Skip to main content
FréttirGreinar

„Við notum ekki ólar og belti“

By janúar 29, 2014No Comments

myndir úr Hugarafli 053Innlent | mbl | 29.1.2014 | 20:01 | Uppfært 21:02

„Við notum ekki ólar og belti“Sveinn Rúnar Hauksson frikki
Lára Halla Sigurðardóttir
larahalla@mbl.is

Sveinn Rúnar Hauksson læknir greindi frá reynslu sinni af nauðungarvistun sem sjúklingur, vinur og læknir, á málþingi Geðhjálpar sl. fimmtudag. Frásögn hans hefur vakið nokkra athygli en hann glímdi við geðræn vandamál sem tengdust mikilli kannabisneyslu fyrir rúmum fjörutíu árum í Þýskalandi.

„Ég hef fengið góð og jákvæð viðbrögð við erindinu,“ segir Sveinn Rúnar í samtali við mbl.is. Hann segist meðal annars hafa fengið góð viðbrögð frá einstaklingum sem starfa innan geðheilbrigðiskerfisins hér á landi. „Ég held að gagnrýni okkar á valdbeitingu hafi komist vel til skila.

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi Hún beinist ekki gegn starfsfólkinu, heldur að lagaumhverfinu. Það skiptir máli að maður finni að það sé sýnd virðing, að tekið sé mark á manni þó að maður eigi við þennan vanda að stríða. Þessi framkoma skiptir miklu máli.“

Sveinn Rúnar segir að þakklætið gagnvart þeim sem koma vel fram í starfi sínu sitji eftir og vakti hann sérstaklega athygli á því í erindi sínu. Erfiðara sé aftur á móti að eiga við tilfinningar sem snúa að þeim starfsmönnum sem eiga erfiðara með sig í starfinu. „Sjúklingur getur verið erfiður, það getur staðið illa á hjá starfsmanni og þá er framkoman ekki upp á sitt besta,“ segir Sveinn Rúnar. Hann tekur fram að þó að sjúklingar geri sér grein fyrir því að skýring geti verið á framkomu starfsfólksins, geti verið erfitt að takast á við tilfinningarnar og sitji þær eftir.

Ekki má taka út einn sjúklingahóp
Sveinn Rúnar er hluti af hóp sem vinnur að gerð óformlegrar greinargerðar um nauðungarvistun. Hópurinn sem vinnur að greinargerðinni er breiður, en hann skipa meðal annars fulltrúar notenda þeirrar þjónustu sem geðsjúkir þiggja hér á landi, fulltrúar aðstandenda þeirra, fulltrúar innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytisins, fulltrúar Landspítala, Reykjavíkur, fulltrúir Geðhjálpar, Hugarafls og fleiri. Hópurinn hittist á morgun og verður það vonandi síðasti fundur hópsins áður en að greinargerðinni verður komið áfram til ráðherra.

Sveinn Rúnar segist hafa lagt áherslu á að útrýma verði nauðung og valdbeitingu í geðheilbrigðisþjónustu í starfi sínu innan hópsins. „Það er ekki sætt á því taka út einn sjúklingahóp sem beita megi nauðung og að geðröskun geti réttlætt slíka aðgerð,“ segir hann og bætir við að Geðhjálp hafi sett sér það markmið að útrýma þessum atriðum úr geðheilbrigðisþjónustu.

Nauðungarmeðferð verði að útrýma
„Nauðung innan geðheilbrigðiskerfisins er minni hér á landi en í nágrannalöndunum,“ segir Sveinn Rúnar. „Hér hefur tekist að halda öðruvísi á þessum málum. Fjölskyldan er ef til vill sterkari hér á landi og heldur betur utan um sín mál og þá kemur seinna til nauðungar.“

„Við erum farin að þreifa okkur áfram með teymavinnu, fagfólk sem fer í vitjanir inn á heimili þegar kemur upp vandi,“ segir Sveinn Rúnar. Hann segir að þetta eigi líka við þegar sjúklingar eru komnir inn á geðdeild. „Við notum ekki ólar eða belti hér á landi líkt og gert er í öðrum löndum. Vandinn er þó ekki minni hér, við finnum bara aðrar leiðir.“

Sveinn Rúnar bendir á að nauðungarmeðferð sé enn beitt hér á landi. „Ef læknir ákveður lyfjagjöf, þá skal sjúklingur fá hana. Ef hann neitar er hann tekinn með valdi,“ segir hann. „Þessu verðum við að stefna að að útrýma og til þess þarf mannskap, þjálfun og tíma.“

Sveinn Rúnar segir að þær tillögur sem hann nefnir og hefur lagt fram við vinnu hópsins séu ekki aðeins hans persónulegu skoðanir. „Ef við ætlum að vera með geðheilbrigðisþjónustu á grunni alþjóðasáttmála um mannréttindi, þá verður þetta að breytast. Sáttmálinn um réttindi fólks með fatlanir gerir ráð fyrir því að það verði að liggja fyrir frjálst og upplýst samþykki við þessari meðferð.“

Frétt mbl.is: Á Klepp eftir mikla kannabisneyslu

Frétt mbl.is: Hafa ekki setið auðum höndum