Skip to main content
FréttirMyndbönd

Staða Geðheilsu – Eftirfylgdar rædd á Rúv

By janúar 11, 2018mars 8th, 2018No Comments

Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheiheilsu – Eftirfylgdar hjá heilsugæslunni, ræddi stöðu mála hjá GET og skjólstæðingum teymisins í morgunþætti á Rúv.  Auður átti fund með Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra nýverið og segir m.a. frá því samtali og áframhaldandi vinnu í að tryggja skjólstæðingum GET áfram ásættanlega og sambærilega þjónustu í kjölfarið á því.

„Mér var ágætlega tekið. Ráðherra hafði mikinn skilning á því sem ég var að tala um – að ekki mætti leggja þetta teymi niður. Hún orðaði það þannig að hún stæði með þessu verkefni. Orð ráðherra hefðu vægi. En ég sit svolítið uppi með að vita ekki alveg hvað það þýðir,“ sagði Auður Axelsdóttir, forstöðumaður geðheilsu- og eftirfylgdarteymis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Morgunvaktinni um fund hennar með heilbrigðisráðherra í gær.

Breyta á skipulagi geðheilbrigðismálanna innan Heilsugæslunnar, leggja á niður núverandi teymi geðheilsu- og eftirfylgni, sem Auður Axelsdóttir hefur leitt síðustu 15 árin, en stofna þrjú ný í staðinn, svæðisbundin, með öðrum áherslum. „Staðreyndin er sú að það stendur til að leggja niður þetta teymi, væntanlega á sumarmánuðum, sem er eins og bara á morgun fyrir mig. Af því að við erum að sinna fjölda fólks sem lendir í vanda. Eins og ráðherra sagði, þá er það forstjóri Heilsugæslunnar sem tekur þessa ákvörðun – að leggja niður þetta teymi – til þess að stofna þrjú önnur. Það á að auka þessa þjónustu innan Heilsugæslunnar, að hægt sé að leita þangað vegna geðrænna erfileika, en það er dálítið mótsagnakennt að leggja þá niður starf sem búið er að vera í 15 ár við góðan orðstír.“

Auður Axelsdóttir sættir sig illa við þessi málalok og vonast eftir að ráðuneytið finni lausn. „Ég er ennþá að vona að ráðuneytið geri það.“ Starfið sem Auður hefur leitt hefur um margt verið óhefðbundið og sjálfstætt, t.d. í samvinnu við Hugarafl, en nú verður breyting á, eins og hún lýsti á Morgunvaktinni. Hún óttast að verið sé að loka á opið kerfi fyrir bataferil þeirra sem kljást við geðræna sjúkdóma. Við taki stærra kerfi, lokaðra fyrirkomulag – ekki eins aðgengilegt. Sjálf er Auður Axelsdóttir komin í sérstaka aðstöðu, hún vinnur fyrir Heilsugæsluna en er um leið að gagnrýna skipulagsbreytingar innan hennar. „Ég held að kerfið megi aldrei verða þannig að það verji sjálft sig. Ég er að vinna fyrir það og líka að gagnrýna það. Mér finnst það nauðsynlegt. Ég verð að geta verið heiðarleg, geta sagt hvað mér finnst virka og hvað ekki. Mér finnst skorta heiðarlega samræðu þegar svona ákvörðun er tekin. Það hefur ekki verið komið heiðarlega fram við mig í þessu máli.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni með því að smella á myndina hér fyrir ofan. Jafnframt má hlusta á viðtalið á heimasíðu RÚV þar sem fréttin birtist upphaflega.