Mynd um störf Svend Richter hlutskörpust í stuttmyndasamkeppni Rannís og Lífsmynda
Meingenaleit
Í öðru sæti var hópur nemenda úr Iðnskólanum í Reykjavík sem gerði myndina Dr. Doddi, þau Ásta María Sigmarsdóttir, Daði Daðason, Einar Thorberg Guðmundsson og Ilija Tisma. Öll eru þau nemendur á upplýsinga- og fjölmiðlabraut skólans og að sögn Ástu Maríu unnu allir nemendur í faginu Vefsíðugerð, myndbandagerð og myndvinnsla stuttmynd eftir stöðlum keppninnar og svo hafi hver hópur fyrir sig ákveðið hvort hann vildi senda myndina í keppnina.
Ásta María segir hópinn hafa ákveðið að fylgjast með Þórarni Blöndal sem vinnur við meingenaleit hjá Íslenskri erfðagreiningu. Í myndinni tekur hópurinn viðtal við Þórarin og fylgist með störfum hans sem ganga út á að finna gen sem valda sjúkdómum, segir Ásta María. Hún segir að hópnum hafi fundist meingenaleit áhugavert umfjöllunarefni vegna þess að ekki sé mikið talað um það í samfélaginu. Hópurinn fékk fartölvu í verðlaun.
Óhefðbundinn vísindamaður
Þær Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Guðný Elísabet Óladóttir, Katrín Jónsdóttir og Sif Hermannsdóttir, sendu inn myndina Why be Normal sem vann til þriðju verðlauna. Hópurinn er einnig við nám í Iðnskólanum í Reykjavík og vann myndina sem verkefni fyrir skólann. Fjallar mynd þeirra um Elínu Ebbu Ásmundsdóttur geðiðjuþjálfa. Segir Guðný Elísabet að þeim stöllum hafi fundist sniðugt að taka fyrir óhefðbundinn vísindamann, ekki þann vísindamann sem vinnur inni á rannsóknarstofu.
Í myndinni er talað við Elínu Ebbu og fylgst með henni þar sem hún fer í heimsókn til skjólstæðings en rannsóknarvinna hennar fer að mestu leyti fram heima hjá þeim. Elín Ebba hefur í fjölda ára unnið með geðsjúkum og með þeirra hjálp rannsakað og leitað leiða til að bæta líf þeirra. Hún er þátttakandi í verkefninu Hugarafl sem vinnur að verkefnum til að bæta geðheilbrigðisþjónustu. Hópurinn fékk stafræna myndavél í verðlaun og segir Guðný Elísabet að þá myndavél ætli hópurinn að gefa áfram til Hugarafls.
Með myndinni vildi hópurinn vekja upp umræðu um þennan hóp fólks, þ.e. fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Segir Guðný Elísabet að umræðan sé oft lítil og neikvæð um þessi mál.