Skip to main content
Fréttir

Kyrrðarstundir í Reykjavík og Akureyri 10.september

By september 9, 2013No Comments

Kyrrðarstundir í Reykjavík og á Akureyri

                       

Í tilefni alþjóðadags sjálfsvígsforvarna  þriðjudaginn 10. september, verða haldnar kyrrðarstundir í Dómkirkjunni í Reykjavík og Glerárkirkju á Akureyri kl. 20:00 til að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi

Samkoman í Dómkirkjunni er á þessa leið:

  • Halldóra      Kristín Halldórsdóttir segir frá reynslu sinni sem aðstandandi.
  • Sr.      Svavar Stefánsson flytur hugvekju.
  • Tónlistarflutningur:      Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona og Kári Þormar organisti.

Að lokinni athöfn í kirkjunni verður gengið niður að Tjörn þar sem kertum verður fleytt í minningu þeirra sem fallið hafa frá fyrir eigin hendi. Gula slaufan, tákn þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi, verður seld í Dómkirkjunni.

Samkoman er á vegum þjóðkirkjunnar, Embættis landlæknis, geðsviðs LSH, Nýrrar dögunar, LIFA, landssamtaka aðstandenda eftir sjálfsvíg, Hugarafls, Rauða krossins og Geðhjálpar.

Samkoman í Glerárkirkju er á þessa leið;

  • Aðstandandi      segir frá reynslu sinni
  • Valmar      Väljaots og Rúnar Eff annast tónlistarflutning.
  • Sr.      Arna Ýrr Sigurðardóttir leiðir stundina
  • Kveikt      á kertum til minningar um þau sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Eftir stundina verður kynning á starfi Samhygðar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð og LIFA, landssamtaka aðstandenda eftir sjálfsvíg.

Þrá eftir frelsi – ný bók fyrir aðstandendur eftir sjálfsvíg

Nýlega kom út bókin Þrá eftir frelsi, leiðarvísir fyrir aðstandendur eftir sjálfsvíg. Annar höfunda er Beverly Cobain geðhjúkrunarfræðingur og frænka Kurt Cobain söngvara Nirvana en hann féll fyrir eigin hendi eins og kunnugt er.

Bókinni er ætlað að styðja aðstandendur á þeirri erfiðu sorgargöngu sem tekur við eftir dauðsfall af völdum sjálfsvígs. Bókin er styrkt af minningarsjóði Orra Ómarssonar og í minningu hans.

Almennt um sjálfsvíg

Tíðni sjálfsvíga á Íslandi er nú um 12,8 sjálfsvíg á hverja 100.000 íbúa. Þessi tala sveiflast mikið milli ára og er hér miðað við nokkurra ára meðaltal. Þetta þýðir að:

Tveir til þrír einstaklingar svipta sig lífi í hverjum mánuði á Íslandi að meðaltali.Karlar eru mun líklegri en konur til að svipta sig lífi, en konur gera mun fleiri sjálfsvígstilraunir. Það hefur lengi valdið áhyggjum hve sjálfsvíg karla undir 25 ára aldri eru mörg, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim. Orsakir eru óljósar og eflaust margþættar, en ekki er ólíklegt að örar félagslegar breytingar, jafnvel breytingar á samfélagslegri stöðu karlmanna kunni að valda einhverju þar um.