„Samkennd eða self-compassion er frekar nýtt hugtak innan sálfræðinnar. Þýðingin á enska heitinu er því mín eigin. En hvað er samkennd og af hverju skiptir hún máli?
Þegar maður heyrir orðið samkennd þá dettur manni eflaust í hug að maður eigi að vera svolítið góður við sjálfan sig og gera meira fyrir sjálfan sig. Þetta er að hluta til rétt en snýst að mestu leyti um þennan innri gagnrýnanda sem við öll höfum heyrt í annað slagið og sumir heyra oftar í en aðrir,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir félagsfræðingur og heilsumarkþjálfi í pistli:
Bandaríski sálfræðingurinn Kristin Neff er smíðaði hugtakið sjálfssamúð (self-compassion) hefur skilgreint það í þrjú meginatriði.
-Að vera góð/ur og umhyggjusamur við sjálfan sig líkt og maður væri við góðan vin. Við eigum öll skilið samúð líkt og allir aðrir í kringum okkur.
-Að skilja og vita að við erum ekki þau einustu í heiminum sem gerum mistök, erum veikgeðja eða stígum feilspor. Það er hluti af því að vera manneskja og allir ganga í gegnum einhvers konar erfiðleika á lífsleiðinni. Við erum ekki ein í þjáningum okkar.
-Núvitund, að vera meðvituð um tilfinningar okkar án þess að veita þeim of mikla athygli og geta ekki sleppt hugsunum um þær.
Þetta virkar mjög einfalt en á það til að gleymast og þá sérstaklega hjá okkur konum. Rannsóknir hafa sýnt að karlmenn eru aðeins betri í að dæma sjálfa sig ekki of hart og hafa meiri samúð með sjálfum sér heldur en við konur. Við konur eigum líka frekar til að fá samviskubit yfir öllu mögulegu.
En af hverju er þetta mikilvægt? Jú, þetta hefur verið mikið rannsakað og sýnt hefur verið fram á að aukin samkennd kemur mjög vel út fyrir andlega heilsu. Nýrri rannsóknir eru einnig að leiða í ljós að það er betra að skora hátt á skala samkenndar en skala sjálfstrausts. Sjálfstraust felur oft í sér samanburð við aðra sem getur haft neikvæðar afleiðingar, auk þess sem sjálfstraust stendur oft og fellur með ytri aðstæðum.
Samkennd er meira inn á við og felur ekki í sér samanburð við aðra og er gjarnan stöðug í gegnum erfiðleika. Niðurstöður sálfræðitilrauna hér í Álaborgarháskóla hafa sýnt að þeir sem skora yfir meðallagi á skala sjálfssamúðar eru ólíklegri til að upplifa innri togstreitu líkt og samviskubit auk þess að skora almennt lægra á stressi, kvíða og þunglyndi.
Helstu kostir samkenndar samkvæmt rannsóknum eru:
- Veitir meiri gleði
- Veitir meiri bjartsýni
- Hefur jákvæð áhrif á líkamsímynd (e. body image)
- Eykur hvatningu (e. motivation)
- Vekur meira sjálfstraust eða sjálfvirði (e. self-worth)
- Getur minnkað stress, kvíða og þunglyndi
Hér eru tvær léttar æfingar til að koma þér af stað ef þú hefur áhuga á að auka samkennd þína:
- Næst þegar þú talar niður til sjálfs þíns taktu eftir því og reyndu að hugsa um það hvernig þú mundir tala við besta vin þinn eða maka í sömu aðstæðum. Mundir þú virkilega tala við vin þinn með sama harða gagnrýnistón? Breyttu tóninum líkt og hann komi frá vini sem hvetur þig áfram í stað þess að brjóta þig niður.
- Settu sjálfa/n þig og raunir þínar í víðara samhengi. Þú ert ekki ein/n um að ganga í gegnum erfiðleika og þetta er hluti af lífinu. Það hafa allir gert mistök og mistök er hluti af því að vera manneskja.
Fyrir áhugasama eru til fleiri æfingar á heimasíðu Kristin Neff.
http://self-compassion.org/category/exercises/
Ég vil hvetja alla til að gefa þessu tækifæri. Stundum þarf bara lítinn lykil til að opna stórar dyr og samkennd gæti verið lykillinn að bættri geðheilsu fyrir marga.
Grein birtist upphaflega á mbl.is