Skip to main content
FréttirGreinar

Þess vegna ber að standa vörð um starf GET/Hugarafls

By apríl 19, 2018No Comments

Frá þögulum mótmælum við velferðarráðuneytið. Mynd: FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ari

Hópur fræðimanna við Háskóla Íslands skrifar:

Um þessar mundir er verið að efla heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem á við geðræna erfiðleika að stríða og m.a. mun Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fjölga geðteymum. Frá 2003 hefur verið starfandi þar afar öflugt geðteymi: Geðheilsa og eftirfylgd (GET) sem hefur í samstarfi við Hugarafl, frjáls félagasamtök notenda, veitt stórum hópi mikilvæga samfélagslega geðþjónustu sem byggir á valdeflingu á grundvelli batanálgunar. Um er að ræða opna þjónustu sem fólk getur leitað eftir án tilvísunar. Þá hefur GET/Hugarafl einnig lagt áherslu á forvarnarstarf og að veita aðstandendum stuðning.

Árangur af þessu starfi hefur vakið eftirtekt langt út fyrir landsteinana og hefur starfið hlotið margvíslegar viðurkenningar. Batasögur notenda varpa skýru ljósi á hvers vegna þetta úrræði er viðbót við þá þjónustu sem fyrir er: Notendum er mætt á eigin forsendum og úrræði mótuð í samvinnu við þá. Til viðbótar við þjónustu teymis fagfólks (alls 4 stöðugildi) þá vinna félagar í Hugarafli mikilvægt starf við jafningjafræðslu og stuðning. Það starf er að mestu unnið í sjálfboðavinnu þannig að úrræðið er afar hagkvæmt og hefur getað þjónað mjög stórum hópum notenda. Ýmsar athuganir og rannsóknir hafa verið unnar á árangri þess og hafa þær allar staðfest afar góðan árangur starfsins.

Þátttaka notenda og valdefling

Í stefnumótun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Evrópubandalagsins og Norrænu ráðherranefndarinnar er lögð áhersla á þátttöku notenda og valdeflingu þeirra til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Þar er lögð áhersla á nýsköpun og frumkvöðlastarf þar sem hið opinbera, samtök notenda og einkafyrirtæki vinna saman til að mæta þörfum fólks á skilvirkan hátt og að notendur taki þátt í að þróa, framkvæma og meta þjónustuna. GET og Hugarafl hafa frá upphafi byggt starf sitt á sömu grunngildum og lögð eru til grundvallar í alþjóðlegri stefnumótun sem og stefnu og aðgerðaáætlun Alþingis um geðheilbrigðismál.

Það kom því flestum í opna skjöldu þegar tilkynnt var að vegna stofnunar hinna nýju geðteyma innan heilsugæslunnar yrði GET-teymið lagt niður! Hin nýju teymi munu ekki byggja sitt starf á samvinnu við notendur í Hugarafli og geta því ekki veitt sambærilega þjónustu. Virðisaukinn sem samstarf fagfólks í GET og notenda í Hugarafli skapar er gríðarlega mikilvægur fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem njóta þjónustunnar en einnig fyrir samfélagið í heild, þar sem slíkt samstarf gerir það að verkum að hægt er að sinna mun fleiri notendum en ella væri mögulegt. Við undirritaðar hvetjum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra til að tryggja starf GET og Hugarafls til framtíðar.

Höfundar: 
Ásta Snorradóttir lektor í starfsendurhæfingu við Háskóla Íslands 
Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Steinunn Hrafnsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands