Skip to main content
Fréttir

Til upplýsingar í kjölfar fréttar RÚV sem birt var í tíufréttum 11. apríl 2018

By apríl 12, 2018No Comments

Við getum ekki svarað fyrir önnur félagasamtök en okkur sjálf, en þar sem sérstaklega var ýjað að Hugarafli í fréttaflutningi með myndum einvörðungu úr okkar mótmælum – þá höfum við eftirfarandi athugasemdir:

Varðandi skráningu og greiðslu opinberra aðila á þjónustu
Hugarafl gefur út ársskýrslu á hverju ári þar sem starfsemin, stærð notendahóps, áherslur og helstu tölfræðilegu upplýsingar eru auðfáanlegar öllum áhugasömum. Opinberir aðilar sem greiða fyrir þjónustu okkar hafa að sjálfsögðu aðgang að upplýsingum um árangursmælingar, þátttöku, hugmyndafræði og starfið sem verið er að inna af hendi.

Varðandi það að persónulegar meðferðarupplýsingar berist treglega á milli staða
Það er ekkert því til fyrirstöðu að veita upplýsingarnar, ef það er gert á forsendum einstaklingsins og með upplýstu samþykki hans. Við veitum slíkar upplýsingar ef einstaklingurinn biður um það og með þeim hætti að samræmist nýjum lögum um persónuvernd.

Varðandi straumlínulaga, beina línu sem þjónustuferli
Þjónustuferlið sem fulltrúi Landlæknisembættisins teiknar upp í fréttinni er í engu samræmi við þá hugmyndafræði sem alþjóðleg stefnumótun WHO og SÞ byggir á – og talað er um að eigi að vera. Slíkt þjónustuferli, þar sem einstaklingar komast ekki í tæri við starf félagasamtaka fyrr en eftir biðtíma hjá heilsugæslu og svo tilfallandi tilvísun frá fagaðila – er hrein hindrun. Ef fólk verður að bíða eftir tilvísun til að komast í þjónustuúrræði þá erum við að glata dýrmætum tíma til að grípa fólk þegar það hefur drifkraftinn, frumkvæðið og þorið til að óska eftir aðstoð. Þarna höfum við glugga sem hefur opnast tímabundið – og við verðum að grípa það tækifæri þegar það gefst! Það að skapa óþarfa hindranir og draga tímabilið á langinn getur hreinlega verið skaðlegt. Hér er leikið með líf.

Varðandi fagmennsku fagaðila sem vinna með félagasamtökum
Ýmis félagasamtök og notendahópar hafa ráðið til sín fagfólk sem vinnur náið með einstaklingunum sjálfum. Árangur þess starfs er ótvíræður. Sem dæmi má taka Reykjalund, Grófina, Gigtarfélagið, Ljósið og Hugarafl, og mörg fleiri. Í fréttinni er ýjað að því að fagmennsku fagaðila sem vinna samhliða notendum sé ábótavant. Það er fjarri lagi. Fagfólk sem er reiðubúið til að vinna með félagasamtökum, þ.e. samhliða einstaklingunum sjálfum og fjölskyldum þeirra, er líklegast til að veita batahvetjandi þjónustu byggða á valdeflingu. Það er krefjandi að vinna á þennan hátt, krefst þess að við breytum ríkjandi valdastrúktur og deilum valdi með notendum. Það skilar fólki líka aftur út í lífið! Það eru ekki allir fagaðilar í stakk búnir til að vinna á þennan hátt, en það eru ýmsar fagstéttir sem eru hæfar til að vinna svona og skila árangursríku, gagnreyndu, faglegu starfi.

Þessi texti var unninn og samþykktur á Hugaraflsfundi 12. apríl 2018.

Hér má finna tengla á fyrrnefnda frétt.
http://www.ruv.is/spila/ruv/tiufrettir/20180411
http://www.ruv.is/frett/segir-medferd-vid-gedroskunum-brotakennda