Skip to main content
Fréttir

Ósáttust við atvinnuþátttöku geðsjúkra

By febrúar 10, 2014No Comments

Ósáttust við atvinnuþátttöku geðsjúkra

Þátttakendur voru ósáttastir við að fólk með geðsjúkdóma og þroskaskerðingar tækju sæti á þingi. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Innlent
kl 07:00, 10. febrúar 2014

Eva Bjarnadóttir skrifar:

Íslendingar reynast neikvæðari gagnvart atvinnuþátttöku fólks með geðsjúkdóma eða þroskahömlun heldur en þátttöku blindra og heyrnarlausra. Fólk er almennt jákvæðast gagnvart atvinnuþátttöku hreyfihamlaðra. Þetta kemur fram í rannsókn sem Öryrkjabandalagið fékk Félagsstofnun Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum til að vinna.

Rannsóknin, sem kannaði viðhorf fatlaðra, sveitarstjórnarmanna og almennings, leiddi í ljós að Íslendingar reynast ósáttari við tilhugsunina um að fólk með geðsjúkdóm eða þroskahömlun taki sæti á Alþingi, sinni umönnun barna, afgreiði í verslun eða starfi með þeim að félagsmálum heldur en blindir, heyrnarskertir eða hreyfihamlaðir.

Meiri munur reyndist vera á hópunum þegar spurt var um sæti á Alþingi og umönnun barna, heldur en afgreiðslu í verslun eða þáttttöku í félagsmálum. Í heild reyndist sláandi munur vera á því hversu þátttakendur voru almennt ósáttari við fatlaðir sinntu umönnun barna, miðað við hin störfin. Þar komu fólk með geðsjúkdóma langverst út. Á skalanum 1 til 5, þar sem 1 var mjög ósáttur, fengu geðsjúkir 2,9 en hinir á bilinu 3,2 – 3,8.

Rannveig Traustadóttir

„Það sem er mest áberandi er neikvætt viðhorf til þeirra sem eru með geðraskanir,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir félagsfræðingur sem segir niðurstöðuna benda til þess að mestir fordómar í samfélaginu séu gagnvart geðsjúkum og þroskaskertum.

Konur voru líklegri en karlar til þess að vera sáttar við atvinnuþátttöku fatlaðra. Guðbjörg segir það yfirleitt þannig að konur eru jákvæðari en karlar í garð minnihlutahópa. Þá voru yngstu og elstu hóparnir neikvæðastir og háskólamenntaðir voru jákvæðari en svarendur með grunn- eða framhaldsskólamenntun.

Í sömu rannsókn var könnuð virkni fólks með fötlun og öryrkja. Reyndist tæplega helmingur þátttakenda vera óvirkur, það er án atvinnu, ekki í dagþjónustu og ekki í atvinnuleit. „Við sjáum að yfir áttatíu prósent fólks með meðfæddar skerðingar eru í skipulegri virkni. Aðrir skerðingarhópar eru mun síður í skipulegri virkni yfir daginn,“ segir Rannveig Traustadóttir, forstöðumaður rannsóknarseturs í fötlunarfræðum.

Rúmlega fjörutíu prósent fólks með geðsjúkdóma og sextíu prósent með stoðkerfissjúkdóma reyndust ekkert hafa við að vera á daginn. „Það er mikilvægt að leita ástæðna þess að svona stórir hópar hafa ekkert við að vera yfir daginn eða að kanna hvað þessir hópar eru að gera,“ segir Rannveig.

Rannveig segir örorkuna oft koma í veg fyrir virkni, en svo geti virknin falist í öðru en því sem spurt var um. Þar sem meirihluti hópsins er konur yfir fimmtugu gæti önnur virkni, svo sem aðstoð við fjölskyldu, haft mikið vægi.

Ellen Calmon er formaður Öryrkjabandalagsins. VÍSIR/VALGARÐUR

Vilja skapa hundrað ný störf

Áður en niðurstöður rannsóknarinnar lágu fyrir hóf Öryrkjabandalagið samtal við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðherra um að skapa hundrað ný störf fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir það koma öllum til góða að fólk með skerta starfsgetu taki meiri þátt í samfélaginu. „Það gæti leitt til þess að fólk þurfi minni heilbrigðisþjónustu, svo leiðir það af sér betri lund og meiri peninga á milli handanna.“

Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að munur var á viðhorfum starfsfólks sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa hvort fólk með fötlun þurfi á meiri þjónustu að halda.

„Starfsfólkið var líklegra til þess að telja ýmislegt upp á vanta, en kjörnu fulltrúarnir töldu að ýmsum markmiðum hefði verið náð. Þetta segir okkur kannski að það vanti þekkingu á málaflokknum. Ef til vill þurfum við að fara af stað með fræðslu fyrir sveitastjórnir um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og fleira,“ segir Ellen, sem telur að hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknarinnar í þágu samfélagsins alls.