Notendur Hugarafls og Geðheilsu- og eftirfylgdarteymisins (GET) stóðu í dag fyrir þöglum mótmælum við Velferðarráðuneytið, sem hófust kl. 13:00. Tilefni mótmælanna er það að leggja á niður Geðheilsu- og eftirfylgdarteymið, sem hefur verið starfandi innan heilsugæslunnar síðastliðin fimmtán ár og draga úr stuðningi við Hugarafl.
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi og forstöðumaður GET sagði í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í gær að hún hefði reynt að fá rökstuðning fyrir því í heilt hvers vegna leggja ætti teymið niður, án þess að fá svör.
Hugarafl er samstarfshópur notenda og fagfólks þar sem notendaþekking og hópastarf er í forgrunni og hafa samtökin unnið við hlið GET allt frá stofnun fyrir fimmtán árum síðan. Aðstandandendur mótmælanna segja í fréttatilkynningu að samstarfi sem þessu hafi verið lýst af sérfræðingum sem framtíð geðheilbrigðisþjónustu.
„Það er því ljóst að með því að slíta í sundur samstarf sem þetta er verið að hverfa aftur til fortíðar, taka valdið af notendum, og skerða valmöguleika þeirra sem þurfa á þjónustu að halda vegna andlegra erfiðleika,“ segir í fréttatilkynningu mótmælenda, sem skora á heilbrigðis- og félagsmálaráðherra að taka ábyrgð á stöðu mála og gera sér grein fyrir því að fjöldi fólks missi mikilvæga þjónustu.
Einnig er skorað á ráðherra að tryggja það að notendum geti fengið sambærilega þjónustu og að boðið verði upp á öruggt húsaskjól svo áfram verði hægt að sinna öflugu hópastarfi með virkri þátttöku notenda.
„Þetta eru ráðherrar okkar notenda og sem slíkir ættu þeir að sjá sóma sinn í að hlusta á raddir okkar, virða þá reynslu sem við búum að, og taka þörf okkar á mismunandi úrræðum til greina,“ segir í tilkynningunni.