Skip to main content
Fréttir

Ráðherra dáist að hugrekki eftirlifenda

By september 11, 2014No Comments

Ráðherra dáist að hugrekki eftirlifenda
Innlent
kl 07:00, 11. september 2014

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fagnar aukinni umræðu um sjálfsvíg. VÍSIR/PJETUR
Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar:

„Við munum klárlega skoða þetta og geri ég fastlega ráð fyrir að þetta verði tekið upp í mótun nýrrar geðheilbrigðisstefnu,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar hann er spurður um viðbrögð stjórnvalda við mikilli umræðu síðastliðna daga um sjálfsvíg.

Vísir hefur fjallað um sjálfsvíg, rætt við fagaðila, eftirlifendur og þá sem reynt hafa að fremja sjálfsvíg síðustu daga. Allir eru sammála um að umræðan þurfi að opnast með aukinni fræðslu um geðheilbrigði og stuðningur þurfi að vera meiri. Einnig hefur verið bent á að sálfræðiþjónusta á Íslandi sé of dýr og því hafi ekki allir jafnt aðgengi að aðstoð þegar bera fer á vanlíðan.

„Við erum að þreifa okkur áfram varðandi sálfræðiþjónustu, til dæmis að hún verði teymisvinna í heilsugæslunni,“ segir Kristján og bendir á að fjármunir séu veittir í málaflokkinn með þjónustu á Landspítala og hjá heilsugæslunni. „Það má hins vegar alltaf gera betur.“

Kristján var á málþingi í gær vegna Alþjóðadags forvarna og varð djúpt snortinn af því sem hann varð vitni að þar.

„Það þarf hugrekki til að standa upp og lýsa þeim gríðarlega tilfinningavendi sem menn verða fyrir þegar aðstandandi fremur sjálfsvíg og umræðan sem slík frásögn vekur er afar mikilvæg,“ segir Kristján og bætir við að fordómalaus umræða sé jafnvel mikilvægari en fjármagn í fagþjónustuna.