Skip to main content
Fréttir

20 ára afmæli Hugarafls

Grein birt á mbl.is 5.júní 2023

Hugarafl 20 ára, einstakur árangur.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Hugarafl var stofnað árið 2003 af einstaklingum sem vildu sjá breytingar á geðheilbrigðiskerfi Íslendinga. Þann 5.júní fögnum við 20 ára afmæli og því áhugavert að líta á stöðuna í dag. Undanfarin misseri hafa verið gerðar úttektir á árangri Hugarafls og það er óhætt að segja að niðurstöður eru vægast sagt ánægjulegar. Þar kemur fram að hjá Hugarafli er að finna yfirgripsmikla þjónustu fyrir fjölbreyttar þarfir.

Í þjónustukönnun sem unnin var fyrir Hugarafl af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í september 2022 kemur fram að 83% þeirra sem leita til Hugarafls segja að líðan þeirra hafi verið slæm eða mjög slæm þegar fyrst var leitað til Hugarafls. Þar af voru 42% sem glímdu við mjög alvarlega vanlíðan. Eftir veruna í Hugarafli lækkar sú tala niður í 4% og einungis 15% segja líðan sína slæma í dag. 40% greindu frá því að starfsgeta þeirra jókst á tímabilinu. 90% notenda voru ánægðir með þjónustuna og 3% óánægð. 61% þátttenda lýsti því að þjónustan hafi farið fram út væntingum. Hér er aðeins stiklað á stóru en það verður að segjast að hér er vísbending um að Hugarafl sé að ná mjög eftirtektarverðum árangri sem verður að taka tillit til.

Í annarri úttekt sem gerð var nýlega vegna endurnýjun samnings Hugarafls og Velferðasviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að af þeim 46 einstaklingum sem vísað hefur verið til Hugarafls á grundvelli samningsins til tveggja ára reiða 67% sig ekki lengur á fjárhagsaðstoð til framfærslu. Með orðum sviðssjóra Velferðarsviðs „Það er ánægjulegt að við höfum endurnýjað samninginn við Hugarafl. Þar fer fram mikilvægt starf sem hefur skilað sér í auknum lífsgæðum fyrir einstaklinga sem glíma við andleg veikindi. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.

Af hverju vildum við breytingar? Öll höfðum við reynslu á eigin skinni af því hvernig geðheilbrigðiskerfið virkaði og hvernig þjónustan var. Við vildum sjá breyttar áherslur og mannúðlegri nálgun. Hvers vegna, jú við vissum að vanlíðan eða þjáning stafar yfirleitt af áföllum eða vöntun á stuðningi. Þörfin fyrir hlustun, nánd og manngæsku er rík þegar þjáning verður allt að því óbærileg. Það þarf ekki að greina eða stimpla þjáninguna. Þegar í öngstræti er komið eru tengsl og nánd það sem getur rofið þá einangrun og þann ótta sem hefur skapast við það að missa stjórn og von.

Við ákváðum að gera „byltingu“ og lögðum á ráðin sumarið 2003. Sátum í Grasagarðinum tvisvar í viku og deildum skoðunum okkar, löngunum og draumum. Þessi fimm manna hópur hafði stóra drauma, hugsjónir og vilja til að nýta kraftana fyrir breytingum. Það að þrýsta á breytingar krefst seiglu og áræðni og það að ýta við stöðnun er ekki einfalt. Stöðnun gefur engin fyrirheit um breytingar eða nýjar leiðir. Öll þurfum við val og fjölbreytta möguleika þegar leita þarf þjónustu, við pössum ekki öll inn í sama formið og höfum mismunandi þarfir.

Þegar við lögðum af stað óraði okkur ekki fyrir þeirri þróun sem við getum horft yfir á 20 ára tímabili. Í upphafinu vorum við lítill hópur sem þráði að sjá breytt landslag með áherslu á valdeflingu, bata og mannréttindi. Við ákváðum að sýna það í verki að hægt væri að stuðla að bata með öðrum leiðum, leiðum sem efla sjálfstæði, forsendur einstaklingsins eða fjölskyldunnar, leiðum sem auka batalíkur og virka þátttöku í samfélaginu.

Til Hugarafls leita um 800 manns á ári og á hverjum tíma eru í kringum 200 einstaklingar í virkri þjónustu, endurhæfingu og bataferli. Í Hugarafli fer fram öflugt starf í viku hverri með metnaðarfullri dagskrá sem mótuð er af notendum og fagfólki í sameiningu. Hugsjónirnar eru aldrei langt undan og það að tilheyra valdeflandi samfélagi Hugarafls skapar samkennd og ómetanlega trú á lífið og tilveruna. Hugarafl er opið öllum landsmönnum og ekki er gerð krafa um tilvísanir eða sjúkdómsgreiningar. Covid kenndi okkur á fjarfundarbúnaðinn svo fjarlægðir eru ekki lengur hindrun.

Viljinn til breytinga, hugsjónin og hugmyndafræðin sem lagt var upp með í Hugarafli fyrir 20 árum hefur sýnt fram á að það er löngu komin tími til að fara frá sjúkdómsvæddu geðheilbrigðiskerfi og inn í aðra nálgun sem byggir á bata og valdeflingu, sjálfræði og sjálfstæði. Árangur Hugarafls er sterkt ákall á breyttar áherslur í geðheilbrigðiskerfinu sem má ekki hunsa.

 

Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls