Skip to main content
FjarfundirFréttir

Tilkynning frá Hugarafli vegna rýmkunar samkomubanns

29.maí.2020

Tilkynning frá Hugarafli vegna rýmkunar samkomubanns

Heilbrigðisráðherra samþykkti tillögu sóttvarnalæknis um rýmkun á samkomubanns frá 25. maí síðastliðnum. Við höfum átt vikulega fundi með öllu áhugasömu Hugaraflsfólki til að ákvarða hvernig við aðlögum okkur aftur og aukum starfsemi í húsnæði okkar í Lágmúla samhliða fjarfundum.

Í þessari viku (25.-29. maí) höfum við haft flesta hópa í gegnum fjarfundarbúnað en gert tilraunir með að bjóða þó nokkrum minni hópum að hittast í húsnæði Hugarafls auk bókaðra einstaklingssamtala og verkefnahópa. Við höfum unnið hörðum höndum að því að þrífa, undirbúa og taka húsnæðið í gegn. Einnig höfum við fest kaup á enn meiri hreingerningarvörum.

Í næstu viku (1.-5. júní) ætlum við að bjóða öllum jafningjastuðningshópum, verkefnahópum og einstaklingssamtölum að vera í húsnæði Hugarafls, Lágmúla 9, að undanskyldum allra fjölmennustu hópunum okkar. Þeir hópar sem munu funda áfram á zoom þessa vikuna eru bati, Hugaraflsfundur, valdefling og drekasmiðja. Þetta gerir það að verkum að við verðum með 1 fjarfund á dag – sem þjónar þá einnig fólki sem ekki á heimangengt þar sem það tilheyrir áhættuhópum vegna smithættu.

Við munum einnig halda áfram með opið samtal í beinu streymi frá likesíðu Hugarafls á facebook og vef Stundarinnar á föstudögum frá kl. 11-12.

Þótt slakað hafi verið á tveggja metra reglunni viljum við hvetja öll sem koma í húsnæði til að fara áfram varlega og hafa tvo metra á milli sé þess kostur og að virða óskir þeirra sem vilja halda tveggja metra fjarlægð. Höfum virðingu og skilning að leiðarljósi.

Hreinsivökvi og þurrkur eru til staðar. Öll sem koma í húsnæðið eru vinsamlega beðin um að ganga vel um og hreinsa snertifleti á tækjum og tólum eftir notkun – t.d. kaffivél, skúffum, vaski, uppþvottavél, borð.

Við höfum tekið á móti fjölda nýliða allar þær vikur sem samkomubannið hefur varað. Við höldum áfram að gera slíkt og biðjum þau sem hafa áhuga á að nýta sér starfsemi Hugarafls að hafa samband í s: 414 1550 eða með tölvupósti á hugarafl@hugarafl.is til að bóka kynningarviðtal. Ef við á er viðkomandi boðið strax inn í dagskrá Hugarafls.

Við höldum áfram að vanda til verka og eigum vikulega fundi sérstaklega til að skipuleggja starfsemi komandi viku og ræða hvernig við getum snúið okkur varðandi sóttvarnir. Allar frekari, ítarlegri upplýsingar er að finna á lokuðum facebook hópi virkra Hugaraflsfélaga.