Skip to main content
Greinar

Unghugar 1. árs

By nóvember 25, 2013No Comments

Þann 24. ágúst 2009 var stofnuð ungliðahreyfing innan vébanda Hugarafls. Hugmyndin þar að baki var að mæta þörfum ungs fólks, sem hefur upplifað geðraskanir eða aðra erfiðleika

Það er nokkuð algengt að upplifa félagslega einangrun eftir að hafa glímt við andleg veikindi og erfitt er að feta veginn aftur út í lífið. Einhverjir eru að glíma við veikindin og aðrir eru á batavegi. Sumir hafa náð að halda áfram námi eða starfi á meðan veikindum stendur. Þessa einstaklinga vantar vettvang til þess að hitta annað ungt fólk sem er í svipuðum sporum eða hefur svipaða reynslu að baki.

Ungt fólk í þessum sporum hefur ekki um marga möguleika að velja. Einhvern veginn hefur það æxlast svo í þeim úrræðum sem eru til staðar t.d. Klúbbnum Geysi, athvörfum Rauða krossins, Geðhjálp og Hugarafli að ungt fólk hefur ekki náð að skjóta rótum nema að mjög litlu leyti. Í því ágæta starfi sem fer fram á þessum stöðum eru aðeins örfá ungmenni sem ná að finna sig í starfinu, (þar á meðal er undirrituð). Hvar heldur þessi hópur ungs fólks þá til? Það er stór hópur af ungu fólki úti í samfélaginu sem glímur við geðraskanir og flosnar úr námi eða vinnu. Því miður eru margir í þessum hópi sem sitja heima í vanlíðan og aðgerðarleysi.

Það er úr þessum jarðvegi sem ákveðið var að stofna ungliðahreyfingu. Nokkrir ungir notendur geðheilbrigðiskerfisins innan Hugarafls tóku sig saman og þann 24. ágúst 2009 var stofnfundurinn haldinn. Fljótlega fór að bætast í hópinn og augljóst var að hreyfingin yrði að fá nafn. Af nokkrum hugmyndum varð nafnið Unghugar Hugarafls fyrir valinu. Vísunin til Hugarafls varð að koma fram að mati hópsins. Unghugar starfa eftir sömu starfsreglum og Hugarafl, með jafningjagrunn og valdeflingu að leiðarljósi.

Hópurinn hefur bæði stækkað og minnkað. Nýverið hefur farið fram uppstokkun og endurnýjun á innra starfi Unghuga og hittist hópurinn á vinnufundum á miðvikudögum. Vinsamlegast skrifaðu okkur á hugarafl@hugarafl.is eða hringdu í síma 4141550 og láttu vita af þér.
Við, Unghugar, viljum þakka Hugarafli fyrir stuðninginn. Okkur hefur verið sýnt mikið traust, stuðningur og hvatning allt frá því er hugmyndinni að ungliðastarfinu var viðrað við Hugarafl.

Þórey Guðmundsdóttir