Skip to main content
Fréttir

Mikilvægur pistill frá Hugaraflskonu, Lindu Mundu.

By júlí 31, 2020No Comments

Í mörg ár hef ég verið að berjast við spikið mitt og ekkert gengið. Ég var komin að uppgjöf því það var sama hvernig ég reyndi, ekkert gerðist. Ótal rannsóknir og læknaviðtöl í gegn um tíðina, leiddu alltaf í ljós að ég var eins heilbrigð og manneskja getur verið. En ég fann samt alltaf að eitthvað var að en gat ekki útskýrt það. Ég hafði bara sterka tilfinningu fyrir því. Svo fór ég í hjartaskoðun um daginn, hjá Hjartamiðstöðinni, og hjartalæknirinn ákvað að taka mig alveg í gegn. Hún sagði svo að kvenhormónarnir væru í rugli og lét mig á lyf við því. Allt í einu fór allt af stað. Það var eins og það hefði losnað um stíflu. Það var mögnuð tilfinning! Ég hef síðan haldið mínu striki í hreyfingu og mataræði en bætt lyfinu við. Núna er vika 5 og ég hef misst nærri því 7 kg. Að vísu er allavega helmingurinn af því hreinsun líkamans en samt! Kerfið er farið að virka! Það breytir vissulega hugarfarinu að finna loksins lausn á vandanum. Maður eflist við það að sjá og finna loksins árangur af erfiðinu. Læknar hafa svo oft sagt við mig að ég sé bara ekki nógu dugleg, eða að ég sé móðursjúk, eða ímyndunarveik. Það dregur mann niður. Svo munar líka um það að vera laus við þunglyndið sem hefur kæft mig síðustu 20 ár. Núna hef ég fulla trú á því að mér takist að losna við spikið mitt! Þó ekki sé nema hluta af því 😉
Mér þykir samt mjög sorglegt að hugsa um öll þessi ár þar sem ég fór ítrekað til lækna til að biðja um aðstoð. En þar sem rannsóknir komu alltaf vel út var ég einfaldlega stimpluð sem of feitur letihaugur. Þessir fitufordómar í heilbrigðiskerfinu eru hrikalega niðurdrepandi og niðurlægjandi og það er erfitt að taka við ásökunum og skömmum þegar maður er að gera eins vel og maður getur. Ég velti því líka fyrir mér hvort að ég hefði verið kölluð ímyndunarveik og móðursjúk ef ég væri karlmaður 
Björnin er ekki unnin, langt þar í frá, en svona góð byrjun er afar hvetjandi. Og ég hugsa alltaf hlýlega til þessa frábæra hjartalæknis sem sat og hlustaði á mig og það sem meira er, tók mark á mér! Af hverju gerðu allir hinir læknarnir það ekki? Það er líka sorglegt að fitufordómar skuli vera normið en ekki undantekning. Og það gildir ekki bara um heilbrigðiskerfið heldur samfélagið okkar í heild.
En allavega, ég held áfram mínu striki glöð í lund, sterk og dugleg, því það hef ég alltaf verið!
Takk, þið sem nenntuð að lesa til enda