET

Málfríður Hrund Einarsdóttir
Formaður Hugarafls