Skip to main content
Fréttir

Sigrún Halla Tryggvadóttir, Batafulltrúi Hugarafls skrifar um reynslu sína af einelti

By ágúst 26, 2015No Comments

Sigrún Halla

Þessa dagana hef ég verið í undarlegu skapi og alls kyns minningar og tilfinningar leitað upp á yfirborðið. Ástæðan er sú að ég er að minnka við mig þunglyndislyfin sem ég hef tekið meira eða minna í 20 ár. Mig langar til að vita hvernig ég er lyfjalaus- mig langar til að vita hvort allur sá árangur sem ég hef nàð í mínu bataferli haldist þó svo lyfin fari.
Ein minnig sótti á mig í gær, þegar ég lá uppi í rúmi með brjálaðan fráhvarfshöfuðverk, -eitthvað sem ég hafði ekki hugsað um mjög lengi- og mig langar til að deila því með ykkur:
Eins og flestir, ef ekki allir þeir sem þekkja mig, vita, þá varð ég fyrir talsverðu einelti í æsku. Eineltið einskorðaðist ekki við skólann, heldur var það líka í mínu nærumhverfi, í hverfinu sem ég bjó og götunni. Oft var setið um húsið mitt, það grýtt með snjókúlum, dyraat, bankað á glugga, kötturinn minn grýttur eða hundeltur af krökkum eða einhver að „njósna“ inn um gluggana. Einnig var ég oft atyrt ef ég var úti, mér tilkynnt hve ömurleg ég væri, að kötturinn minn yrði drepinn osfrv. Ég upplifði sjaldan eða aldrei að ég væri örugg fyrir slíku áreiti, hvorki heima hjá mér ne annars staðar.
Einn sumardaginn þegar ég var u.þ.b. 9-11 ára var bankað heima og stóð þar einn drengurinn sem oft var með í því að stríða mér. Hann var, aldrei þessu vant, sérlega kurteis við mig og spurði hvort gamla hjólið mitt, sem stóð ryðgandi við húsvegginn væri í notkun, Ég sagði nei, það á að fara að henda því af því það er gamalt. Hann spurði þá hvort hann mætti eiga það, þar sem hann vildi reyna að laga það og nota það. Ég vissi varla hverju ég átti að svara, en leyfði stráknum að taka hjólið, þar sem ég kunni náttúrulega ekki að segja nei, ekki þegar fólk var vingjarnlegt við mig. Skömmu síðar fór ég út að leika mér og tók eftir því að um 5-6 strákar stóðu í hring um gamla hjólið mitt neðst í götunni og voru að grýta það, lemja og sparka í það. Á meðan þeir gerðu það blótuðu þeir mér á margvíslegan hátt og létu eins og þeir væru að lemja mig en ekki gamla hjólið mitt. Ég reiddist og kallaði í þá og sagði þeim að þeir mættu þetta ekki, ég hafi ekki leyft þeim þetta. Þeir svöruðu mér með skætingi, að þeir mættu gera það sem þeir vildu við þetta hjól, ég hafi gefið þeim það og mér kæmi þetta ekki við. Ég man hvað mér fannst mér vera misboðið, eins og ég hafi verið vanvirt, undanlátsemi mín og þrá til að vera samþykkt af öðrum hafði verið fótum troðin. Mér fannst ég hafa verið beitt ofbeldi, alveg eins og gamla hjólið mitt, sem endaði beyglað, ónýtt og í ónýtum pörtum neðst í götunni. Alveg eins og eineltið hafði gert mér og geðraskanirnar sem komu í kjölfarið.
Ég vil hvetja alla til að líta ekki fram hjá einelti, foreldra, börn, kennara og aðstandendur. Einelti er ekkert grín, einelti er ofbeldi sem getur leitt til veikinda og jafnvel dauða.