Skip to main content
Greinar

Aðsent efni Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu

By febrúar 21, 2014No Comments

Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir fjallar um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra: „Fatlaðir eiga oft, fötlunar sinnar vegna, erfiðara með að gera sér grein fyrir réttindum sínum eða sækja rétt sinn heldur en þeir sem ekki búa við fötlun.“

Á VETTVANGI Sameinuðu þjóðanna hafa nú verið unnin drög að alþjóðlegum sáttmála um réttindi fatlaðra. Sú staðreynd að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna telji þörf á sérstökum sáttmála til verndunar á réttindum fatlaðra gefur glöggt til kynna að núverandi skipulag mannréttindaverndar sé ekki nægilega vel til þess fallið að styðja við og vernda réttindi og reisn einstaklinga með fötlun.
Sáttmálinn byggist á gildandi viðmiðum um mannréttindi þar sem þau eru skoðuð út frá stöðu fólks með fötlun. Undirbúningsvinnan fór fram í nánu samstarfi við fatlaða sjálfa og hagsmunasamtök þeirra. Grundvöllur sáttmálans er sá að fatlaðir eigi rétt á að njóta allra þeirra mannréttinda sem ófatlaðir njóta. Með því er staðfest að fatlaðir séu einstaklingar með full og jöfn borgaraleg réttindi á við aðra þ.e. einstaklingar sem hafa bæði réttinn og getuna til að taka eigin ákvarðanir. Hér á eftir er fjallað um nokkur af þeim efnisatriðum sem fram koma í fyrirliggjandi drögum að sáttmála.

Grundvöllur sjálfsákvörðunar
Sjálfsákvörðunarrétturinn og það að fá ákvörðun sína virta af öðrum er sá grundvöllur sem önnur réttindi sem sáttmálinn kveður á um byggjast á, því án hans er fötluðum meinuð þátttaka í samfélaginu til jafns við aðra. Lögð er áhersla á að fatlaðir séu ekki sviptir réttindum sínum, heldur að samfélagið veiti þann stuðning, sem nauðsynlegur er hverju sinni, fyrir hinn fatlaða til að geta greint frá vilja sínum og tekið ákvarðanir um eigið líf.

Skóli án aðgreiningar
Fatlaðir eiga rétt til menntunar án nokkurrar mismununar. Til að fatlaðir búi við jöfn tækifæri á við aðra þarf að tryggja að fatlaðir hafi aðgang að menntakerfi sem er án aðgreiningar á öllum skólastigum og býður upp á nám í gegnum allt lífið. Fatlaðir eiga rétt á stuðningi til samræmis við einstaklingsbundnar þarfir sínar sem tryggja á hámarks árangur í námi og félagsþroska og stuðla þannig að fullri samfélagsþátttöku þeirra. Þá þarf að tryggja að til kennslu ráðist fólk með sérþekkingu á fötlunum, óhefðbundnum tjáskiptaleiðum og öðrum sérkennsluaðferðum til að hægt sé að koma til móts við þarfir fatlaðra nemenda.

Sjálfstæð búseta
Fatlaðir eiga jafnan rétt á við aðra til að lifa í samfélaginu, velja sér búsetuform, hvar þeir búa og með hverjum. Fatlaðir eiga ekki að þurfa að sæta því að vera þvingaðir til að búa í tilteknu búsetuúrræði. Að auki eiga fatlaðir rétt á stuðningi og þjónustu til að geta tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun.

Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu
Fatlaðir eiga rétt á því að vera ekki truflaðir í sínu fjölskyldu- og einkalífi. Þeir eiga einnig rétt á að stunda kynlíf, stofna til hjónabands og eignast börn. Undir engum kringumstæðum er það réttlætanlegt að taka barn af foreldrum sínum einungis á þeim forsendum að foreldrarnir séu fatlaðir.

Réttindagæsla og bann við mismunun
Lögð er áhersla á að ríkið ábyrgist fötluðum árangursríka lagalega vernd gagnvart mismunun og stuðning til að gæta réttar síns almennt. Í því felst að grípa þarf til aðgerða til að koma í veg fyrir misnotkun og að stuðningurinn felist í því að virtur sé réttur hins fatlaða, vilji hans og langanir. Þessi stuðningur á að vera sniðinn að þörfum hins fatlaða, tímabundinn, laus við hagsmunaárekstra gagnvart þeim sem almennt veita fötluðum þjónustu og undir eftirliti óháðs aðila eða dómstóls.

Næstu skref
Ofantalið er aðeins stutt úttekt á helstu atriðum úr þeim 50 greinum sem sáttmáladrögin hljóða á um, en gefa góða mynd af því hvaða marki að er stefnt. Samkomulag hefur náðst um sáttmáladrögin sem verða bráðlega lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til formlegrar samþykktar. Eftir það tekur hvert aðildarríki fyrir sig afstöðu til þess hvort það ætli að staðfesta sáttmálann og þegar ákveðnum lágmarksfjölda ríkja er náð telst sáttmálinn hafa öðlast gildi. Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að lögfesta þá mannréttindasáttmála sem ríkið hefur staðfest. Áhrif lögfestingar eru þau, að þar með víkja ákvæði íslenskra laga fyrir ákvæðum sáttmálans ef upp kemur ósamræmi auk þess sem hún veitir einstaklingum tækifæri til að byggja rétt sinn á ákvæðum sáttmálans.
Fatlaðir eiga oft, fötlunar sinnar vegna, erfiðara með að gera sér grein fyrir réttindum sínum eða sækja rétt sinn heldur en þeir sem ekki búa við fötlun. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekist á hendur það erfiða verkefni að útbúa sáttmála í þeim tilgangi að tryggja að jafnvel raddir þeirra, sem ekki geta talað, heyrist. Þess er óskandi að íslensk stjórnvöld taki sér þessa framtíðarsýn til fyrirmyndar og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa samfélag þar sem fatlaðir búa í raun við sömu réttindi og virðingu og aðrir.

Höfundur er þroskaþjálfi og lögfræðinemi.