Skip to main content
Fréttir

Nýjar aðferðir geta skilað meiri árangri.

By desember 17, 2013No Comments

Auður og sjal
Nýjar aðferðir geta skilað meiri árangri.
Auður Axelsdóttir vill þróa nýjar aðferðir á Íslandi til að taka á bráðatilvikum hjá alvarlega geðveikum. Það spari fjölskyldum bæði fjármagn og sársauka. Nýjar aðferðir krefjast endurmenntunar hjá heilbrigðisstarfsfólki og nýrra viðhorfa.
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi telur nauðsynlegt að þróa nýjar aðferðir til að taka á alvarlegum geðrænum veikindum, líkt og þeim sem koma upp þegar einstaklingar eru nauðungarvistaðir.

Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi telur nauðsynlegt að þróa nýjar aðferðir til að taka á alvarlegum geðrænum veikindum, líkt og þeim sem koma upp þegar einstaklingar eru nauðungarvistaðir. Hún telur að aukin stuðningur inni á heimilum þegar upp koma bráðatilvik geti sparað fjölskyldum bæði fjármagn og sársauka. Í starfi sínu lítur hún til finnskrar aðferðar sem byggir á samstarfi fagfólks, fjölskyldu og þess sem veikist.

„Við höfum séð það þegar við förum á staðinn til að styðja fjölskyldur í bráðatilvikum, að þá er ekki ljóst hvort þurfi að nauðungarvista eða hvernig maður eigi að gera það, og upplýsingarnar liggja ekki á lausu,“ segir Auður sem er forstöðumaður Geðheilsu – eftirfylgdar, samfélagsgeðþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar er meðal annars stutt við geðsjúkt fólk og aðstandendur þeirra á heimilum þeirra.

Opið samtal við sjúklinga.

Í starfi sínu lítur Auður til aðferðar sem þróuð hefur verið í Vestur-Lapplandi í Finnlandi undanfarin þrjátíu ár. Aðferðin heitir „opið samtal“ (e. open dialog) og gengur út á að aðstoða fólk í geðrofi, en geðrof er sturlunarástand þar sem raunveruleikatengsl verða óljós og viðkomandi upplifir stjórnleysi í aðstæðum. Farið er á vettvang og unnið með fjölskyldu og öðrum í nærumhverfi sjúklingsins.

„Við erum að aðeins að fikra okkur áfram með þessi prinsipp sem þeir styðjast við, að vinna í heimahúsum og að hægt sé að ná í okkur þegar upp koma erfiðar aðstæður, þótt teymið okkar sé það lítið að við getum ekki sinnt öllu sem kemur upp,“ útskýrir Auður.

Í Vestur-Lapplandi starfar teymi sem fjölskyldur geta leitað til allan sólarhringinn. Þegar upp koma bráð veikindi mæta tveir starfsmenn teymisins á staðinn og stýra umræðum með sjúklingi og aðstandendum.

„Þau fá fram öll sjónarhorn frá fjölskyldunni og farið er yfir það hvers vegna viðkomandi veiktist. Kom eitthvað upp á? Hvað er viðkomandi að tjá? Hvað er að? Það er engin ákvörðun eða umræða tekin nema með öllum hópnum og þeim sem er veikur líka,“ segir Auður, en fagfólkið kemur úr öllum heilbrigðisstéttum.

Munur á afstöðu til geðrofs.

Auður segir grundvallarmun vera á afstöðu finnsku aðferðarinnar til geðrofs og því sem þekkist hér á landi. „Það er ekki litið á geðrof sem sjúkdóm sem sé kominn til að vera, heldur líðan og ástand. Því viðkomandi getur hafa lent í aðstæðum sem sál og líkami réðu ekki við,“ segir hún.

Hún segir fagfólkið koma inn í aðstæðurnar án þess að hafa fastmótaðar skoðanir eða verklag sem þurfi að fylgja. „Það er ekki byrjað á því að nota lyf – það er byrjað á því að tala saman. Og oftast kemur eitthvað upp sem er hægt að ræða og leysa, einhver samskiptamynstur eða áföll eða annað sem hefur verið erfitt fyrir alla fjölskylduna og einn veikist af því.“

Að opna og hlusta.

Auður segist hafa prófað sig áfram með þessar aðferðir. „Ég reyni að koma inn og mæta viðkomandi og fjölskyldunni á þeirra forsendum. Sá sem er í geðrofi hefur alltaf eitthvað að segja, honum líður illa. Að afgreiða hann sem einhvern sem ekki er hægt að ræða við getur haft slæmar afleiðingar,“ segir hún. „Ég held að bataferlið geti byrjað miklu fyrr ef við erum tilbúin til að opna
og hlusta á það sem einstaklingurinn er að segja.“

Fordómar í heilbrigðisstétt.

Auður bendir á að fordómana sé ekki síður að finna innan heilbrigðisstéttarinnar. „Ég lærði til dæmis í náminu mínu að maður ætti að halda ákveðinni fjarlægð og ekki að hlusta á það sem viðkomandi tjáir í geðrofi,“ segir hún, en bætir við að hún hafi fyrir löngu hafnað þeim hugmyndunum.

„Það þarf að endurmennta heilbrigðisstarfsfólk, því ef viðkomandi einstaklingur þarf að nota veikindin sín til að vera í togstreitu við kerfið, við heilbrigðisstarfsfólk og kannski fjölskylduna sem hefur neyðst til þess að grípa inn í, þá segir það sig sjálft að auðvitað tekur batinn lengri tíma,“ segir hún og bætir við að hún hafi fyrir löngu hafnað hugmyndunum sem kynntar voru í náminu.

Alúð þegar gripið er inn í.

„Það eru auðvitað bara mannréttindi að á mann sé hlustað. Ég veit að það þarf í sumum tilfellum að taka ráðin af fólki og nauðungarvista það. Þá er notuð þessi hefðbundna skilgreining að viðkomandi sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Það þarf þá að grípa inn í, en við þurfum að gera það af allri þeirri alúð sem við getum notað og líta geðrofið öðrum augum.“