Skip to main content
Greinar

Þunglyndi, kvíði, geðdeild og fordómar

By janúar 11, 2015No Comments

Hugarafl_fundur
Valgerður Þorsteinsdóttir skrifar

Hvað sérð þú fyrir þér þegar þú heyrir orðið geðdeild? Ég veit hvað ég sá fyrir, áður en ég lagðist sjálf þar inn. Ég sá fyrir mér fólk í hvítum búningum, með slef niður munnvikin, ólað við spítalarúm, lokað bak við læstar dyr, lækna með róandi sprautur út í loftið. Minnir helst á hryllingsmynd þegar ég sé þetta fyrir mér. Án þess að hafa nokkra ástæðu fyrir því, þá hafði ég fordóma fyrir þessu orði. Orðinu geðdeild. Geðsjúkdómar. Geðraskanir.

Þetta hljómaði allt svo geðveikt og fjarstæðukennt fyrir mér. En önnur er svo sannarlega raunin. Það er engin ákveðin tegund af fólki sem lendir inn á geðdeild, eða þarf að berjast við geðsjúkdóma af einhverju tagi. Þetta er jú sjúkdómur.

Ef þú færð sjúkdóm, hvort sem það er krabbamein,þunglyndi eða ef þú ert með fíkn af einhverju tagi, þá þarf maður að leita sér hjálpar. Ef þú fótbrotnar þá færðu gifs, ef þú ert brotinn á sálinni þá tekur í rauninni við miklu lengra og erfiðara ferli en bara gifs.

Það er ekki hægt að smella fingrum og laga þessa geðsjúkdóma. Það tekur tíma og vinnu. Og það er svo mikilvægt að leita sér hjálpar. Það er ekki hægt að berjast við þetta einn. Það er eins og að ætla að ganga einn upp á Mount Everest án klæða, með þennan þunga og erfiða böggul á bakinu. Bókað mál að þú gefist upp á leiðinni.

Ég lít á þessi skrif sem enn eitt skrefið í mínu bataferli. Alla tíð hef ég verið mjög lokuð þegar kemur að tilfinningum mínum. Mig langar til þess að viðurkenna fyrir öllum sem vita vilja að ég er á þunglyndislyfjum og ég er á kvíðalyfjum. Mig langar líka að segja öllum sem lesa vilja að ég er sátt í eigin skinni í dag, loksins, en það hefur svo sannarlega ekki verið svoleiðis alltaf.

Ég lagði sjálfa mig inn á geðdeild í lok ágúst 2014. Þá var ég komin á botninn. Hætt í skóla, hætt í vinnu, hætt flest öllu. Mig langaði ekki að hætta öllu, alls ekki, ég bara gat ekki meira. Böggullinn var orðinn það þungur og mikill að ég hafði ekki orku í neitt annað en að sinna þessum blessaða böggul sem ég bar á bakinu.

Ég ólst upp á góðu heimili með foreldrum sem elskuðu mig og gerðu allt fyrir mig. Mér gekk vel í skóla, ég stundaði handbolta og ýmsar aðrar íþróttir af kappi. Íþróttahúsið var mitt annað heimili, starfsfólkið og þjálfararnir þar voru fjölskylda mín númer tvö. Ég get á engan hátt sett neitt út á uppeldi mitt og æsku.

Það var ekki fyrr en ég varð fyrir kynferðislegri misnotkun á fermingarárinu mínu, þá 14 ára. Ég ætla ekki nánar út í það, og það var enginn í minni fjölskyldu. Það gekk um nokkurt skeið. En á þennan hlut náði ég að loka í þó nokkur ár.

Eftir grunnskóla sæki ég um í Kvennaskólanum í Reykjavík, fyrsta árið gekk vel, ég kynnist frábærum krökkum og yndislegu starfsfólki. Vetrinum lauk, ég stundaði enn handbolta af kappi, ég náði öllum áföngum á þessu skólaári.

Um vorið tilkynnir móðir mín mér að hún og stjúpfaðir minn sem hafði alið mig upp frá 6 ára aldri væru að skilja. Þá fyrst fóru tilfinningar sem ég hafði ekki fundið fyrr að skjóta upp kollinum.

Ég fór að finna fyrir því, sem ég veit í dag að var þunglyndi, en þá datt mér ekki til hugar að ég, lífsglaða og skemmtilega ég, væri þunglynd. Gömul ör fóru að rifna upp sem höfðu gróið á þessum tíma sem ég hafði lokað á í öll þessi ár. Erfið lífsreynsla sem að enginn á að þurfa á upplifa.

Þennan vetur hætti ég að mæta í skólann, sýndi handboltanum minni áhuga, svaf fram á miðjan dag, byrjaði að ljúga að fólkinu í kringum mig sem ég elskaði mest, en meira að segja þá gerði ég mér enga grein fyrir því sem var í gangi, að ég þyrfti einhverja aðstoð.

Ég fann upp grímuna. Gríman sem maður setti upp svo að enginn vissi að það væri eitthvað að. Að ég væri ekki að mæta í skólann. Að allt væri vonlaust hjá mér.

Svona gengu mánuðirnir um nokkurt skeið. Ég hélt áfram að ljúga, mamma hélt ég væri í skólanum, gríman var á sínum stað. Glaðlynda brosgríman. Ég er ekki að segja að ég hafi alltaf þurft að vera með þessa grímu. Sem betur fer er ég svo heppin að mér leið ekki alltaf illa.

Svo kom að tímanum þegar að bróðir minn sökk djúpt á vald fíkniefnadjöfulsins. Það er erfitt að horfa upp á einhvern sem maður elskar fara svona með sig. Og maður getur ekkert gert til þess að hjálpa af því að fólk þarf að vilja hjálpa sér sjálft. Af því að maður ber böggulinn ekki endalaust sjálfur. Móðir mín varð mjög meðvirk sem er algengt þegar foreldrar horfa upp á börnin sín í fíkniefnum.

Þegar ástandið var orðið sem verst ákvað ég að flytja norður. Harðákveðin í því að snúa blaðinu við. Þá eru komin áramótin 2011–2012. Á Akureyri átti ég yndislegar vinkonur og gott fólk allt í kringum mig. Mér fór að líða betur í nýju umhverfi, byrjaði í VMA, byrjaði í handboltanum. Það gekk vel í smá tíma. Þangað til að ég fór að skrópa í skólann, erfitt að vakna á morgnana.

Djammið fór að vera númer 1,2 og 3. Þá voru tekin fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld. Það ráða fáir við allt þetta djamm og skóla og handbolta. En þarna setti ég djammið í forgang. Ég sé í rauninni ekki eftir þessum tíma, ég skemmti mér vel og kynntist mikið af fólki sem eru góðir vinir mínir í dag. En auðvitað veit ég að skólinn hefði átt að vera í fyrsta sæti. En einhvern veginn leið manni betur áhyggjulausum í djamminu með vinum sínum. Ég held áfram að ljúga að öllum í kringum mig, um að ég sé í skóla, að allt gangi vel og þar fram eftir götunum.

Svo kynnist ég kærastanum mínum, sem ég er enn þá með í dag. Þá breyttist allt til hins betra. Og hann hefur aðstoðað mig og sýnt mér skilning og þolinmæði til dagsins í dag. Djammið minnkaði og líðanin varð skárri. Skólinn fór að ganga betur. Ég hef alltaf verið góður námsmaður þegar mér hefur tekist að stunda skólann, með góðar einkunnir.

En það er ekki sjálfgefið að geta sinnt skólanum 100% þegar maður er að burðast með böggulinn endalaust á bakinu.
Þunglyndisböggulinn.

Tíminn leið og allt varð bærilegra. Þangað til það kom að vorinu 2014 þegar ég ákvað að opna á þessa erfiðu lífsreynslu sem ég upplifði þegar ég var 14 ára. Auðvitað var öll fjölskyldan mín eyðilögð, og allt fólkið í kringum mig. Þá fyrst fór ég að leita mér aðstoðar. Tala við sálfræðing einu sinni í viku. Kvíðinn fór að vera daglegur vinur minn. Ég var byrjuð í góðri vinnu sumarið 2014, og með frábæra yfirmenn. En út af þessum blessaða kvíða þurfti ég að hætta. Yfirmennirnir sýndu því góðan skilning sem betur fer, það eru ekki allir sem sýna kvíðanum skilning.

Sumir skilgreina kvíða og þunglyndi sem aumingjaskap. Þeir sem að þekkja til kvíðans vita að svo er ekki.

Og eitt sem ég vil koma á framfæri. Ég er búin að lenda í því oft, að fólk labbi upp að mér, sem ég þekki lítið eða það labbar upp að mér á djamminu, þegar Bakkus er farinn að tala. Og komi með athugasemdir eða spurningar líkt og …

„Af hverju sagðirðu ekki bara nei við hann?“
„Af hverju sagðirðu ekki frá þessu fyrr?“
„Ég vil ekki taka neina afstöðu“
„Hvernig gerðist þetta fyrst?“
„Tók hann þig bara úr fötunum eða?“

Það þarf ekki mikið til að koma manni úr jafnvægi þegar maður hefur lent í svona lífsreynslu. Ég á ekki að þurfa að segja hverjum sem er hvert einasta smáatriði. Eða bara eitthvað yfir höfuð. Fólk á að hafa vit á því að líma varirnar á sér saman stundum. Ekki það að ég skuldi einum né neinum útskýringu en maður frýs, maður verður hræddur, manni er hótað, maður lokar á þennan ógeðslega hlut sem maður upplifði.

Og ég veit að það er fólk þarna úti sem að segir mig ljúga. En mér er alveg sama, ég veit hvað er satt. Ég veit það núna, að það sem skiptir máli er það sem að ég veit og að þetta er ekki mér að kenna.

Í lok ágúst bugaðist ég svo algjörlega og var komin á ljótan stað með hugsanir mínar. Mér fannst enginn sérstakur tilgangur með lífinu. Þegar maður er kominn á svoleiðis stað verður maður að leita sér hjálpar.

Eftir nokkur viðtöl við geðlækna var mér boðið að leggjast inn á geðdeild, sem ég þáði. Mér fannst það réttast í stöðunni. Ef ég vildi hjálpa sjálfri mér. En guð minn góður, mér fannst tilhugsunin óbærileg.

ÉG Á GEÐDEILD. Það fyrsta sem ég sagði við mömmu þegar ég talaði við hana var „það má engin lifandi manneskja frétta þetta!“

Ég grét alla fyrstu nóttina, líðanin var hræðileg. Ég vildi ekki trúa því að ég væri komin á þennan stað. Mér leið smá eins og ég væri komin í fangelsi. Eftir tvo daga varð allt bærilegra, ég byrjaði á þunglyndis- og kvíðalyfjum, loksins. Það var greiningin, þunglyndi og kvíði. Starfsfólkið var yndislegt og ég kynntist frábæru fólki á þessari viku inni á geðdeild. Þegar það átti að útskrifa mig vildi ég alls ekki fara. Sem er frekar fyndið. Ég vildi alls ekki fara þarna inn og hvað þá að fara út aftur. Maður getur verið alveg klikkaður.

Við tóku 14 vikur í iðjuþjálfun upp á göngudeild og ekki var starfsfólkið þar síðra. Þar kynntist ég einnig yndislegu fólki. Ég fór að sinna sjálfri mér, áhugamálum mínum og fólkinu mínu. Loksins var ég komin til baka. Gamla Vala.

Sem sagt … eftir marga sálfræðitíma, tíma hjá geðlækni, viku á geðdeild og 14 vikur í iðjuþjálfun leið mér vel. Eins og ég gæti sigrað heiminn. Böggullinn var að mestu farinn, bros og felugrímuna sprengdi ég upp með flugeldunum á gamlárskvöld. Ég er byrjuð í skólanum á ný, tilbúin að rústa honum. Byrjuð að læra söng og ég er í fyrsta skipti spennt. Spennt fyrir komandi tíma. Í fyrsta skipti í langan tíma líður mér eins og það sé eitthvað gott fram undan.

Tilgangurinn minn með þessari sögu er ekki til þess að fá vorkunn, ég veit vel að það eru mun fleiri en ég sem eiga mun sárara um að binda. Mig langar til þess að gefa þeim sem upplifa grímuna, böggulinn og kvíðann, von. Von um að maður þurfi ekki að lifa í þessum pakka að eilífu.

Tilgangurinn með þessari sögu er sá að hver sem er, dóttir þín, sonur þinn, móðir þín, þú. Það geta allir fengið þennan sjúkdóm. Það er engin ákveðin regla á þessu.

Fólk hefur sagt við mig: „Aldrei hefði mér dottið í hug að þú værir þunglynd eða að þér liði illa, þú ert alltaf svo glöð og skemmtileg“…

Já … enda hefur gríman bjargað mér, bjargað mér frá því að fólk gæti haft einhvern grun um að ég væri að bera þennan böggul alein.

Við lifum á tímum tækninnar, facebook-kynslóðin. Facebook, þar sem allt í fullkomið. En það er eitt sem við megum ekki gleyma, fólk setur bara góðu og skemmtilegu hlutina á facebook. Það byrgir inni í sér meðal lokaðra veggja heimilisins allt það erfiða, alla bögglana, það sem að hinir mega ekki vita og sjá. Það er enginn fullkominn, það er alveg klárt mál. Hættum að reyna að vera fullkomin. Verum bara ánægð með okkur eins ófullkomin og ólík sem við erum.

Það er engin skömm í því að vera með geðsjúkdóm, að vera með fíkn, að liggja inn á geðdeild, að leita sér hjálpar. Það á enginn að þurfa á skammast sín fyrir að hjálpa sjálfum sér. Opnum umræðuna, verum opin um þessa hluti, burt með fordómana, reynum að skilja og bera virðingu fyrir líðan hjá hvoru öðru. Dæmum ekki fyrirfram.

Og ég vil taka það fram að án mömmu minnar og allrar minnar fjölskyldu veit ég ekki hvar ég væri í dag.

Einlæg kveðja með von um að þetta hjálpi einhverjum þarna úti og hjálpi fólki á einhvern hátt að skilja þennan sjúkdóm betur.

Takk ef þú last þennan pistil.
Valgerður Þorsteinsdóttir

Valgerður er ákveðin, einlæg og þrjósk ung kona, með óstjórnlegan áhuga á tónlist og söng. Er með fatafíkn á verulega háu stigi og sama og engan áhuga á pólitík.