Við erum stolt af Unghugum Hugarafls sem er líflegur hópur af ungu fólki á aldrinum 18-30 ára. Þau hafa útbúið sér stefnu og sýn sem leiðir starf þeirra. Stefna Unghuga hljómar svona:
~Fyrirmyndir~
Unghugar eru fyrirmyndir fyrir annað ungt fólk í sjálfsvinnu. Í Unghugum hvetjum við hvort annað áfram til að stíga út fyrir þægindarammann, skora á okkur sjálf og vaxa sem einstaklingar. Í Unghugum er svigrúm til að taka að sér ábyrgð t.d. skipuleggja verkefni, vera fundarstjóri eða -ritari með stuðningi jafningja. Við fögnum fjölbreytileikanum og hér á að vera öruggur staður til að vera maður sjálfur. Við hvetjum hvort annað, veitum stuðning, fáum stuðning og berum virðingu fyrir hvort öðru. Við tökum vel á móti nýliðum og gætum þess að fólk finni að það sé velkomið í hópinn.
~Bati~
Starfsemi Unghuga styður okkur til að skilgreina sjálf hvað felst í okkar bata, vinna að honum og komast aftur út í lífið. Í Unghugum fáum við tækifæri til að vinna okkar batavinnu í samfélagi með öðru fólki, læra af öðrum, rjúfa félagslega einangrun og taka þátt í hópi. Við aukum virkni okkar, setjum okkur markmið og vinnum að þeim markmiðum með öðru ungu fólki. Við tilheyrum hópnum Unghugar. Við tökum mark á hvort öðru og viljum heyra raddir og skoðanir sem flestra. Unghugar trúa því að allir geti náð bata af geðrænum áskorunum og markmið okkar er að vera góður vettvangur fyrir ólíka aðila til að finna sína leið í átt að bata.
~Stærra en við sjálf – valdefling~
Unghugar hafa áhrif út fyrir hópinn sjálfan. Við vinnum að því að uppræta fordóma, opna umræðu um geðheilbrigðismál og bæta geðheilbrigðiskerfið. Við notum söguna okkar, reynslu og þekkingu til að hafa jákvæð áhrif í samfélaginu. Í því skyni tökum við til dæmis þátt í málþingum, komum fram í fjölmiðlum og opnum viðburðum og skipuleggjum verkefni hérlendis sem og erlendis.