Skip to main content
Greinar

Að hafa hugrekkið til að lifa lífinu

By desember 16, 2015No Comments

Titillinn segir í raun allt sem segja þarf. Þetta virðist vera einfalt en flestir kannast við það að það krefst ótrúlegs hugrekkis að þora að lifa lífinu til fulls. Flest sitjum við í viðjum vanans og lifum öruggu lífi. Við erum flest hrædd við breytingar og hvað þær fela í sér. Mörg erum við óhamingjusöm í okkar fasta lífi en okkur vantar hugrekkið sem krefst þess að breyta til. Hvað ef…er hugsun sem fær mörg okkar til að sleppa því að breyta til og halda áfram að lifa lífinu eins og það er, án þess að breyta til og taka áhættuna.

Eitt af mínum uppáhalds lögum sem fær mig yfirleitt til að fá sting í magann og næstum tár í augun er lagið „Rise up“ eftir Beyoncé, þetta er titillag myndarinnar Epic sem er líka stórskemmtileg teiknimynd. Þetta lag hefur einstaklega fallegan boðskap og virkar alltaf hvetjandi á mig. Minnir mig á að lífið hefur meira að bjóða en það sem við sjáum bara dags daglega og að vera óhræddur að fara á eftir draumunum sínum, sama hversu neikvæðir aðrir í kringum mann eru. Draumurinn er þinn, ekki annarra.

Versti óvinur manns er yfirleitt maður sjálfur. Ég á það til að tala mig niður, þegar ég gleymi því hver ég er, hvað ég hef gert og hvað ég hef afrekað í mínu lífi. Ég átti mína drauma, drauma sem einungis fáir trúðu á, flestir töldu mig vera bara uppi í skýjunum, svona lagað gengi lífið ekki fyrir sig. En það sem enginn má gleyma er að það getur enginn sagt hvernig lífið gengur fyrir sig. Ég ákvað að líf mitt myndi ganga svona fyrir sig, alveg óháð því hvað aðrir sögðu, þetta var ekki þeirra draumur, þetta var minn draumur.

En í þessu stórkostlega lagi sem ég hlusta reglulega á og gleðst í leiðinni yfir því hversu langt ég er komin í eigin draumi er að standa með sjálfum sér, rísa upp og berjast fyrir sínu. Það getur enginn sagt að þetta sé ekki hægt, það er kannski ekki hægt á nákvæmlega þessari stundu og flestir draumar taka tíma en þetta eru allt lítil skref og mörg lítil skref búa til eitt stórt og í þá átt liggur draumurinn. Hann tekur tíma en meðan maður stefnir þangað þá kemst maður á leiðarenda, aðalmálið er að gefast ekki upp, að stoppa ekki á miðri leið og að hlusta ekki á þær raddir sem trúa ekki á drauminn. Það þarf enginn að trúa á hann nema maður sjálfur, það er það eina sem þarf.

Í þessu lagi segir nefnilega einnig að maður eigi ekki að vera hræddur um að fórna því öllu og ég er sammála þeim boðskap. Flest allt í lífi okkar eru veraldlegir hlutir sem, þegar allt kemur til alls, skipta ekki máli. En flest erum við skíthrædd við að losa okkur við þá, við höldum fast í hluti sem skipta í raun og veru ekki máli fyrir okkur og erum óhamingjusöm á meðan. Við flýjum okkar raunverulegu hamingju meðan við eltum uppi það sem skiptir ekki máli.

Ég er ekkert saklaus þarna frekar en nokkur annar þar sem mig dreymir iðulega um veraldlega hluti, stórt hús, nýjan bíl, nýja tölvu, meiri peninga. En þó ég ætti þetta þá væri það ekki það sem myndi skapa mína hamingju, hún kemur innanfrá. Hún kemur frá umhverfinu sem ég skapa mér, fólkinu sem ég vel í kringum mig og fjölskyldunni minni. Ég væri ekki hamingjusamari í einbýlishúsi heldur en trjákofa ef ég hefði ekki fjölskylduna í kringum mig.

Nú hvet ég alla mína lesendur (sem eru vonandi fleiri en bara ég :) ) til að muna eftir sínum sönnu draumum og ekki að vera hræddir að fara eftir þeim, munið eftir fólkinu sem skiptir raunverulega máli í ykkar lífi og haldið þeim nærri, það er fólkið sem þið viljið hafa þegar á reynir og rísið upp og berjist!

Greinin birtist á vefsíðu kvennablaðsins.