Skip to main content
FréttirGreinar

Aðstandendur bera of mikla ábyrgð.

By desember 16, 2013No Comments

Kleppur
Aðstandendur bera of mikla ábyrgð
Verklag við nauðungarvistanir á Landspítalanum þvingar aðstandendur geðsjúks fólk til að skrifa undir beiðni um nauðungarvistun, sem skilur margar fjölskyldur eftir í sárum. Á Akureyri er annað verklag og sér félagsþjónustan um umsóknirnar.

Á byrgðin sem fellur á hendur aðstandendum þegar nauðungarvista á geðsjúkt fólk er gagnrýnd af fagfólki og aðstandendum sjálfum.

Ábyrgðin sem fellur á hendur aðstandendum þegar nauðungarvista á geðsjúkt fólk er gagnrýnd af fagfólki og aðstandendum sjálfum. Vandinn felst í því að þegar sækja á um nauðungarvistun til innanríkisráðuneytisins þarf undirskrift ættingja, lögráðamanns eða sveitarfélags. Í flestum tilfellum á Landspítalanum skrifa ættingjar undir beiðnina og veldur það oft sárindum og illdeilum innan fjölskyldna. „Við vitum að þetta er vandamál og það gerist of oft að aðstandendur eru beðnir um að skrifa undir. Það er samt orðið betra samstarf núna við velferðarsvið borgarinnar og við stefnum að breytingu,“ segir Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir bráða- og mótttökusviðs geðdeildar Landspítalans.

Sömu reglur – annað verklag

Á Akureyri hefur verið unnið með öðrum hætti undanfarin fimmtán ár, þar sem aðstandendur koma aldrei að nauðungarvistunum nema þeir óski sérstaklega eftir því. Á heimasíðu spítalans segir að yfirlýst stefna deildarinnar sé að vera í nánu samstarfi við heilsugæsluna og aðra velferðarþjónustu sem sinnir málefnum geðsjúkra.

„Það eru alveg sömu reglur hér og í Reykjavík en það er kannski útfærslan sem er ólík,“ segir Guðrún Geirsdóttir, yfirlæknir bráðaþjónustu geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á Akureyri var gert samkomulag við félagsþjónustu bæjarins um að hún hefði umsjón með umsóknum um nauðungarvistanir í stað aðstandenda. „Þar kemur smæðin inn,“ segir Guðrún en á Akureyri eru um fimm til tólf einstaklingar nauðungarvistaðir ár hvert.

Samstarf við félagsþjónustu

„Ef okkur sýnist heppilegt að sveitarfélagið létti þessu af fjölskyldunni er engin tregða hjá félagsþjónustunni hér norðan- og austanlands,“ staðfestir Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Hann segir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu síður hafa viljað að taka að sér þetta hlutverk. „Ég veit ekki af hverju. Þetta er svo viðkvæmt að svipta einhvern í fjölskyldunni frelsi, að það kemur sér vel ef sveitarfélögin vilja taka það að sér,“ segir hann.

Sækja fyrst um leyfi

Það hefur einnig áhrif á verklagið á Akureyri að reynt er komast hjá því að nauðungarvista fólk án leyfis frá innanríkisráðuneytinu. Meiri tími er því tekinn í undirbúning mála. Samkvæmt lögunum má vista fólk í allt að 48 klukkustundir, sem krefst hvorki samþykkis aðstandenda, sveitarfélaga né ráðuneytis. „Við viljum að málið sé rannsakað svo vel að pappírarnir frá innanríkisráðuneytinu um tuttugu og eins dags nauðungarvistun séu tilbúnir þegar leggja á sjúklinginn inn,“ segir Sigmundur, en ítrekar að ef hætta sé á ferð sé fólk lagt inn strax og umsóknin afgreidd eftir á. Hann segir málin oftast eiga sér nægan aðdraganda og því auðsótt að ganga frá öllum lausum endum áður en kemur að innlögn. „Smæðin, fámennið og persónuleg tengsl hér fyrir norðan hafa því mikil áhrif á verklagið,“ segir Sigmundur, en bendir jafnframt á að hlutfall nauðungarvistana, miðað við allar innlagnir, sé samt sem áður svipað milli landshluta.

Aðstandendur vita best

„Rökin um að ættingjar taki þátt í að nauðungarvista fólkið sitt eru að þeir standa þeim næst og vita best hvað þarf, en það eru mýmörg dæmi um að það skapi vandamál,“ segir Sigurður Páll Sigurðsson, yfirlæknir öryggis- og réttargeðþjónustu Landspítalans. Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri og forsvarsmaður Geðverndarfélags Akureyrar, tekur í sama streng. „Þar sem ég þekki til á Norðurlöndum eru það gjarnan aðstandendur sem skrifa undir til að gæta mannréttinda þeirra sem skal nauðungarvista.“

Gengur ekki fyrir Reykjavík

Tómas Zoëga, yfirlæknir á geðsviði Landspítalans, segir erfitt að sjá að fækkun 48 klukkustunda nauðungavistana gæti gengið upp í Reykjavík. „Yfirsýnin er meiri í minni sveitarfélögum. Hér getur fólk komið inn fárveikt og án þess að hafa fengið þjónustu áður. Þá höfum við 48 klukkustundir til að meta stöðuna, sem er helmingi lengri tími heldur en lögreglan fær þegar hún handtekur fólk,“ segir hann. „Í minni sveitarfélögum hefur einhver yfirsýn yfir feril fólksins, en hér getum við ekki beðið,“ bendir Tómas á, en hann segir erfitt að meta fárveikt fólk utan stofnana.

Persónulegra kerfi

Þegar Sigmundur er spurður að því hvers vegna verklagið hafi þróast með svo ólíkum hætti milli landshluta virðist skýringin liggja í ólíkri menntun yfirmanna, „Verklagið hefur mikið farið eftir yfirmönnunum og það hefur áhrif hvar þeir eru menntaðir og hverju þeir eiga að venjast. Ég þekkti til dæmis lögræðislögin mjög vel og var álitsgjafi við gerð þeirra á sínum tíma,“ segir Sigmundur sem hóf störf við Sjúkrahúsið á Akureyri árið 1985. Hann segir engar reglugerðir vera til um verklag nauðungarvistana eða aðbúnað á deildum sem taka við sjúklingunum, sem útskýri einnig ólík vinnubrögð og áhrif yfirmanna.

Smæðin hjálpar

„Á Íslandi reynum við frekar að telja fólk á að leggjast inn og tökum okkur meiri tíma, og hér fyrir norðan er þetta býsna persónulegt, en kerfið er auðvitað stærra í Reykjavík,“ segir Sigmundur, en smæð samfélaga og almenn viðhorf til nauðungarvistana á Íslandi virðast einnig hafa jákvæð áhrif. „Hér á Íslandi lítum við á nauðungarvistanir sem mannréttindamál og þess vegna setjum við þær undir hatt lögræðislaganna en ekki í sérlög um geðsjúka. Það er nokkuð sérstakt í samanburði við löggjöf í nágrannalöndunum,“ útskýrir Sigmundur. Hann telur að þessi tilhögun hafi meðal annars átt þátt í að Ísland er með lægsta hlutfall nauðungarvistana á Norðurlöndunum.

Kleppur Knútur

Hefur áhrif á samskipti innan fjölskyldna

„Það átta sig ekki allir á afleiðingunum af nauðungarvistun, en hún setur mark sitt á framtíðina. Sjúklingurinn á oft erfitt með að sætta sig við það að hafa verið nauðungarvistaður og það ríkir oft vantraust. Samskiptin innan fjölskyldunnar eru slök til framtíðar, því nauðungarvistun brýtur sjálfsmynd fólk í klessu,“ segir Knútur Birgisson, MA í fötlunarfræði, en í rannsókn hans á alvarlegum geðsjúkdómum í fjölskyldum kom í ljós að leiðin inn á sjúkrahúsið með náinn ættingja reyndist fjölskyldunum torveld.

Í rannsókn Knúts kemur fram að þegar upp komi geðræn veikindi grípi um sig mikil skelfing innan fjölskyldna. „Það lýsir sér í því að fólk leitar ekki oft til heilsugæslunnar, heldur fer beint á geðdeildina í staðinn.“ Hann segir fjölskyldurnar hafa upplifað viðtökurnar á spítalanum sem mjög kerfisbundnar og of bundnar við lyfjameðferð, „Og ef lyfin virka, þá er útskrifað,“ segir Knútur. „Það vantar fleiri leiðir, til dæmis fjölskyldumeðferð. Þetta er fjölskyldusjúkdómur en ekki einstaklingssjúkdómur,“ vill Knútur meina.

Kleppur auður
Brotið á aðstandendum og sjúklingum

Auður Axelsdóttir, forstöðukona Geðheilsu – eftirfylgdar, geðheilbrigðisþjónustu á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að þegar kemur að því að taka ákvörðun um nauðungarvistun.

Auður Axelsdóttir, forstöðukona Geðheilsu – eftirfylgdar, geðheilbrigðisþjónustu á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að þegar kemur að því að taka ákvörðun um nauðungarvistun sé aðstandendum gjarnan sagt að þeir þurfi að skrifa undir því það sé fljótlegast. „Fólki er ekki sagt frá því að velferðarsvið eða sveitarfélag geti séð um eða óskað eftir nauðungarvistun. Þar er í raun brotið á aðstandendum og sjúklingum,“ segir Auður, sem segir að þeir sem vinni áfram með fjölskyldunum sjái hvað gerist eftir á þegar verða særindi og samskiptin erfið.

„Staðan sem kemur upp þegar nauðungarvista á fólk er erfið fyrir aðstandendur og þeir þurfa á stuðningi að halda til að taka þessa ákvörðun. Það ríkir yfirleitt mikill ótti við veikindin og við sjálfsvígshættuna. Þetta er í raun ákvörðun sem er ómögulegt fyrir fólk að taka,“ segir Auður, en í starfi sínu aðstoðar hún fjölmargar fjölskyldur í þessum aðstæðum.

Auður segist hafa lært að mikilvægt sé að hlúa að aðstandendum eftir að nauðungarvistunin er úr garði gengin og í sumum tilfellum sé prestur kallaður til. „Það er líka mjög mikilvægt að tala við börn ef þau eru á staðnum og fylgja þeim eftir í einhvern tíma, því áfallið getur verið mikið,“ útskýrir hún, en Geðheilsa – eftirfylgd hefur litið til finnskrar aðferðar, opins samtals, þar sem rík áhersla hefur verið lögð á samstarf fagfólks, sjúklings og aðstandenda þegar upp koma bráð veikindi.

Kleppur rit

„Lítið eða ekkert sjúkdómsinnsæi er algengt einkenni alvarlegra geðsjúkdóma og þess vegna getur reynst vandkvæðum bundið að telja viðkomandi fjölskyldumeðlim á að leita sér læknishjálpar. Oft er ástandið orðið svo alvarlegt að því má líkja við neyðarástand sem endar með því að aðstandendur neyðast til að fara fram á sjálfræðissviptingu. Í fyrstu er því hlutverk aðstandenda að leysa bráðavanda.“

„Gagnrýni Guðrúnar á sjálfræðissviptingu beinist í fyrsta lagi að þeirri litlu opinberu aðstoð sem fólki er veitt í slíkum aðstæðum og í öðru lagi að því hvernig sviptingin er framkvæmd. Hún tekur sem dæmi að aðstæður séu oft þess eðlis að eðlilegra og mannúðlegra væri að senda sjúkrabíl á staðinn frekar en lögreglubíl. Með öðrum orðum að gera valdbeitinguna síður sýnilega.“

Brot úr meistararitgerð Knúts Birgissonar um alvarlega geðsjúkdóma í fjölskyldum – nöfnum viðmælenda var breytt.