Skip to main content
Greinar

Sam­kennd lyk­ill að bættri geðheilsu

By March 20, 2017No Comments
Þórey Kristín Þórisdóttir.

Þórey Krist­ín Þóris­dótt­ir. mbl

„Sam­kennd eða self-compassi­on er frek­ar nýtt hug­tak inn­an sál­fræðinn­ar. Þýðing­in á enska heit­inu er því mín eig­in. En hvað er sam­kennd og af hverju skipt­ir hún máli?

Þegar maður heyr­ir orðið sam­kennd þá dett­ur manni ef­laust í hug að maður eigi að vera svo­lítið góður við sjálf­an sig og gera meira fyr­ir sjálf­an sig. Þetta er að hluta til rétt en snýst að mestu leyti um þenn­an innri gagn­rýn­anda sem við öll höf­um heyrt í annað slagið og sum­ir heyra oft­ar í en aðrir,“ seg­ir Þórey Krist­ín Þóris­dótt­ir fé­lags­fræðing­ur og heil­su­markþjálfi í pistli: 

Banda­ríski sál­fræðing­ur­inn Krist­in Neff er smíðaði hug­takið sjálfs­samúð (self-compassi­on) hef­ur skil­greint það í þrjú meg­in­at­riði.

-Að vera góð/​ur og um­hyggju­sam­ur við sjálf­an sig líkt og maður væri við góðan vin. Við eig­um öll skilið samúð líkt og all­ir aðrir í kring­um okk­ur.

-Að skilja og vita að við erum ekki þau ein­ustu í heim­in­um sem ger­um mis­tök, erum veik­geðja eða stíg­um feil­spor. Það er hluti af því að vera mann­eskja og all­ir ganga í gegn­um ein­hvers kon­ar erfiðleika á lífs­leiðinni. Við erum ekki ein í þján­ing­um okk­ar.

-Nú­vit­und, að vera meðvituð um til­finn­ing­ar okk­ar án þess að veita þeim of mikla at­hygli og geta ekki sleppt hugs­un­um um þær.

Þetta virk­ar mjög ein­falt en á það til að gleym­ast og þá sér­stak­lega hjá okk­ur kon­um. Rann­sókn­ir hafa sýnt að karl­menn eru aðeins betri í að dæma sjálfa sig ekki of hart og hafa meiri samúð með sjálf­um sér held­ur en við kon­ur. Við kon­ur eig­um líka frek­ar til að fá sam­visku­bit yfir öllu mögu­legu.

En af hverju er þetta mik­il­vægt? Jú, þetta hef­ur verið mikið rann­sakað og sýnt hef­ur verið fram á að auk­in sam­kennd kem­ur mjög vel út fyr­ir and­lega heilsu. Nýrri rann­sókn­ir eru einnig að leiða í ljós að það er betra að skora hátt á skala sam­kennd­ar en skala sjálfs­trausts. Sjálfs­traust fel­ur oft í sér sam­an­b­urð við aðra sem get­ur haft nei­kvæðar af­leiðing­ar, auk þess sem sjálfs­traust stend­ur oft og fell­ur með ytri aðstæðum.

Sam­kennd er meira inn á við og fel­ur ekki í sér sam­an­b­urð við aðra og er gjarn­an stöðug í gegn­um erfiðleika.  Niður­stöður sál­fræðitilrauna hér í Ála­borg­ar­há­skóla hafa sýnt að þeir sem skora yfir meðallagi á skala sjálfs­samúðar eru ólík­legri til að upp­lifa innri tog­streitu líkt og sam­visku­bit auk þess að skora al­mennt lægra á stressi, kvíða og þung­lyndi.

Helstu kost­ir sam­kennd­ar sam­kvæmt rann­sókn­um eru:

  • Veit­ir meiri gleði
  • Veit­ir meiri bjart­sýni
  • Hef­ur já­kvæð áhrif á lík­ams­ímynd (e. body ima­ge)
  • Eyk­ur hvatn­ingu (e. moti­vati­on)
  • Vek­ur meira sjálfs­traust eða sjálf­virði (e. self-worth)
  • Get­ur minnkað stress, kvíða og þung­lyndi

Hér eru tvær létt­ar æf­ing­ar til að koma þér af stað ef þú hef­ur áhuga á að auka sam­kennd þína:

  • Næst þegar þú tal­ar niður til sjálfs þíns taktu eft­ir því og reyndu að hugsa um það hvernig þú mund­ir tala við besta vin þinn eða maka í sömu aðstæðum. Mund­ir þú virki­lega tala við vin þinn með sama harða gagn­rýnistón? Breyttu tón­in­um líkt og hann komi frá vini sem hvet­ur þig áfram í stað þess að brjóta þig niður.
  • Settu sjálfa/​n þig og raun­ir þínar í víðara sam­hengi. Þú ert ekki ein/​n um að ganga í gegn­um erfiðleika og þetta er hluti af líf­inu. Það hafa all­ir gert mis­tök og mis­tök er hluti af því að vera mann­eskja.

Fyr­ir áhuga­sama eru til fleiri æf­ing­ar á heimasíðu Krist­in Neff.

http://​self-compassi­on.org/​ca­teg­ory/​ex­ercises/

Ég vil hvetja alla til að gefa þessu tæki­færi. Stund­um þarf bara lít­inn lyk­il til að opna stór­ar dyr og sam­kennd gæti verið lyk­ill­inn að bættri geðheilsu fyr­ir marga.

Grein birtist upphaflega á mbl.is