Skip to main content
Greinar

TíuTíu kerfið

By April 26, 2017No Comments

IMG_0320Mig langar að segja ykkur frá kerfi sem ég hannaði fyrir sjálfa mig, útkoman úr þessu kerfi var eitthvað sem ég átti aldrei von á, ég trúði ekki að þetta litla kerfi myndi á nokkurn hátt hjálpa mér í mínum bata. Ég ákvað að prófa þetta með heilum  hug eins og ég hef prófað allt annað. Það má segja að ég hafi sett mig í hálfgerða atferlismeðferð hjá sjálfri mér.

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá heiti ég Kristín Hildur og  er 26.ára. Í desember 2014 fékk ég taugaáfall vegna mikils álags í vinnu og að reyna að vera eins og allir vildu að ég væri. Árið 2014 fór ég í 5 jarðarfarir, allt fólk sem mér þóttir svo vænt um og mun aldrei gleyma.

Daginn sem ég fékk taugaáfallið var mér skutlað um leið á bráðamótöku geðdeildar þar sem ég fékk engin svör eða ráðleggingar, bara lyf.

Margt og mikið hefur gerst síðan þá, ég hef misst fleiri sem hafa tekið sitt eigið líf og ég reyndi að taka mitt eigið líf 30.mars 2016 en mér var bjargað, ég er heppin og hugsa um það á hverjum einasta degi. Ef að sjúkrabíllinn hefði komið 10 mínútum seinna væri ég dáin.

Eftir öll þessi áföll og svo mörg önnur ákvað ég að taka í taumana sjálf. Ég vildi taka líf mitt til endurskoðunnar aðþví að svona vildi ég ekki lifa. Ég veit að mér er ætlað eitthvað miklu meira en að deyja 25.ára. Hvað var mér ætlað að gera? Það veit ég ekkert um en það kemur  í ljós.

Ég hef hitt fullt af allskonar fræðingum sem vildu bara dæla í mig einhverjum lyfjum og ef ég fann engann mun þá var mér sagt að taka meira…aftur og aftur og aftur. Ég hlýddi mínum læknum en fann svo að lyfin létu mér líða verr, ég var eins og uppvakningur á hverjum degi alla daga, ég gat varla farið í sturtu. Ég ældi, borðaði ekki neitt í langann tíma og vá hvað ég var orðin hrædd. Svo kom sá dagur að ég ákvað að hætta á öllum þessum lyfjum, þau hentuðu mér ekki en virka örugglega fyrir einhverja aðra.

Eftir að ég hætti á lyfjunum þá vissi ég ekki alveg hvað ég átti að gera á meðan ég beið eftir næstu hjálp, sem í mínu tilfelli var starfsendurhæfing hjá Virk. Þannig að ég tók málin í mínar eigin hendur og bjó til TíuTíu kerfið mitt.

kvidiTíuTíu kerfið virkar þannig að þú skrifar niður 10 atriði sem valda þér kvíða eins og t.d að fara í Bónus, sund eða í heimsóknir. Tíu atriði sem þú þarft að gera tíu sinnum til þess að fá 100 stig, nauðsynlegt er að hafa gulrót til þess að elta því það drífur mann áfram. Ég t.d var komin langa leið í þessu kerfi og bókaði flug til Calpe, á Spáni og var þar alein í 8 daga og upplifði aldrei kvíða eða þunglyndi. Eftir að hafa unnið heiðarlega í TíuTíu kerfinu var ég tilbúin að stökkva út í djúpulaugina, fyrir þrem mánuðum síðan gat ég ekki einu sinni farið í Bónus. TíuTíu kerfið hjálpaði mér að takast á við allar mínar hindranir og hræðslu. Stundum var erfitt að safna stigum en ég vissi að þegar það væri búið þá væru mér allir vegir færir.

Ég er ekki að segja að TíuTíu kerfið bjargi þér, það bjargaði mér en ég mæli samt með því að þú prófir það lesandi góður. 1 stigið í þínu kerfi getur gert svo mikið, maður fyllist af von og trú um að allt verði í lagi.

Ég hef talað um þetta kerfi við sálfræðing sem bað mig um leyfi til þess að fá að tala um það á fundi og ég hef verið beðin um að tala um kerfið í samtökum sem heita Út á þjóðveg. Ég trúi því að allir sem vilja ná bata prófi þetta kerfi og upplifi það sama og ég, frelsi, sjálfstraust og drifkraft.

Gefðu þér tíma til þess að gera þetta, það skiptir ekki máli hveru lengi þú ert að þessu, endaspretturinn er alltaf sá sami.

Með greininni fylgir mín útgáfa af kerfinu sem þið getið breytt eins og ykkur hentar.

Gangi ykkur vel,
Kristín Hildur Pálsdóttir
Grein birtist upphaflega á kvidi.is