Skip to main content
Fréttir

Stuðningshópur fyrir fólk af erlendum uppruna.

By February 11, 2022February 17th, 2022No Comments

Við útbjuggum stuðningshóp fyrir fólk af erlendum uppruna sem hefur upplifað neikvæðar afleiðingar Covid-19, og þá sérstaklega atvinnuleysi.

11 manns sóttu fundina sem haldnir voru frá 18. október – 17. desember 2021. Þau voru víðsvegar að, upphaflega frá löndum í vestur-, suður- og mið-Evrópu.

Þátttakendur deildu upplifunum sínum tengt því að byggja upp nýtt líf á Íslandi. Þau ræddu ólíka reynslu af atvinnumarkaði, drauma, væntingar, markmið og áskoranir. Einnig var fjallað um persónulegar upplifanir af eigin sjálfsmynd sem innflytjendur og leiðir til að skapa heimili í nýju landi. Með þessu móti gátu hópmeðlimir fundið að þau voru ekki ein í krefjandi aðstæðum, heyrt frá öðrum um ólíkar nálganir eða lausnir við áskorunum sem þau tókust á við, og hvernig hægt væri að mynda ný félagsleg tengsl.

Hópurinn byggði á þeirri hugmynd að það að vera innflytjandi væri líklegt til að vera viðkvæm staða. Ekki síst þar sem manneskjan þyrfti að útbúa sér nýtt tengslanet frá grunni (í flestum tilfellum), læra nýtt tungumál og sjá sér farborða.

Hópurinn var leiddur af Dumitrițu Simion, sem vinnur hjá Hugarafli, er sjálf innflytjandi og menntuð í sálfræði. Hugmyndafræði jafningjastuðnings og valdeflingar voru notuð sem leiðarljós hópsins. Hópurinn veitti líka sjaldséð tækifæri fyrir fólk af erlendum uppruna sem býr á Íslandi, til að fá aðgang að geðheilbrigðisstuðningi á ensku. Verkefnið var fjármagnað í gegnum Þróunarsjóð innflytjendamála, sem er á vegum félagsmálaráðuneytisins.